Eftir þensluna og góðærið sem gengu í garð í upphafi áratugarins í krafti umfangsmikilla stuðningsaðgerða vegna heimsfaraldursins virðist Seðlabankanum loksins vera að takast að rugga hagkerfinu í svefn, þótt verðbólgudraugurinn sé reyndar hlaupinn út í garð og harðneiti að fara að sofa.

Átök á vinnumarkaði og í stjórnmálum hafa sjaldan verið sérstaklega hófsöm og vingjarnleg, enda leikurinn ekki til þess gerður, en við aðstæður sem þessar geta þau orðið sérstaklega óvægin.

Við fengum prýðilega áminningu í byrjun þessa árs um hvað getur gerst þegar slíkt gengur of langt. Stál glymur á stáli og aðilar vinnumarkaðarins lenda í baklás og verða ófærir um að ná samningum.

Sem betur fer leystist sú deila þó að lokum áður en til verulegs skaða kom fyrir samfélagið. En aukin harka umræðunnar á sér aðra og enn skaðlegri birtingarmynd sem við höfum verið að mestu laus við í langan tíma en er því miður er farin að skjóta upp kollinum.

Hún er grundvöllur allrar umræðu og málamiðlana og varðar sameiginlegan skilning okkar á raunveruleikanum. Alltaf má deila um framsetningu gagna og aðferðafræði við söfnun og úrvinnslu hinna ýmsu hagvísa. Öðru gegnir hins vegar þegar áhrifamikið fólk er farið að afneita grundvallaratriðum hagstjórnar á borð við peningastefnu.

Sú var tíðin að sjálfstæði Seðlabankans þótti svo mikilvæg stoð hagstjórnar að stjórnmálamenn og aðrir valdhafar forðuðust að gagnrýna hann of mikið opinberlega, sér í lagi vaxtaákvarðanir hans. Í dag virðist hins vegar stundum vegið að bankanum úr öllum áttum þótt enn sem komið er sé blessunarlega aðeins um háværan minnihluta að ræða.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur sem dæmi ítrekað látið hafa eftir sér nýverið að stýrivextir virki bara alls ekki eins og gengið hefur verið út frá síðastliðna áratugi og fræðimenn eru á einu máli um. Hann virðist raunar vera kominn á þá skoðun að þeir virki hreinlega þveröfugt, samanber eftirfarandi ummæli í nýlegum viðtalsþætti:

„Þessi stefna stjórnvalda og Seðlabankans stríðir í raun bara gegn hagsmunum almennings í landinu. Það er með ólíkindum að Seðlabankinn skuli hjakka í þessu vaxtahækkunarfari, sem hefur engu skilað nema því að verðbólga síðustu mánaða er fyrst og fremst út af vaxtahækkunum seðlabankans, gjaldskrárhækkunum hins opinbera og síðan útlánaþenslu bankanna til fyrirtækja,“

Ragnar er þar með orðinn skoðanabróðir Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta, sem berst um þessar mundir fyrir pólitísku lífi sínu, að miklu leyti vegna stjórnlausrar verðbólgu eftir 20 ár á valdastóli.

Verðbólgan fór á flug fyrir nokkrum árum þegar Erdogan skipti út þremur seðlabankastjórum yfir nokkurra ára tímabil þar til sá núverandi, Sahap Kavcioglu, tók við og lækkaði stýrivexti hressilega ofan í tveggja stafa verðbólgu.

Viðskiptablaðið er þó vongott um að slíka valkvæða veruleikafirru sjái flestir í gegnum, enn sem komið er allavega. En upplýsingaóreiðan á sér lúmskari birtingarmyndir sem erfiðara getur reynst að uppræta.

Á dögunum var því slegið upp í fjölmiðlum og í kjölfarið vísað til þess í umræðunni að annar hver launþegi næði ekki endum saman. Við nánari athugun kemur í ljós að um er að ræða 44% svarenda í könnun sem náði aðeins til félagsfólks ASÍ og BSRB – um 80% vinnumarkaðarins vissulega, en alkunna er að sá hópur stendur að meðaltali verr að vígi hvað þetta varðar en vinnumarkaðurinn í heild.

Við þessa tvöföldu námundun bætist svo að aðferðafræðin ofmetur mjög líklega hlutfall þeirra sem hafa það hvað verst.

Fólk missir svo sem ekki svefn þótt fjölmiðlar og hagsmunaaðilar einfaldi flókna hluti með þessum hætti, en finna má mun ýktari og verri dæmi.

Á dögunum var greint, að því er virtist með fullkomlega gagnrýnislausum hætti, frá niðurstöðu könnunar sem Samtök leigjenda framkvæmdu með því að senda tæplega 60 spurninga könnun, hver aðra gildishlaðnari, á félagsfólk sitt auk þess að birta á samfélagsmiðlum. Sá reyndi blaðamaður sem þar mundaði penna tók sig meira að segja til og námundaði þau 71% svarenda sem sögðust eiga erfitt með að ná endum saman „vegna hárrar húsaleigu“ upp í 80% í fyrirsögn.

Þessi leiðari birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.