Víða um heim hefur verið talið mikilvægt að geta haft gaman í vinnunni enda eyða flestir dágóðum tíma ævinnar þar. Því fylgir gjarnan vellíðan, mönnum verður meira úr verki og fá betri hugmyndir og því fylgja oft hærri laun. Hér er ekki verið að fjalla um ofurhressu týpuna sem þekkt er á mörgum vinnustöðum og heldur að hún sé aðal stuðkallinn en er bara drepleiðinleg.
Mér varð hugsað til þessa þegar ég las sprenghlægilegt viðtal blaðamanns á Heimildinni við nýráðinn bankastjóra Íslandsbanka, sem bar með sér að vera spurningar og svör með tölvupóstsamskiptum. Þar spurði blaðamaðurinn bankastjórann, eiginlega upp úr þurru, hvort hann hygðist ekki stöðva að starfsmenn bankans borði með viðskiptavinum þar sem vín sé haft um hönd eða það sem hann kallaði blauta hádegisverði. Bankastjórinn skildi auðvitað ekkert hvert blaðamaðurinn var að fara.
Vandamál Íslandsbanka eða annarra fyrirtækja er ekki það að starfsmenn borði hádegisverð með viðskiptavinum eða mögulegum viðskiptavinum og skoli matnum niður með vínglasi eða bjór. Held að ekki sé til svo aumt fyrirtæki að traustum viðskiptavinum sé ekki boðinn hádegisverður með veigum eftir því sem við á, ekki einu sinni aumar lögmannsstofur. Veit ekki með þá á Heimildinni en sýnist stundum sem bæði stjórnendur og blaðamenn þar á bæ þyrftu að gera meira af því að gleðja sig. Að vera alltaf með samanbitnar varir og uppfullir af hneykslun og vandlætingu er auðvitað ekkert grín. En þeir eru nú einu sinni rannsóknarblaðamenn þótt þeir hafi enn sem komið er ekki upplýst neitt sem skiptir máli og kvarti gjarnan yfir því að fá ekki svör þótt þeir svari aldrei neinu sjálfir þegar fréttir eru um þá.
Misboðið en með lítinn áhuga á umbjóðendunum
Þegar ég sat á þingi var fjöldinn allur af þingmönnum sem gat ekki með nokkru móti haft gaman í vinnunni en voru undantekningalaust reiðir og misboðið alla daga. Líf þeirra virtist vera eitt samfellt harðlífi þar sem allt snerist um að stunda upphlaup og vera með almenn leiðindi. Áhyggjur heimsins hvíldu þungt á þeim en þeir virtust á hinn bóginn lítinn áhuga hafa á vandamálum umbjóðenda sinna, íbúa þessa lands. Það er tæplega hægt að hafa gaman í vinnunni við þessar aðstæður.
Þar sem ég er alla jafna tilbúinn að leggja mikið á mig til að aðrir geti haft gaman í vinnunni færði ég ítrekað í tal á fundum forsætisnefndar þingsins hvort ekki væri rétt að léttvín og bjór væri á boðstólum í þinginu. Þannig væri það í öllum betri þjóðþingum, nánast bara í hverju horni. Þar væri ekki töluð vitleysan, vinnubrögð betri og þingmenn öllu glaðlegri en við eigum að venjast. Þessir þingmenn leyfðu sér jafnvel að slá á létta strengi þegar við ætti. Ég taldi það líklegt til að bæta samstarfið í þinginu ef þingmönnum þætti gaman í vinnunni og kæmi jafnvel í veg fyrir störukeppni alla aðventuna og á hverju vori með þeim afleiðingum að þjóðþrifamál fengju ekki afgreiðslu.
Vísindaleg rannsókn varaþingmanns
Þessi tillaga mín var ekki byggð á sandi heldur á vísindalegum rannsóknum. Á Bretlandseyjum er fjöldinn allur af þorpum en ekki alls staðar þorpskrá. Rannsóknarteymi vildi athuga hvort munur væri á vellíðan manna eftir því hvort krá væri til staðar í þorpinu eða ekki. Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að þar sem var krá þar sem menn gátu komið saman yfir ölglasi í hádeginu eða eftir vinnu, leið öllum betur bæði í vinnu og einkalífi. Í hinum þorpunum var depurð og kvíði með tilheyrandi neikvæðni áberandi. Engin ástæða til að ætla að þetta sé öðruvísi á þjóðþingum.Þrátt fyrir sannfærandi rök mín voru undirtektir við tillögu mína afar takmarkaðar. Eins og það sé inngróið í þjóðarsálina að það sé af hinu illa að hafa gaman í vinnunni og að guðaveigum fylgi einhvers konar óreiða og rugl.
Höfundur er varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Til að lesa meira
Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.
Verð frá 2.749 kr. á mánuði