Íslendingar virðast hafa fundið leið að ótakmörkuðum auðæfum.

Lykillinn að auðæfunum er endurgreiðsla ríkisins til framleiðslufyrirtækja í Hollywood og rannsóknir Samkeppniseftirlitsins.

***

Fram kom í fjölmiðlum á dögunum að endurgreiðslur íslenska ríkisins vegna kvikmyndagerðar hér á landi í fyrra námu tæpum þremur milljörðum. Kostnaður vegna gerðar sjónvarpsþáttaraðarinnar True Detective er ekki inni í þessari tölu en hann mun vera kringum ellefu milljarða.

Af þessu tilefni var rætt við Leif Dagfinnsson, framleiðanda hjá True North sem kom að gerð True Detective í morgunútvarpi Rásar 2. Leifur sagði meðal annars að allar hagfræðiskýrslur sýndu fram á að hver króna til kvikmyndagerðar fimmfaldist í hagkerfinu. Standist þetta þá þýðir þetta að þátturinn True Detective og önnur kvikmyndaverkefni sem hafa fengið endurgreiðslu frá ríkinu hafa staðið undir tveimur prósentum af allri landsframleiðslu Íslands í fyrra.

Það blasir við að ef ríkið margfaldar þetta framlag þá verður hægt að kynda undir viðstöðulausum hagvexti til frambúðar.

***

En það er aldrei góð hugmynd að geyma öll eggin í sömu körfu. Þess vegna er gott að vita til þess að dr. Jón Þór Sturluson hefur reiknað það út fyrir Pál Gunnar Pálsson, forstjóra Samkeppniseftirlitsins, að ábatinn sem íhlutanir stofnunarinnar skili sé hátt í tuttugu milljarðar króna. Með öðrum orðum að hver króna sem ríkið setur til reksturs SKE skilar sér þrjátíufalt til baka.

Að vísu hefur dr. Ragnar Árna­son, prófessor emeritus í hagfræði við Háskóla Íslands, bent á að útreikningur SKE sé bandvitlaus en látum ekki sannleikann eyðileggja góða sögu.

***
Þetta þýðir einfaldlega að stighækkandi endurgreiðslur til kvikmyndagerðar og til reksturs Samkeppniseftirlitsins til frambúðar mun skila Íslendingum ótakmörkuðum auðæfum. Loksins er komið svar við áleitinni spurningu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um hvernig Ísland geti orðið ríkasta land í heimi.

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum VIðskiptablaðsins. Þessi birtist í blaðinu sem kom út 17. janúar 2024.