Það er ekki sjálfsagt mál að hið opinbera seilist alltaf dýpra í vasa skattgreiðenda.

Það er ekki sjálfsagt mál að hið opinbera seilist alltaf dýpra í vasa skattgreiðenda.

Við þær aðstæður sem við búum við nú, háa vexti og mikla verðbólgu, er mikilvægt að opinberir aðilar gæti aðhalds í rekstri, bæði til að standa undir háum vaxtakostnaði en um leið til að leggja lóð á vogarskálarnar til að hagkerfið geti náð jafnvægi á ný.

Hjá Kópavogsbæ höfum við markvisst ráðist í hagræðingar þvert á svið bæjarins og áfram verður leitað leiða til að hagræða í rekstrinum á næsta ári. Við munum meðal annars lækka kostnað í nefndum og ráðum með því að fækka fundum, sem mun skila bænum umtalsverðum sparnaði. Þá verður kortlagt hvernig unnt sé að ná hagkvæmari innkaupum, meðal annars með því að beina innkaupum bæjarins í gegnum vefverslun sem tryggir lægstu verðin hverju sinni. Hér eru aðeins nefnd tvö dæmi en áfram verður lögð áhersla á að skila góðum rekstri í lægri álögum sem allir bæjarbúar njóta góðs af. Þannig munu fasteignaskattar lækka á næsta ári til að koma til móts við hækkandi fasteignaverð sem ella hefði skilað bæjarsjóði enn hærri skattheimtu með tilheyrandi kostnaði íbúa.

Ný útgjöld og enn hærri skattar

Í umræðu í bæjarstjórn Kópavogs um fjárhagsáætlun næsta árs kom berlega í ljós hversu ólíka sýn bæjarfulltrúar hafa á það hvernig nýta eigi skattstofna bæjarins. Þannig kusu allir bæjarfulltrúar minnihlutans gegn því að lækka fasteignaskatta á Kópavogsbúa. Þess í stað gagnrýndu einstakir bæjarfulltrúar meirihlutann fyrir að vannýta tekjustofna bæjarins, bæði útsvar og fasteignaskatta. Gagnrýnin snerist því fyrst og fremst um að ekki væru meiri fjármunir sóttir úr vasa bæjarbúa til að styrkja tekjustofna bæjarins.

Þessi sýn bæjarfulltrúa á skattstofna einskorðast vissulega ekki við Kópavogsbæ. Allt of oft heyrum við stjórnmálamenn stíga fram með háleitar hugmyndir um aukin útgjöld, en sjaldnar er rætt um hvort unnt sé að forgangsraða innan þess útgjaldaramma sem fyrir er. Það kemur því ekki á óvart að opinber umsvif sem hlutfall af verðmætasköpun á Íslandi hafi að meðaltali aukist hraðar en í öðrum vestrænum ríkjum – og eru þau mestu sem þekkjast. Fyrir fjórum áratugum námu opinber útgjöld um þriðjungi af framleiðslu þjóðarinnar. Í dag er hlutfallið helmingur sem er hátt í alþjóðlegum samanburði þrátt fyrir hagstæða aldurssamsetningu þjóðarinnar og full fjármagnað lífeyrissjóðskerfi.

Virðing fyrir fjármagni fólks

Ekkert er ókeypis og þessi þróun á umfangi hins opinbera hefur verið fjármagnað með skatttekjum og skattbyrði einstaklinga og fyrirtækja því vaxið samhliða. Á sama tíma og ríkið leggur sífellt á hærri og nýja skatta eru flest sveitarfélög nánast að fullnýta sínar heimildir til lögbundinnar hámarksálagningar útsvars. Þessu til viðbótar hafa fasteignagjöld hækkað um tugi prósenta ár frá ári samhliða hækkandi fasteignaverði og fært þeim sveitarfélögum, sem ekki lækka fasteignaskatta til mótvægis, talsverðar tekjur.

Þó einstakir stjórnmálamenn virðast vera með sjálfstætt markmið að auka umsvif hins opinbera enn frekar, á kostnað skattgreiðenda, eru takmörk fyrir því hversu langt er hægt að ganga í þeim efnum. Stjórnmálamenn þurfa að bera virðingu fyrir því fjármagni sem einstaklingar vinna sér inn og líta ekki á það sem sjálfsagðan hlut að hið opinbera taki sífellt hærra hlutfall af tekjum þess.

Höfundur er bæjarstjóri í Kópavogi.