Samrunaviðræður á milli Arion banka og Kviku eru nú í fullum gangi. Til mikils er að vinna enda tækifæri til að mynda stærri og sterkari einingu með tilheyrandi samlegð. Fyrsta mat greiningarfyrirtækisins Akkur bendir til þess að þegar áhrifin verði að fullu komin fram muni samlegð nema hátt í sjö milljörðum króna árlega frá 2027. Ekki er lagt mat á mögulega tekjusamlegð í fyrsta matinu en von er á ítarlegri greiningu á næstunni sem mun teikna upp skýrari mynd af væntum ávinningi af samrunanum.

Það sem þykir einna helst geta lagt stein í götu samrunans, eins og reyndar flestra annarra samruna, eru afskipti Samkeppniseftirlitsins. Sporin hræða í þeim efnum enda fátt sem Páli Gunnari Pálssyni, forstjóra eftirlitsins, er óviðkomandi. Því miður hefur Samkeppniseftirlitinu tekist að skapa sér þannig orðspor að borið hefur á því að greinendur og sérfræðingar á markaði velta því ekki fyrir sér hvort heldur hvaða skilyrði eftirlitið mun láta samrunaaðila lúta til samruninn nái fram að ganga. Í því samhengi hefur verið sett fram sem líkleg sviðsmynd að Kvika selji frá sér eignastýringu sína til að liðka fyrir samþykki eftirlitsins.

Það er þó full ástæða til að staldra við og spyrja hvort slík aðgerð sé nauðsynleg. Töluverð samkeppni ríkir á íslenskum eignastýringarmarkaði og á annan tug fyrirtækja veita slíka þjónustu. Þar að auki eru einkum fjársterkir aðilar með eignir í stýringu hjá eignastýringarfyrirtækjum og vandséð að þörf sé á að ríkisstofnun stundi virka verðstýringu á þeim markaði. Loks má benda á að eignastýring er ekki séríslenskt fyrirbæri og lítið sem kemur í veg fyrir að stóreignafólk færi viðskipti sín til erlends eignastýringarfyrirtækis sýnist þeim svo.

Umræðan um málefni Samkeppniseftirlitsins kann að hafa skekkst því fólki virðist farið að þykja stórfelld inngrip af hálfu stofnunarinnar eðlileg vegna fyrri aðgerða og orðspors þess.

Viðhorf Samkeppniseftirlitsins til atvinnulífsins kristallast í tilkynningu á vef stofnunarinnar í tilefni 20 ára afmælis hennar. Þar hælir stofnuninn sjálfri sér fyrir að hafa sektað íslenskt atvinnulíf um 19 milljarða króna frá stofnun. Má líkja þessu við ef lykilmælikvarði innan lögreglunnar væri hversu marga einstaklinga hún handtekur á ársgrundvelli.

Eftirlitið segir reiknaðan ábata vegna íhlutunar stofnunarinnar vera að meðaltali 11,6-19,1 milljarður króna á ári hverju. Setja má ýmsa fyrirvara við það mat en einnig ber að líta til þeirra verðmæta sem hafa glatast vegna íhlutunar þess. Má í því samhengi nefna að er Síminn gekk frá sölu á Mílu til Ardian lækkaði kaupverðið um 8,5 milljarða vegna afskipta stofnunarinnar. Það bitnaði hvað mest á hlutöfum Símans sem eru að stórum hluta íslenskir lífeyrissjóðir. Þá má ekki gleyma tækifærunum og verðmætunum sem aldrei urðu eða verða í atvinnulífinu vegna starfshátta eftirlitsins.

Það er tímabært að Samkeppniseftirlitið líti á stærri myndina, hætti að skilgreina markaði á þrengd nálaraugans og líta svo á að tilgangur allra fyrirtækjasamruna sé að níðast á neytendum. Heppilegra væri að byggja upp umhverfi þar sem hægt er að byggja upp stór og stöndug fyrirtæki sem standast samanburð og samkeppni á alþjóðavettvangi. Til þess að hér verði hægt að auka hagvöxt og þ.a.l. velferð og lífsgæði okkar sem hér búum, þá verðum við að eiga öflug fyrirtæki þvert á atvinnugreinar.

Besta afmælisgjöf sem Samkeppniseftirlitið gæti gefið sjálfu sér og þjóðinni um leið væri að temja sér þetta hugarfar í störfum sínum. Líkurnar á því eru þó því miður engar.

Leiðarinn birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.