Við erum almennt mishrifin af breytingum og einnig eftir því hvers eðlis breytingarnar eru.
Mörgum breytingum dáumst við að og tökum fagnandi. Til dæmis öllum þeim tækifærum sem við sjáum í þróun tækninnar, hvort sem við viljum horfa til tölvanna, internetsins, farsímanna eða sjálfvirknivæðingar og gervigreindar.
En tækniþróun skapar líka tækifæri til að endurhugsa hvernig við lifum og störfum.
Hefðbundið þriggja þátta vinnumarkaðsmódel, hefðbundinn starfsferill, hefðbundin vinnuvika og hefðbundinn vinnudagur er eitthvað sem byggir á fortíð og virkar ekki endilega best til framtíðar. Við höfum í dag færi á að gera hlutina öðruvísi og betur en áður.
Ár hæfniþátta
Í desember 2022 gaf Evrópusambandið út að innan sambandsins yrði árið 2023 Ár hæfniþátta (e. Year of Skills).
Sú nálgun krefst þess að við förum að horfa meiri á hæfni hvers einstaklings og þeirra möguleika sem í einstaklingunum búa, frekar en prófgráður eða fyrri reynslu.
Þessi nálgun skapar aukinn sveigjanleika, tækifæri og samkeppnisforskot fyrir atvinnulífið og fyrir vinnuaflið sjálft.
Samkvæmt rannsóknum Evrópusambandsins skortir 4 af hverjum 10 einstaklingum sem starfa í Evrópu grunnfærni þegar kemur að stafrænni færni. Rúm 70% fyrirtækja í Evrópu tala um skort á vinnuafli og þá sérstaklega vinnuafli með stafræna færni, en einnig þegar kemur að vinnuafli í heilbrigðisgeiranum, byggingariðnað, flutninga og skipulag (logistics) o.fl.
Samkvæmt könnun Samtaka atvinnulífsins frá vorinu 2022 þá töldu u.þ.b. 40% stjórnenda í 400 stærstu fyrirtækjum Íslands að skortur yrði á vinnuafli á næstunni.
Þekkingarstörf skapa æ meiri verðmæti. Öflugt og hugvitsdrifið hagkerfi sem knúið er áfram af vinnuafli með atvinnuhæfni til framtíðar er okkur mjög mikilvægt fyrir nýsköpun, vöxt, störf og samkeppnishæfni.
Því er kominn tími á að beita nýrri nálgun við ráðningar, endurmenntun, frammistöðumælingar o.fl. Horfa þarf meira á hæfniþætti, leyst verkefni og skapað virði – og minna á prófgráður eða unnar vinnustundir.
Endurhönnun vinnu
Við stöndum frammi fyrir miklum tækifærum, en einnig áskorunum, þegar kemur að endurhönnun vinnu. Mest eru tækifærin væntanlega í þekkingarstörfum, ekki síst nú þegar við búum okkur undir fimmtu iðnbyltinguna.
Við endurhönnun vinnu, með það að markmiði að auka árangur vinnustaða og vinnuafls, þarf að þora að brjóta niður gamla formið og hugsa alla hluti upp á nýtt.
Nauðsynlegt er að setja upp ný gleraugu og greina vinnu og vinnuumhverfi út frá fjölbreyttari víddum en áður.
Hér er dæmi um spurningar fyrir vinnustaði eða stjórnendur til að spyrja sig að við endurhönnun vinnu og vinnuumhverfis:
Hæfni og störf
- Hvers konar vinnuafl þarf vinnustaðurinn? Hvað hefur vinnustaðurinn að bjóða öflugu vinnuafli?
- Er kominn tími á að endurhugsa ráðningarferli og ráðningarsambönd vinnustaðarins?
- Getum við boðið upp á meiri fjölbreytni, að vera ekki í einu starfi heldur í fjölbreyttum verkefnum þvert á vinnustaðinn?
- Myndi nást aukinn árangur með því að endurraða verkum eða verkefnum í tilteknum störfum?
Stjórnun og starfsumhverfi
- Þekkja stjórnendur þær breytingar sem eru að verða á vinnumarkaði, hafa þeir vilja, getu og færni til að takast á við þær?
- Hafa stjórnendur það sem til þarf til að laða að og halda í öflugt vinnuafl? Hvernig gengur þeim með það? Vantar þá mögulega einhverja þjálfun?
- Er áþreifanlegt og upplifað vinnuumhverfi vinnustaðarins hjálplegt við að skapa árangursríka, styðjandi og hvetjandi vinnustaðarmenningu?
- Er vinnuumhverfið að styðja við fjölbreytni, inngildingu og almenna velsæld?
Árið 2023 hefur, þrátt fyrir ýmsa óvissuþætti í alþjóða- og efnahagslegu tilliti, alla burði til að vera gott ár. Ár þar sem við höldum áfram að byggja undir enn betri framtíð, fyrir okkur og þá sem á eftir okkur koma. Höfum hugrekki til að fara nýjar leiðir í vinnulegu tilliti og munum að það sem kom okkur hingað mun ekki endilega koma okkur þangað sem við stefnum á að komast.
Höfundur er ráðgjafi og annar eiganda Opus Futura.
Pistillinn birtist í Viðskiptablaðinu, sem kom út fimmtudaginn 12. janúar 2023.