Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, og Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hafa á síðustu dögum kallað eftir að gripið verði til aðgerða til að hækka lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins.

Einkunnin sé lægri en Ísland eigi skilið miðað við sterka stöðu íslensks hagkerfis, lága skuldsetningu og vöxt í útflutningsgreinum á borð við ferðaþjónustu og hugverkaiðnaði.

Vissulega má til sanns vegar færa að þar séu sóknarfæri fyrir Ísland enda hefur lánshæfi ríkissjóðs áhrif á þau lánakjör sem bjóðast ríkinu, bönkum og fyrirtækjum og þannig hagkerfinu öllu.

En stjórnvöld verða þá að axla einhverja ábyrgð á því sem þau hafa stjórn á. Eitt af því sem Fitch setti út á í nýjasta lánshæfismati Íslands eru háar opinberar skuldir. Á sama tíma virðist ríkisreksturinn orðinn stjórnlaus. Í 6,4% hagvexti og nær 10% verðbólgu var ríkið rekið með 162 milljarða halla sem samsvarar um 440 milljónum króna á dag eða 430 þúsund krónum á hvern Íslending.

Í fjárlagaáætlun síðasta árs var gert ráð fyrir áframhaldandi halla á fjárlögum út árið 2027. Eitthvað er farið að heyrast frá stjórnarheimilinu um að kannski sé tímabært að fara að sýna meiri ráðdeild í ríkisrekstri. En um leið virðast nýjar útgjaldahugmyndir vera takmarkalausar og Bjarni Benediktsson virðist búinn að gefast upp á því að taka á hallarekstrinum.

Nú er rætt um milljarð af skattfé í að styrkja rafbílakaup bílaleiga í miðju túristagóðæri, enn fleiri milljarða í að niðurgreiða kvikmyndaframleiðslu efnaðra framleiðenda frá Hollywood og áfram mætti telja. Ekki er að sjá að staðan yrði betri ef aðrir flokkar væru við völd enda eru útgjaldahugmyndir stjórnarandstöðunnar enn fleiri, þó ótrúlegt sé.

Sjálfbærni í opinberum rekstri snýst ekki bara um að stjórnvöld, í samfélagi sem samanstendur af 0,005% jarðarbúa og er að mestu er knúið áfram af grænni orku, birti langar skýrslur um eigið ágæti og göfug markmið í umhverfismálum. Hún snýst líka um að sólunda ekki skattfé borgaranna og gæta þess að rekstur hins opinbera standi undir sér.

Týr er einn af reglulegum pistlum Viðskiptablaðsins, en þessi birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 23. mars.