Það er ekkert sérlega heppilegt þegar blaða- og fréttamenn leggja viðmælendum sínum orð í munn og segja svo af því fréttir.

Þannig var sagt frá því í Fréttablaðinu síðastliðinn föstudag að Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefði lýst yfir í viðtali við Fréttavaktina á Hringbraut kvöldið áður að hann vildi gegna áfram embætti og ekki væri ákveðið að hann viki fyrir Guðrúnu Hafsteinsdóttir þingmanni.

Þetta væri vissulega fréttnæmt ef satt væri en sem kunnugt er þá var það boðað við myndun ríkisstjórnarinnar að Jón myndi vera dómsmálaráðherra í átján mánuði og þá myndi Guðrún taka við. Í fréttinni segir:

„Í viðtali á Fréttavaktinni á
Hringbraut í gærkvöld sagði Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra að ekki væri ákveðið að hann stigi senn til hliðar sem dómsmálaráðherra til að rýma til fyrir
Guðrúnu Hafsteinsdóttur.“

Það sem er athugavert við þessa framsetningu er að Jón sagði ekkert í þessa átt í áðurnefndu viðtali. Það sem gerir framgöngu blaðamanna enn einkennilegri er að þeir sitja
fyrir Jóni eftir ríkisstjórnarfund sama dag og fréttin birtist og herma upp á hann ummæli sem hann lét aldrei falla í upphaflega viðtalinu. Í frétt sem birtist á vef Fréttablaðsins í hádeginu segir:

„Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segist ekki vilja svara því hvort hann vilji vera dóms-mála-ráðherra áfram. Hann segir frétt blaðsins í dag þar sem þetta var fullyrt ekki rétta.

Í samtali við Fréttablaðið eftir ríkis-stjórnarfund í dag segir Jón að fyrir-sögn blaðsins hafi verið í engu sam-ræmi við það við-tal sem hann fór í á sjón-varps-stöðinni Hringbraut í gær. Í Fréttablaðinu í dag er fullyrt að Jón hafi sagt að ekki væri á-kveðið að hann stigi senn til hliðar sem dómsmálaráðherra til að rýma fyrir Guðrúnu Hafsteinsdóttur.

Jón segist hvergi hafa sagt að hann vildi vera ráðherra áfram.“

Sami eigandi er að Fréttablaðinu og sjónvarpsstöðinni Hringbraut og er Fréttavaktin alla jafna í umsjá starfsmanna ritstjórnar blaðsins. Segja má að þarna sýni fjölmiðillinn ákveðna nýsköpun í sjálfbærri framleiðslu frétta svo tungutak vorra tíma sé notað: Að einn miðill segi fréttir byggðar á misskilningi á viðtali annars miðils í sömu eigu og fylgi svo málinu eftir til að eyða misskilningnum.

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 20. október 2022.