Hlutaskrá sem oft er uppnefnd kapptafla (e. Cap Table) fyrirtækja heldur utan um það hvernig eignarhlutir skiptast á milli eigenda. Þar er hægt að fylgjast með þróun eignarhaldsins frá stofnun félags og til síðustu fjármögnunar. Það sem hefur mest áhrif á mótun hlutaskrárinnar er upprunaleg skipting hlutafjár milli stofnenda, kaupréttaráætlanir og fjármögnunarlotur. Þau sem stofna nýsköpunarfyrirtæki í fyrsta skipti geta lent í ýmsum ógöngum sem erfitt getur reynst að laga eftirá. Hér er fjallað um þær gryfjur sem hægt er að falla í á hverju stigi og hvernig hægt er að koma í veg fyrir óþarfa mistök.
Stofnun félags
Fyrsta skrefið við stofn- un sprotafyrirtækis er að setja saman öflugt teymi sem hefur nauðsynlega hæfileika, þekkingu og tíma til að leggja í verkefnið áður en hægt er að greiða laun. Mikilvægir eiginleikar teymis eru:
- Skýr vörusýn
Hvernig vöru á að byggja og hvaða tækni nýtist í verkefnið. - Tæknigeta
Hæfileikar á sviði hugbúnaðarþróunar eru mikilvægir til að hefjast handa við vöruþróun. - Viðskiptavit
Þekking og tengslanet í viðeigandi atvinnugrein eða gott nef fyrir þörfum viðskiptavina og hvernig hægt sé að nálgast þá. - Leiðtogahæfni
Stofnendur þurfa að geta sannfært aðra starfsmenn um að ganga til liðs við fyrirtækið og að ná að sannfæra fjárfesta um þetta sé teymið sem getur náð árangri.
Á þessu stigi er oft óvissa um það hvernig teymið vinnur saman og hver muni leggja mest til fyrirtækisins. Sumir átta sig á því að óvissan sem fylgir frumkvöðlastarfi henti ekki og hætta. Ef ekki er vandað til verka situr eftir eignarhlutur fyrrverandi stofnanda sem ekki starfar lengur hjá félaginu og kallast það dautt hlutafé. Til að sporna við þessu er til leið þar sem stofnendur skila inn hlutum sínum í félaginu og vinna sér þá inn aftur yfir 4-6 ára tímabil (e. Reverse vesting). Með þessari nálgun fær félagið hlutina sem ekki virkjuðust og getur ráðstafað þeim sem hvatakerfi fyrir starfsmenn eða til að laða að nýja meðstofnendur.
Þeir frumkvöðlar sem dreymir um að byggja upp stór alþjóðleg fyrirtæki þurfa í flestum tilfellum utanaðkom- andi fjármagn sem kemur inn í félagið á mismunandi stigum:
- Hugmyndafjármögnun (e. Pre- Seed Investment):
Fyrirtækið er hugmynd á blaði með öflugu teymi. Fjárfestingar á þessu stigi eru oft á bilinu 1-20 milljónir króna. - Fræfjármögnun (e. Seed Investment):
Fyrirtækið er komið af stað með vöruþróun og fyrstu samskipti við viðskiptavini. Upphæðir á þessu stigi eru á bilinu 10-500 milljónir króna. - Vaxtarfjármögnun:
Fyrirtækið hefur fundið sinn markað og er að vaxa. Fjárfest er í fyrirtækjum yfir 1 milljarð króna.
Hugmyndafjármögnun er gjarnan leidd af englafjárfestum en margir vísisjóðir fjárfesta einnig á þessu stigi. Þessir aðilar byggja verðmat sitt á væntingum um árangur sem enn ekki tekjum á þeim tímapunkti. Sumir fjárfestar falla í þá gryfju að verðmeta fyrirtækið of lágt á þessu stigi og frumkvöðlar sem skortir reynslu láta stundum tilleiðast. Ef þetta gerist þá myndast ójafnvægi í hlutaskránni þar sem stofnendur eiga of lítinn hlut og erfitt getur reynst að leiðrétta það nema með útgáfu viðbótar kauprétta til stofnenda. Best er að halda verðmati fyrir- tækis innan eðlilegra marka á þessu stigi og hugsa til þess að enn sé langt í land.
Þegar vísisjóðir taka ákvörðun um fjárfestingu í nýsköpunarfyrirtæki skoða þeir hvernig þessir hlutir skiptast og eru ákveðin alþjóðleg viðmið í gildi um það hvernig hlutir stofnenda eigi að vera miðað við þroska fyrirtækis. Fjárfestar þurfa að halda þessu jafnvægi við hverja fjárfestingu til að fyrirtækið sé áfram álitlegur fjárfestingarkostur fyrir fjárfesta sem koma inn á seinni stigum.
Við hverja fjármögnunarlotu þurfa stofnendur að sýna fram á framkvæmdagetu með því að ná tilteknum áföngum. Það getur reynst farsælt að taka inn hærri upphæð á hverju stigi til að auka líkur á að ná þeim áföngum sem næsta fjármögnunarastig gerir kröfur til. Hugmyndafjármögnun nýtist í að byggja lausnina, helst í náinni samvinnu við borgandi viðskiptavini.
Fræfjármögnun nýtist í frekari vöruþróun, tilraunir með viðskiptamódel og til að ná markaðsaðlögun (e. Product Market Fit).
Vaxtafjármögnun hraðar útbreiðslu vörunnar með fjárfestingu í markaðssetningu og opnun nýrra markaða.
Því hraðar sem fyrirtækið nær þessum áföngum því auðveldara er að ná næstu fjármögnun. Ef markmiðin nást ekki getur þurft að fara í brúarfjármögnun sem hefur áhrif á hlut stofnenda og virði félagsins.
Þegar nýsköpunarfyrirtæki hefur tekist að tryggja heilbrigða hlutaskrá frá stofnun til síðustu fjármögnunar leiðir það til þess að hagnaður við sölu fyrirtækis skiptist með sanngjörnum hætti milli stofnenda, starfsmanna og fjárfesta. Félög með vel stillta hlutaskrá ná að halda því gullna jafnvægi að skila góðri ávöxtun til allra hluthafa.
Greinin birtist fyrst í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar.