Á kattakaffihúsi í miðbænum í páskafríinu, þar sem dóttir mín skemmti sér við að telja kisur, heyrði ég samtal ferðamanna og leiðsögumanns. Kona sat þar með manni sínum og svaraði spurningunni um hvert á land þau ætluðu næst: „Ekki neitt. Þetta er fyrsta ferðin mín utan Bandaríkjanna, svo við ætlum að taka því rólega.“

Það var ekki sagt með vafa eða sem afsökun, þetta var val. Um leið var þetta í andstöðu við allt sem samfélagið hefur byggt á undanfarin ár: Hámarksupplifun. Í heimi sem hefur gert hraða og hávaða að reglunni hljómaði þessi setning eins og mótmæli. Ekkert brun á milli staða. Engin Gore-tex mannmergð. Enginn gullni hringur. Engar mannskaðaöldur í Reynisfjöru. Engir íshellar. Ekkert ónýtt flugvélaflak. Þau vildu kisur, kaffi og rólegheit.

Þetta fannst mér fallegt en um leið framandi. Ég á erfitt með að vera kyrr og vil nýta tímann og gera allt. Ég veit um fólk sem hefur komið þreyttara úr fríi en þegar það fór í það. Vissulega búið að sjá margar gamlar kirkjur og sjá útsýnið úr kirkjuturnunum, skoða heimili látinna skálda og listamanna, fara á öll söfnin og smakka alla réttina en er örmagna við heimkomu. Okkur er sagt að meltingin sé betri þegar við borðum hægt og tyggjum oft. Gildir eitthvað svipað um heilann?

Við ættum að hlusta á hjónin sem vildu ekki gera meira. Þau eru kannski ekki bara að gera ekki neitt. Þau eru að minna okkur á hvað það er að lifa í núinu, njóta og slappa af. Um leið og ég hlakka til að komast aftur til vinnu eftir langt páskafrí, velti ég fyrir mér hvort ég prófi það næst. Ef ég má vera að.