Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, er efstur á lista Tekjublaðs Frjálsrar verslunar yfir tekjuhæstu sveitarstjórnarmennina á síðasta ári. Hann fékk greitt að jafnaði 3,1 milljón króna á mánuði miðað við greitt útsvar. Birgir tók við sem bæjarstjóri í byrjun mars í fyrra en hann var áður forstjóri Reykjalundar endurhæfingarmiðstöðvar í Mosfellsbæ.
Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, er í öðru sæti á listanum með 2,8 milljónir á mánuði. Gunnar var einnig í öðru sæti í síðustu útgáfu Tekjublaðsins fyrir árið 2018.
Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar Akureyrar, er eina konan í efstu tíu sætunum en hún vermir fjórða sætið með nærri 2,5 milljónir að jafnaði á mánuði.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, var í tuttugasta sæti yfir tekjuhæstu sveitarstjórnarmennina árið 2018 en er nú kominn í tíunda sætið. Tekjur hans námu 2,1 milljón króna á mánuði á síðasta ári.
Tekjur tíu hæstu á mánuði að jafnaði í þúsundum króna:
- Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar - 3.098
- Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar - 2.796
- Magnús Örn Guðmundsson, forseti bæjarstj. Seltjarness - 2.509
- Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstj. Akureyrar - 2.484
- Gunnar Valur Gíslason, forseti bæjarstj. Garðabæjar - 2.358
- Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraness - 2.327
- Jóhann Friðrik Friðriksson, forseti bæjarstj. Reykjanesb. - 2.235
- Ármann Kristinn Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs - 2.162
- Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar - 2.141
- Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri - 2.131
Um er að ræða útsvarsskyldar tekjur á árinu 2020 og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og öðrum aukastörfum og hlunnindum vegna kaupréttarsamninga. Í launum sumra kann að vera falinn bónus vegna ársins 2019, sem greiddur var árið 2020. Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá. Í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, t.d. af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Sleppt er skattfrjálsum dagpeningum, bílastyrkjum og greiðslum í lífeyrissjóði. Hafa verður í huga að inni í tekjunum getur líka verið einskiptisgreiðsla vegna úttektar á séreignarsparnaði hjá lífeyrissjóði.
Tekjublað Frjálsrar verslunar er komið út. Finna má blaðið á helstu sölustöðum en einnig má panta eintak hér .