Orkuöryggi Íslendinga er ekki jafn tryggt og oft er haldið fram. Yfirvofandi hætta á eldsumbrotum við og í nágrenni Grindavíkur minnir á að lítið þurfi út af bregða til að afhending raforku og heits vatns á Reykjanesi fari í uppnám.

Orkuöryggi Íslendinga er ekki jafn tryggt og oft er haldið fram. Yfirvofandi hætta á eldsumbrotum við og í nágrenni Grindavíkur minnir á að lítið þurfi út af bregða til að afhending raforku og heits vatns á Reykjanesi fari í uppnám.

Vissulega verður seint hægt að verja sig fyrir duttlungum móður náttúru og þá sérstaklega á eldfjallaeyju á hjara veraldar. Staðreynd málsins er samt sem áður sú að Íslendingar hafa á undanförnum árum vanrækt uppbyggingu á orkuinnviðum og raforkuframleiðslu.

Meiriháttar hamfarir á Reykjanesi gætu haft mikil áhrif á framleiðslu orkuvera HS orku og þar af leiðandi á afhendingu á heitu vatni og rafmagni á svæðinu. Þessi hætta leiðir hugann að því hversu óskiljanlegar tafirnar á lagningu Suðurnesjalínu 2 hafa verið. Lagning línunnar mun efla orkuöryggi á Reykjanesi til muna.

Upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir að línan yrði tilbúin til notkunar árið 2016 en látlausar deilur um lagningu hennar töfðu framkvæmdir. Landsnet telur fórnarkostnað tafanna hlaupa á nokkrum milljörðum á ári. Ljóst er að þær verða mun dýrkeyptari ef orkuframleiðsla á svæðinu fer úr skorðum vegna eldsumbrota. Sem betur fer fékkst loks framkvæmdaleyfi fyrir lagningu línunnar í sumar. Það leyfi breytir auðvitað engu gagnvart þeim hættum sem Íslendingar standa frammi fyrir núna.

Síðan er það heita vatnið og orkuverið í Svartsengi sem verður að teljast í mikilli hættu fari allt á versta veg vegna þeirrar hættu sem nú steðjar að. Þrátt fyrir augljósa notkun á borð við húshitun á Reykjanesi skiptir starfsemin þar gríðarlega miklu máli fyrir stór landeldisfyrirtæki á svæðinu svo einhver dæmi séu nefnd. Væntanlega er einnig erfitt að halda alþjóðaflugvelli opnum án heits vatns.

Væri hægt að bregðast við slíkri atburðarás með því að tengja svæðið við heitavatnsframleiðslu á höfuðborgarsvæðinu vakna upp áleitnar spurningar um framleiðslugetu. Eins og flestir vita þá hefur verið vart við heitavatnsskort á höfuðborgarsvæðinu undanfarna vetur. Þannig þurfti að loka fjölda sundlauga í fyrravetur vegna þess að framleiðsla Orkuveitu Reykjavíkur annaði ekki álagi.

Í fjárhagsáætlun OR sem lögð var fram í fyrra koma ekki fram nein áform um að bora nýjar heitavatnsholur þrátt fyrir að varað sé við hættu á heitavatnsskorti fyrir hver jól en miklar fjárfestingar voru kynntar í Carbfix og Ljósleiðaranum.

Í grein sem Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, birti í þessu blaði í ágúst er grafalvarlegu ástandi í raforkuframleiðslu lýst og varað við yfirvofandi orkuskorti sökum tregðu til að liðka fyrir framkvæmdum við nýjar virkjanir. Í greininni segir Hörður:

„Það verður einfaldlega ekki hægt að anna afhendingu á forgangsorku á næstu árum án frekari orkuöflunar. Það þýðir að aðilar munu ekki fá raforku til starfsemi sem þegar hefur verið byggð á Íslandi, hvað þá að hægt verði að bæta þar við.“

Spá Harðar tekur auðvitað ekki til stöðunnar ef hamfarir draga úr orkuframleiðslu. Það er löngu tímabært að stjórnvöld hætti að berja hausinn við steininn og geri sér grein fyrir að dýrmætur tími hefur farið forgörðum vegna tafa á uppbyggingu orkuframleiðslu á undanförnum áratugum. Við þetta verður ekki unað lengur.

Sumir stjórnmálamenn hafa áttað sig á vandanum en andstaðan við frekari virkjunum er djúpstæð. Í minnisblaði Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis- og orkuráðherra, sem sagt var frá í Morgunblaðinu í október er dregin fram dökk mynd af stöðu orkumála. Þar kemur fram að orkuskipti séu í óvissu vegna andstöðu sveitarfélaga við framkvæmdir, veikburða flutningskerfi og óvissu um virkjunarkosti í jarðvarma.

Í nýlegri úttekt sama ráðuneytis á stöðu hitaveitna kemur fram að flestar hitaveitur landsins sjá fram á aukna eftirspurn eftir heitu vatni á næstu árum og fyrirsjáanleg vandamál standi í vegi fyrir að hægt verði að mæta þeirri eftirspurn.

Allir Íslendingar vona að allt fari á besta veg á Reykjanesi en vita á sama tíma að hættan á hamförum kann að raungerast. Viðsjárverðir tímar vegna hættunnar á eldsumbrotum á Reykjanesi ættu að vera mönnum áminning um að við höfum sofið á verðinum við að tryggja orkuöryggi hér á landi.

Leiðari Viðskiptablaðsins sem kom út 15. nóvember 2023.