Icelandair sagði upp um áttatíu manns sem störfuðu á skrifstofum félagsins í síðustu viku. Á sama tíma sýndi verðbólgumæling Hagstofunnar að verðbólga var meiri í maí en spáð hafði verið. Þessar tvær fréttir tengjast.

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,58% milli mánaða samkvæmt mælingu Hagstofunnar og hækkar því árstaktur verðbólgunnar úr 6% í 6,2%. Það sem vekur athygli er á hversu breiðum grunni verðhækkanirnar voru. Á sama tíma var reiknuð húsaleiga lægri en spáð hafði verið og er því húsnæðisliðurinn ekki drifkraftur verðbólgunnar eins og oft áður.

Þetta bendir ótvírætt til að áhrifa kjarasamninganna sé farið að gæta og koma fram í verðlagi. Eitthvað sem ætti ekki að koma á óvart en kemur væntanlega þeim fjölda málsvara verkalýðshreyfingarinnar sem halda því fram kinnroðalaust að ekkert samhengi sé á milli launahækkana og þróun verðlags í opna skjöldu.

Launakostnaður og óhagstæð ytri skilyrði gerðu það að verkum að Icelandair greip til fjöldauppsagna í síðustu viku. Bogi Nils Bogason, forstjóri félagsins, var í viðtali við Viðskiptablaðið af þessu tilefni. Bogi lét athyglisverð ummæli falla um hvernig Ísland er að glutra niður samkeppnisstöðu sinni vegna verðlags:

„Ísland er aðeins að tapa í samkeppninni á móti Noregi og Finnlandi, til dæmis, og það hefur verið þróunin síðustu mánuði. Kostnaður ferðamannsins eftir að hann kemur til landsins hefur verið það hár að Ísland hefur verið að dragast aftur úr,” segir Bogi en hann vísar til þess að fyrirtæki í ferðaþjónustunni hér á landi hafi verið að glíma við mun meiri launahækkanir en samkeppnislöndin.

Þessi lýsing Boga kallast á við hátt raungengi íslensku krónunnar. Raungengi endurspeglar hlutfallslega þróun verðlags eða launakostnaðar á einingu í heimalandi annars vegar og viðskiptalöndum hins vegar frá tilteknu grunnári og mælt í sama gjaldmiðli.

Raungengi krónunnar er hátt í sögulegu samhengi og má meðal annars rekja það til mikilla og almennra launahækkana á undanförnum árum. Þetta gerir að verkum að dýrt er fyrir ferðamenn að dvelja hér á landi. Að sama skapi eru íslenskar útflutningsvörur hlutfallslega dýrari en aðrar sam-
bærilegar vörur á erlendum mörkuðum. Hagfræðingar eiga erfitt með að velta raungenginu fyrir sér án þess að tala um hamborgara á sama tíma.

Algengt verð á borgara á vinsælum veitingastöðum í miðborginni er 4.500 krónur eða sem nemur 32 Bandaríkjadölum. Þegar verð á hamborgurum á vinsælum gastropöbbum og brugghúsum er skoðað í LA og New York kemur í ljós að hann kostar á bilinu 15 til 20 Bandaríkjadali. Slíkur borgari kostar um 20 pund í London eða sem nemur 26 dölum. Handahófskenndur samanburður á verði hótelgistingar í Reykjavík annars vegar og í öðrum borgum Evrópu leiðir hið sama í ljós.

Vafalaust á þetta ástand ekki eftir að vara lengi og raungengið mun leita aftur í sögulegt jafnvægi. Það verður ekki sársaukalaus aðlögun en eigi að síður nauðsynleg. Sérfræðingar Landsbankans eru reyndar á öðru máli. Í nýlegri greiningu spá þeir að raungengið muni halda áfram að hækka og ná hæstu hæðum árið 2026. Þeir gera ráð fyrir að hátt verðlag muni hreinlega laða til sín ríkari ferðamenn í stað þeirra sem hafa úr minna að moða.

Þetta er frekar einföld sýn á málið. Í því samhengi má benda á að skýr merki eru um samdrátt í sölu veiðileyfa til erlendra stangveiðimanna í eftirsóttustu laxveiðiár landsins í júlí.

Vafalaust eiga eftir að koma fleiri vísbendingar fram á næstu misserum um áhrif raungengis krónunnar á efnahagslífið og hætt er við því að horfurnar séu alls ekki jafn góðar og margir tala um.

Þessi leiðari birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 6. júní 2024.