Það er gömul (hag)saga og ný að íslensk efnahagsmál einkennast af miklum sveiflum. Í þetta skipti hafa Íslendingar þó ekki verið einir á báti heldur hafa verið miklar og örar sveiflur víða. Aðgerðir stjórnvalda í heimsfaraldrinum urðu til þess að neysluhegðun einstaklinga breyttist á einni nóttu. Hagkerfi heimsins lögðust í lamasess, neysla minnkaði og sparnaður heimilanna jókst mikið. Þegar öllum takmörkunum var svo aflétt gat fólk sótt allskyns þjónustu og afþreyingu á ný, með meira á milli handanna en áður. Miklum sveiflum fylgja oft eftirköst og samhliða kröftugum vexti einkaneyslu varð mikil verðbólga á heimsvísu vegna framboðsskorts í kjölfar heimsfaraldurs og innrásarinnar í Úkraínu.

Það er gömul (hag)saga og ný að íslensk efnahagsmál einkennast af miklum sveiflum. Í þetta skipti hafa Íslendingar þó ekki verið einir á báti heldur hafa verið miklar og örar sveiflur víða. Aðgerðir stjórnvalda í heimsfaraldrinum urðu til þess að neysluhegðun einstaklinga breyttist á einni nóttu. Hagkerfi heimsins lögðust í lamasess, neysla minnkaði og sparnaður heimilanna jókst mikið. Þegar öllum takmörkunum var svo aflétt gat fólk sótt allskyns þjónustu og afþreyingu á ný, með meira á milli handanna en áður. Miklum sveiflum fylgja oft eftirköst og samhliða kröftugum vexti einkaneyslu varð mikil verðbólga á heimsvísu vegna framboðsskorts í kjölfar heimsfaraldurs og innrásarinnar í Úkraínu.

Frá árinu 2020 hefur Seðlabankinn reynt að dempa þessar sveiflur með 19 vaxtabreytingum. Vextirnir eru kallaðir stýrivextir því þeim er ætlað að hafa áhrif á hegðun einstaklinga og fyrirtækja. Þetta er eitt af grunnstefjum hagfræðinnar og með því fyrsta sem nemendum í hagfræði er kennt - að þegar vextir eru háir spari fólk frekar peninga og öfugt. Líkt og hagfræðin telur einstaklinga hegða sér með þessum hætti, þá gerir hún líka ráð fyrir því að einstaklingar taki ávallt upplýstar, rökréttar og skynsamar ákvarðanir. En mannlegt eðli er margslungið og fólk hagar sér ekki alltaf samkvæmt bókinni. Það hefur leitt af sér tíðar vaxtahækkanir því breytt hegðun er forsenda verðstöðugleika.

Fyrr í mánuðinum birti The Economist grein sem lýsir skuldastöðu bandarískra heimila. Í kjölfar heimsfaraldurs voru aðstæður þar og hér mjög sambærilegar. Hins vegar hafa stýrivextir þar vestra ekki verið hækkaðir jafn skarpt og hér á landi. Á meðan einkaneysla í Bandaríkjunum fer sívaxandi hefur sparnaður farið minnkandi. Nú óttast helstu sérfræðingar Bandaríkjanna að uppsafnaður sparnaður frá heimsfaraldri verði uppurinn í þessum mánuði. Vanskil á kreditkortum hafa aukist um 16% milli ára og enn er búist við aukningu á vanskilum heimilanna. Yfirvöld þar í landi klóra sér í kollinum yfir því að samhliða launahækkunum sé sparnaður á niðurleið. Með óbreyttu neyslumynstri stefnir því í erfiða tíma hjá bandarískum heimilum.

Sem betur fer er staðan á Íslandi önnur en í Bandaríkjunum. Þrátt fyrir að einkaneysla hafi aukist mikið á skömmum tíma í kjölfar heimsfaraldurs héldu íslensk heimili áfram að spara. Nú hefur aftur á móti dregið úr einkaneyslunni sem sýnir að aðgerðir Seðlabankans eru að skila árangri. Sparnaður heimilanna stuðlar að hagvexti í gegnum aukna fjárfestingu en á sama tíma tryggir hann að þjóðin geti verið í stakk búin að bregðast við efnahagslegum áföllum.

Höfundur starfar á efnahags- og samkeppnishæfnisviði SA.