Það hefur verið sérstakt að fylgjast með Heimildinni að undanförnu. Miðillinn virðist hafa mikinn áhuga á hugtakinu sem hann kennir sig við – þá sérstaklega heimildum annarra miðla. Í fréttaskýringu sem blaðið birti um málefni Marel og fjárhagshremmingar forstjóra félagsins er að finna undarlega hendingu. Þar segir:
„Viðmælendur sem Heimildin ræddi við telja auk þess áberandi að íslenska viðskiptapressan, sérstaklega vefurinn Innherji á Vísi og Viðskiptablaðið, hafi miðlað fréttum sem falli að málstað Arion banka, en tali niður Marel, Eyri Invest feðganna. Alkunna sé að þar innanborðs séu menn í miklu vinfengi og nálægð við stjórnendur bankans.“
Það verður að teljast ansi sérstakt og sjálfumglatt þegar rannsóknarblaðamennirnir á Heimildinni eru farnir að dylgja um hverjir séu heimildarmenn annarra fjölmiðla. Slíkt dæmir sig sjálft og rétt er að hafa um það fæst orð.
En þetta virðist vera tilhneiging hjá starfsmönnum blaðsins. Þannig birtist frétt á mánudag í þessari viku þar sem blaðamaður segir frá misheppnuðum tilraunum sínum til að grafa upp hver heimildarmaður annars fjölmiðils, Nútímans, væri fyrir frétt um ástand Arndísar Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur þegar lögreglan handtók hana að morgni síðasta laugardags.
Heimildarmenn geta haft alls konar hvatir að baki uppljóstrunum sínum, það er bara eins og það er. En það gengur ekki að kalla eftir vernd sumra heimildarmanna og ofsóknum annarra allt eftir því hvaða málstað eða þingmann Heimildin er að verja í það og það skiptið. Heimildin! Hefði maður þó haldið að hún hefði einhverja prinsippskoðun á stöðu heimildarmanna.
Blaðamenn, alvöru blaðamenn, vita alveg hvernig trúnaður við heimildarmenn virkar. Dómstólar hér komust að hinu sama fyrir allnokkru í Agnesardómnum og það varð síðan til þess að löggjafinn lögfesti þann skilning.
Það er eitt og aðeins eitt, sem orðið getur til þess að rjúfa megi trúnað við heimildarmann og það er ef heimildarmaðurinn verður uppvís að lygi til þess að villa vísvitandi um fyrir blaðamanni, fjölmiðli og lesendum hans. Þá þarf að afhjúpa hrappinn og gera lesendum grein fyrir falsi hans. – Af því að trúnaðurinn er veittur sem forsenda hreinskilni ekki sem skálkaskjól vélabragða.
Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist í heild sinni í blaðinu sem kom út 28. nóvember 2023.