Það kom mörgum í opna skjöldu að Seðlabankinn ákvað að halda stýrivöxtum óbreyttum í síðustu viku. Verðbólguvæntingar á skuldabréfamarkaði breyttust lítið á milli vaxtaákvarðana. Á sama tíma hafa verðbólguvæntingar heimila og fyrirtækja lækkað með markverðum hætti að undanförnu.
Augljóslega hefur það síðarnefnda vegið þyngra á vogarskálunum peningastefnunefndarinnar. Í því samhengi má velta fyrir sér hversu mikið er að marka verðbólguvæntingar eins og þær endurspeglast í grunnum markaði með fáum og í sumum tilfellum háværum þátttakendum á borð við þá sem eru á íslenska skuldabréfamarkaðinn.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði í viðtölum eftir að vaxtarákvörðunin var kynnt að það væri „einnar messu virði“ að staldra við þar sem raunvextir hefðu nú þegar hækkað umtalsvert og óvissa ríkti um framvindu efnahagsmála. Hægt er að taka undir þessi orð. Raunvextir eru að vísu enn lágir hér á landi í sögulegu samhengi en að sama skapi sjást skýr merki um að vaxtastigið sé að skila tilætluðum árangri: Einkaneyslan er hætt að vaxa og sparnaður heimila eykst.
Hann bendir á að ef verðbólgan fer lækkandi á komandi misserum muni raunvextir að óbreyttu hækka enn frekar. Þetta þýðir með öðrum orðum að komandi kjarasamningar muni ráða miklu um svigrúm til vaxtalækkana þegar fram í sækir. Því miður bendir ekkert til þess í málflutningi forystu verkalýðshreyfingarinnar að hún hafi skilning á þessari staðreynd.
Á sama tíma gefa ytri aðstæður ekki tilefni til bjartsýni. Þróunin á bandaríska ríkisskuldabréfamarkaðnum er að senda skýr skilaboð um að tími lágra vaxta og lítillar verðbólgu sem hefur einkennt undanfarna áratugi sé að renna sitt skeið á enda. Krafan á bandarísk ríkisskuldabréf til tíu ára hefur hækkað mikið að undanförnu og er komin hátt í 5%. Á sama tíma styrkist Bandaríkjadalur gagnvart öðrum gjaldmiðlum.
Áhrifa þessa gætir um heim allan. Ávöxtunarkrafan á bandarísk ríkisskuldabréf er fremur að hækka vegna aukins áhættuálags en vegna verðbólguvæntinga. Vaxandi styrkur Bandaríkjadals kyndir undir verðbólgu í öðrum ríkjum þar sem viðskipti í flestum hrávörum eru gerð upp í gjaldmiðlinum. Þetta kallar á frekari aðhaldsaðgerðir hvort sem um ræðir á vettvangi peningamálastefnu eða ríkisfjármála í öðrum ríkjum. Þannig er erfitt að sjá að þessi þróun muni ekki gera efnahagsástandið í Evrópu enn verra, en nú þegar eru komin fram skýr merki um samdrátt á evrusvæðinu.
Eins og fyrr segir er þessi þróun drifin áfram af breytingu þess áhættuálags sem fjárfestar krefjast gegn fjárfestingu í bandarískum skuldabréfum. Sú breyting er til komin vegna þess að hið fyrirsjáanlega og óumflýjanlega hefur loks átt sér stað: Markaðurinn er að bregðast við ósjálfbærri skuldasöfnun bandaríska ríkisins. Með því færist kastljósið jafnframt á önnur vestræn ríki sem standa frammi fyrir ósjálfbærri skuldastöðu.
Þrátt fyrir að skuldastaða íslenska ríkisins sé enn ásættanleg hefur útgjaldahlið ríkisfjármálanna verið stjórnlaus um árabil. Það er áhyggjuefni að þverpólitísk sátt virðist ríkja um þá stefnu á þingi. Að óbreyttu endar það illa.
Það mun ráða miklu fyrir framvindu mála hér á landi hvernig fjárlög næsta árs líta út eftir þinglega meðferð. Í fyrra jukust útgjöldin um fimmtíu milljarða í meðförum þingsins og var áætlaður halli ærinn fyrir. Það myndi senda skýr skilaboð inn í kjaraviðræður ef þingmenn halda að sér höndum og auka ekki útgjöld enn frekar miðað við fjárlagafrumvarpið eins og það kom frá ríkisstjórninni. Slík skilaboð skipta máli í því efnahagsumhverfi sem nú er uppi. Ytri aðstæður hvað vaxtastig varðar eru ekki hagfelldar og því skiptir miklu máli að allir snúi bökum saman og leggi sig fram til að skapa svigrúm til vaxtalækkana ef og þegar verðbólga hjaðnar á ný.