Staða heimilanna hefur verið til umræðu eftir að Seðlabankinn birti nýjustu fjármálastöðugleikaskýrslu sína í síðustu viku. Vissulega finna flest heimili landsins sem og fyrirtækin fyrir því að vaxtastigið er handan eðlilegra sársaukamarka og verðbólgan ætlar að vera þrálát.

Eigi að síður standa heimilin í heild traustum fótum þó svo að á móti blási. Í fyrri fjármálastöðugleikaskýrslu Seðlabankans á þessu ári kemur fram að tæplega 75% heimila greiða minna en 200 þúsund krónur á mánuði vegna fasteignalána. Aðeins 14% greiða meira en 250 þúsund krónur. Sam-bærileg hlutföll eru 68% og 17% ef aðeins er horft til þeirra lántaka sem tóku nýtt lán frá janúar 2020.

Þá sýna tölur Hagstofunnar að eiginfjárstaða heimila hefur styrkst verulega á undanförnum árum og hefur aldrei verið sterkari en við upphaf ársins. Þessi þróun tekur til allra tekjutíunda sem verður að teljast sérstakt fagnaðarefni. Sterkari eiginfjárstaða skýrist að stærstum hluta af hækkun fasteignaverðs sem var ekki drifin af óhóflegri skuldsetningu. Þá eru vanskil heimila við lánardrottna í sögulegu lágmarki.

En það er framhaldið sem fólk hefur áhyggjur af. Ekki síst í ljósi þess að vextir á töluverðum fjölda fasteignalána sem hafa verið fastir undanfarin ár verða endurskoðaðir á næstu misserum. Hvað heimilin snertir þá er staðreynd málsins að þeir sem hafa verið að fjármagna fasteignalán á föstum óverðtryggðum vöxtum á undanförnum árum geta í flestum tilfellum endurfjármagnað lán sín á verðtryggðum vöxtum og án þess að mikil breyting verði á afborgunum. Þeir sem hafa verið að greiða fljótandi óverðtryggða vexti geta náð fram umtalsvert lægri greiðslubyrði og stytt lánstímann verulega á sama tíma.

Neytendaumhverfi fjármálaþjónustu hefur nefnilega tekið algjörum stakkaskiptum hér á landi undanfarinn áratug. Stafræn þróun og umbætur á samkeppnisumhverfinu gerir það að verkum að þröskuldurinn fyrir endurfjármögnun er lágur og kostnaðurinn við endurfjármögnun er sambærilegur við það sem vísitölufjölskyldan eyðir í miða á jólatónleika Baggalúts á ári hverju. Uppgreiðslugjöld og önnur gjöld standa ekki í vegi fyrir endurfjármögnun og samkeppnin er mikil á fasteignalánamarkaði. Á þriðja tug banka og lífeyrissjóða veita nú neytendum fasteignalán.

Enda hefur þróunin verið í þá átt að heimili eru að endurfjármagna fasteignalán sín með verðtryggðum lánum. Vissulega tefur það lánaform eignamyndun en hafa verður í huga að það getur ekki talist óeðlilegt að eignamyndun sé lítil á sama tíma og vextir og verðbólga slaga hátt í tveggja stafa tölu. Það sem skiptir máli í þessu samhengi er að ef stjórnvöldum tekst á að ná böndum á verðbólguna og efnahagslegur stöðugleiki eykst þá er leiðin greið fyrir heimilin að færa sig á ný í nafnvaxtalán á kostnað verðtryggðra

Skipstjórnarmenn verða að kunna að haga seglum eftir vindi og mikilvægt er að samkeppnisumhverfið á fjármálamarkaði geri heimilunum kleift að gera slíkt hið sama þegar á móti blæs. Þessi staðreynd er þörf áminning um hversu mikilvægt hagsmunamál það er fyrir heimilin að kveða verðbólguna niður. Því miður hefur Seðlabankinn borið hitann og þungann í þeirri baráttu fram til þessa og fjárlög næsta árs benda til þess að ekki sé á von á mikilli aðstoð frá stjórnvöldum. Og fátt bendir til þess að verkalýðsforystan muni hampa þessu mikilvægasta hagsmunamáli launþega í komandi kjarasamningum.