Linda Jónsdóttir er tekjuhæsta kona landsins og í öðru sæti yfir tekjuhæstu Íslendingana en hún var með 35 milljónir króna í tekjur á mánuði á síðasta ári. Eins og greint hefur verið frá er Árni Sigurðsson, aðstoðarforstjóri JPT Marel, tekjuhæstur en hann var með 40 milljónir á mánuði í fyrra.
Linda starfaði í 15 ár hjá Marel, þar á meðal sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs og framkvæmdastjóri rekstrarsviðs. Hún hætti hjá Marel í maí í fyrra þegar hún var ráðin aðstoðarforstjóri íslenska heilbrigðistæknifyrirtækisins Sidekick Health. Í síðasta mánuði hætti hún hjá Sidekick Health þegar hún tók við stöðu framkvæmdastjóra fjármálasviðs Alvotech. Linda er stjórnarformaður Íslandsbanka.
Í öðru sæti yfir tekjuhæstu konur landsins er Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto á Íslandi. Rannveig var með 11 milljónir króna í tekjur á mánuði í fyrra samanborið við 9 milljónir árið 2023. Rannveig hefur starfað hjá álverinu síðan árið 1990 og verið forstjóri síðan 1997.
Hrund Rudolfsdóttir, fyrrverandi forstjóri Veritas Capital er í þriðja sæti yfir tekjuhæstu konurnar með 10,6 milljónir króna á mánuði. Hrund er framkvæmdastjóri Sólvalla rekstarfélags ehf. og situr í stjórnum Skaga og Nova.
Sesselja Sigurborg Ómarsdóttir, lyfjafræðiprófessor og fyrrverandi framkvæmdastjóri lyfjavísinda hjá Alvotech, er í fjórða tekjuhæsta konan með 10,4 milljónir króna á mánuði. Hún hætti hjá Alvotech í fyrra en var ráðin forstjóri íslenska líftæknifyrirtæksins Genís á Siglufirði í desember síðastliðnum.
Stacey Beth Katz er í fimmta sæti yfir tekjuhæstu konur landsins með 9,5 milljónir króna á mánuði. Stacey starfaði í 10 ár hjá Marel, m.a. sem fjármálastjóri en hætti störfum þar vorið 2024. Í nóvember í fyrra var hún ráðin fjármálastjóri Wisefish, sem er hugbúnaðarhús í viðskiptalausnum fyrir sjávarútveg.
Nú eru fimm konur á topp 20 lista yfir tekjuhæsta fólk landsins en árið 2023 komust einungis Rannveig Rist og Hrund á þann lista.
Vegna útgáfu Tekjublaðsins er nauðsynlegt að árétta að um er að ræða útsvarsskyldar tekjur á árinu 2024 og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og önnur aukastörf og hlunnindi vegna kaupréttarsamninga. Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá. Í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, t.d. af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Hafa verður í huga að inni í tekjum getur verið einskiptisgreiðsla vegna úttektar á séreignasparnaði hjá lífeyrissjóði.
Hægt er að kaupa Tekjublaðið hér. Að auki er blaðið til sölu í öllum helstu verslunum landsins.