Ég veit ekki hversu margir Íslendingar héldu 30. mars hátíðlegan. Það var WoDEF dagurinn – World Day for the end of fishing. Það eru nefnilega til samtök sem berjast fyrir því að öllum veiðum í heiminum verði hætt og öllu fiskeldi. Alls staðar. Við myndum bara ekki borða fisk nema hann synti sjálfur upp á diskinn hjá okkur.

Ég veit ekki hversu margir Íslendingar héldu 30. mars hátíðlegan. Það var WoDEF dagurinn – World Day for the end of fishing. Það eru nefnilega til samtök sem berjast fyrir því að öllum veiðum í heiminum verði hætt og öllu fiskeldi. Alls staðar. Við myndum bara ekki borða fisk nema hann synti sjálfur upp á diskinn hjá okkur.

Sem betur fer virðast ekki margir vera í þessum samtökum og örugglega ekki margir Íslendingar. En hvað ef svo væri? Hvað ef þessi samtök væru stór og sterk? Hvað myndum við gera?

Mér dettur þetta í hug þegar formaður Samtaka aðila í ferðaþjónustu mætti í viðtal vegna þess að hann fékk hland fyrir hjartað þegar ráðherra veitti leyfi til sjálfbærra hvalveiða eftir dúk og disk. Að vísu var snúningur ráðherra þannig á stjórnarskrárvarin réttindi Hvals að það er algjörlega ljóst að hér verða engar veiðar þetta árið. En það að hér megi veiða 128 langreyðar af um 70 þúsund í Norður-Atlantshafi er nóg til að ferðaþjónustan byrji aftur að kvarta yfir því að einhverjir gætu mögulega frestað ferð til Íslands af því að Süddeutsche Zeitung sagði frá því á blaðsíðu 38.

Látum vera þó að almenningi finnist allt of margir ferðamenn á Íslandi og margir kvarti hástöfum undan útlendingum sem hafa tekið upp líflausan bílstíl með því að þræða þjóðvegina á hvítum Dacia Duster. Að því er virðist án þess að hafa lokið bílprófi.

Spurningin er frekar: Ætlum við að láta fólk, sem hugsanlega, samt ólíklega, gæti mögulega í óljósri framtíð haft áhuga á að koma til Íslands, segja okkur fyrir verkum? Eða ætlum við að vera þjóð sem heldur áfram að nýta auðlindir okkar með ábyrgum og arðsömum hætti, í því skyni að tryggja hér áframhaldandi góð lífskjör?

Ég veit hvorn kostinn ég myndi velja.