Sá sem þetta skrifar er enn að jafna sig eftir lestur greinar Ásthildar Lóu Þórsdóttur, þingmanns Flokks fólksins, og Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, sem birtist á Vísi á mánudag. Ekki var hægt að verjast hugsuninni hvort greinarhöfundum væri yfirhöfuð sjálfrátt.

Grein þeirra telur um sex þúsund orð en það er á við sæmilega metnaðarlitla B.A.-ritgerð í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Þar er hvorki meira né minna en kallað eftir afsögn Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra og varað við því að skipunartími hans verði framlengdur um fimm ár síðar í vetur.

Þetta er svo rökstutt með ruglingslegu þvaðri í bland við delluhugmyndir í hagfræði. Gert að því skóna að þeir sem fara með stjórn peningamála í Seðlabankanum séu „heimskir“ eða bara hreinlega „illa innrættir“ og sekir um „grímulausa spillingu“.

Og svo að lokum hvetja riddararnir sjónumhryggu landsmenn alla til að hitta á sig á Austurvelli næstkomandi laugardag þar sem öllu heimsins óréttlæti verður mótmælt að ógleymdri verðtryggingunni.

***

Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að Seðlabanki Íslands er ekki hafinn yfir gagnrýni og sjálfsagt kunna menn að hafa skiptar skoðanir á framkvæmd peningastefnunnar hverju sinni. Að sama skapi er það sjálfsagt meira en einnar messu virði að ræða hvort verðbólgumarkmið sé endilega hinn hentugi rammi fyrir íslenska peningamálastefnu.

Taylor-reglan.
Taylor-reglan.

Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að Seðlabankinn starfar eftir lögum og reglum sem gerir að verkum að Taylor-reglan (kennd við John Taylor en ekki Roger svo því sé haldið til haga) ræður mestu um ákvörðun vaxtastigs í landinu á hverjum tíma. Vafalaust fylgja ákveðin blæbrigði stjórnendum bankans á hverjum tíma en þau hafa ekki mótandi áhrif á framkvæmd peningamálastefnunnar.

***

En aftur að greininni. Innblástur hennar virðist fyrst og fremst vera opinn fundur í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis með Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra og Rannveigu Sigurðardóttur varaseðlabankastjóra fyrir nokkrum vikum og svo ráðstefna Þjóðarspegilsins í Háskóla Íslands í síðustu viku.

Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist í heild sinni í blaðinu sem kom út 8. nóvember 2023.