Ófremdarástand ríkir á vinnumarkaði og hefur fréttaflutningur af gangi mála markast af þeirri ringulreið sem nú er uppi. Stundum virðist svo vera að blaða- og fréttamenn telji það hlutverk sitt að láta talsmenn Samtaka atvinnulífsins svara fyrir spunaþræði Eflingarmanna.
Einn slíkur þráður var spunninn eftir að viðræður Eflingar og SA sigldu í strand hjá Ríkissáttasemjara. Hann sneri að því að viðræðurnar hefðu gengið vel þar til á síðustu stundu þegar tónninn breyttist hjá samningamönnum SA. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hélt þessu fram ítrekað í fjölmiðlum á mánudag og að sama skapi birti Stefán Ólafsson, félagsfræðingur og efnahagsráðgjafi félagsins, aðsenda grein á Vísi þar sem þessu sama er haldið fram.
Fjölmiðlar endurómuðu þennan þráð: að Efling hefði gefið mikið eftir og aðeins nokkur sundtök voru eftir til þess að komast á þurrt í deilunni. Gallinn við þessa kenningu er að hún kemur ekki heim og saman við staðreyndir málsins og virðist vera fyrst og fremst lúalegt bragð Eflingarmanna til að koma höggi á Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóra SA. Sem kunnugt er þurfti Halldór að halda sig heima fyrstu daga samningaviðræðnanna hjá settum Ríkissáttasemjara vegna veikinda en sneri aftur síðastliðinn laugardag.
Þegar viðræðurnar runnu út í sandinn á sunnudag var Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari, afdráttarlaus í svörum sínum til fjölmiðla: Himin og haf bar á milli Eflingar og SA og því tilgangslaust að halda viðræðunum áfram. Telja má afar ólíklegt að Ástráður hefði slitið viðræðunum ef minnsti möguleiki væri til staðar að samningsaðilar gætu náð saman.
Annars er áhugavert er að lesa í grein Stefáns þá fullyrðingu að SA hafi beitt sér gegn því að ríkissáttasemjari legði fram nýja miðlunartillögu. Í viðtölum við Ástráð á sunnudag kemur fram að engin vinna hafi enn verið lögð í gerð slíkrar tillögu enda enginn grundvöllur fyrir slíku. Einnig er vert að hafa í huga að Halldór Benjamín fullyrti í Kastljósviðtali á mánudag að það hefði verið Efling sem hefði í raun slitið viðræðunum á sunnudag.
***
Það er áhugavert að fylgjast með framgangi fjölmiðla í þessari alvarlegu deilu. Það er eins og sumir þeirra gangi út frá því að verkfall sé réttur launþega og jafnvel bara eðlilegt útspil í kjaraviðræðum á meðan verkbann atvinnurekenda sé af allt öðru sauðahúsi. Staðreynd málsins er að verkbann er hliðstætt verkfalli í lagalegum skilningi.
„Er ekki hætt við því að verkbann muni gera samningaviðræður við Eflingu enn torveldari?“ var Halldór Benjamín spurður í hádegisfréttum fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar á mánudag. Ekki rekur undirritaðan minni til þess að Sólveig Anna eða aðrir hafi verið sérstaklega spurð að því hvort verkfall hennar kæmu í veg fyrir að samningar næðust. Þannig var viðtal við Gylfa Dalmann Aðalsteinsson vinnumarkaðsfræðing í morgunútvarpi Rásar 1 fyrir helgi. Þar var Gylfi sérstaklega spurður hvort verkfall Eflingar myndi ekki örugglega knýja Samtök atvinnulífsins til samninga.
Að sama skapi virðast sumir fjölmiðlar líta svo á að rótin að þessari alvarlegu vinnudeilu sé eingöngu sú að SA hafi ekki komið til móts við kröfur Eflingu. Þannig spurði Baldvin Þór Bergsson, stjórnandi Kastljóssins, Halldór Benjamín að því hvort SA þyrfti ekki einfaldlega að teygja sig örlítið lengra við samningaborðið. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ríkismiðillinn ber slíka spurningu upp en hún afhjúpar sérlega barnalega mynd af stöðu mála og í hvaða samhengi Efling efnir til verkfallsaðgerða.
***
Morgunblaðið skúbbaði fyrirhuguðu verkbanni SA á forsíðu á mánudagsmorgun. Það vakti því athygli þegar Alexander Kristjánsson fréttamaður RÚV las frétt Morgunblaðsins í rauðabítið af nokkurri nákvæmni rétt eins og hún hafi vitrast honum. Hann gat þó Morgunblaðsins ekki í neinu og var þó engum öðrum heimildum til að dreifa.
En vilji menn fá innsýn hvernig stemmarinn er í Efstaleiti á þessum verkfallstímum geta þeir hlýtt á afkynningu morgunútvarps Rásar 1 á þriðjudag. Við lok þáttarins kvöddu þáttastjórnendur með þessum orðum: „Við tölum um stöðuna í kjaradeilu SA og Eflingar – töluðum um laun nokkurra forstjóra í atvinnulífinu en dæmi eru um heildargreiðslur sem nema um 20 milljónum á mánuði. Við lásum líka úr Kommúnistaávarpinu…“
Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 13. febrúar 2023.
Árétting: Fjölmiðlarýni barst ábending frá fréttamanni Ríkisútvarpsins að ofangreind frétt miðilsins um verkbann hafi vissulega verið byggð á sjálfstæðri heimildavinnu fréttastofunnar. Um það verður ekki efast þó það hafi ekki komið skýrt fram í þeirri frétt sem vísað er til.