Á sunnudag birtist frétt í kvöldfréttatíma Ríkissjónvarpsins um að meirihluti rýnihóps sem skipaður var af borgarráði leggi til að hlutafé Ljósleiðarans verði aukið um ellefu milljarða í útboði meðal einkaaðila. Í fréttinni er fjallað um mögulega aðkomu lífeyrissjóða og annarra fjárfesta að Ljósleiðaranum en ellefu milljarða útboð þýðir að hlutur Orkuveitunnar í félaginu fer niður í 60%.

Í fréttinni er mikið fjallað um að nauðsynlegt sé að styrkja Ljósleiðarann vegna kaupa Ardian á Mílu af Símanum síðastliðið haust. Þannig segir fréttamaður að Samkeppniseftirlitið hafi horft sérstaklega til Ljósleiðarans þegar kemur að því að tryggja samkeppni og að stjórn Ljósleiðarans hafi ákveðið að óska eftir hlutafjáraukningu þegar ljóst var að kaup franska sjóðastýringafyrirtækisins á Mílu myndu ganga í gegn.

Hérna verður að segjast að fréttamaður ríkismiðilsins sé ansi liðlegur í garð borgaryfirvalda og spuna þess um ástæðurnar fyrir hlutafjáraukningu Ljósleiðarans. Ástæða hlutafjáraukningarinnar er fyrst og fremst fjárhagsstaða Ljósleiðarans eftir að hafa fest kaup á Burðarnetinu af Sýn fyrir milljarða og miklar hækkanir á verðtryggðum skuldum félagsins.

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.