Góð stjórnun er öflugt verkfæri, sem nýta má til að viðhalda og auka samkeppnishæfni vinnustaða. Til að laða að og halda í hæft fólk. Auka virkni og frammistöðu. Bæta samvinnu og nýsköpun. Stjórnun hefur einnig áhrif á starfsánægju, lífsgæði og almenna velsæld í samfélögum.
Stjórnun þarf reglulega að endurskoða, eins og annað í starfsemi vinnustaða. Meta hversu vel núverandi nálgun er að virka. Hvort stjórnunaraðferðirnar á vinnustaðnum taki nægjanlegt mið af tíðaranda og umhverfi. Árlega koma fram niðurstöður stjórnendarannsókna, um mikilvægar áherslur í stjórnun á komandi ári. Hér eru dregnar saman niðurstöður nokkurra rannsókna.
Aukin nýting gervigreindar í stjórnun
Ekki eingöngu til að auka skilvirkni heldur til að skapa aukið virði fyrir alla hagaðila, starfsfólk, viðskiptavini, fjárfesta og samfélög sem starfað er í. Mikil tækifæri felast í að nýta gervigreind, t.d. við ráðningar, þarfagreiningar þegar kemur að hæfni og þjálfun, til að gera einstaklingsmiðaðar áætlanir um þjálfun og starfsþróun o.fl. Einnig við greiningu gagna til að sjá fyrir og gera áætlanir varðandi fjarvistir, starfsmannaveltu, mönnunarþörf, framleiðni, o.fl.
Undirbúningur fyrir framtíð vinnu
Vinna, vinnustaðir, vinnuafl og vinnumarkaður morgundagsins verður ekki eins og dagsins í dag og því þörf fyrir nýja nálgun. Huga þarf að undirbúningi og breytingastjórnun í þessu samhengi. Fleiri vinnustaðir ráða aðila til að undirbúa og leiða þessar umbreytingar. Starfsheiti sem innibera „framtíð vinnu“, t.d. „leiðtogi fyrir framtíð vinnu“ verða algengari.
Störf verði endurhönnuð og brotin upp í verkefnadrifna vinnu. Aukin notkun á blönduðu vinnuafli, starfsfólki í bland við aðkeypta sérfræðinga. Ný tól nýtt til að gera samskipti og samvinnu í fjarvinnu enn betri. Fjarvinna og blönduð vinna hönnuð til að styðja við sveigjanleika, inngildingu, frammistöðu og ábyrgð.
Einstaklingsmiðaðri nálgun
Sveigjanleiki, starfsþróun, hvatning og umbun taki mið af hverjum einstaklingi, í stað þess að bjóða það sama fyrir alla, óháð þörfum eða væntingum einstaklinganna. Um leið og hugað er að ákveðnu samræmi er með þessari nálgun ýtt undir virkni, tryggð og sköpunargleði.
Aukin þjálfun nauðsynleg
Stjórnendur fái þjálfun og stuðning, til að aflæra og leggja af ýmsar fyrri aðferðir og læra og tileinka sér nýtt hugarfar, hæfni og hegðun. Starfsfólk fái aukinn stuðning í breytingum og þjálfun í aðlögunarhæfni, sem og annarri hæfni sem þörf verður fyrir við verkefni framtíðarinnar.
Hæfnimiðuð stjórnun verður ríkjandi, enda styður hún vel við sveigjanleika, bæði fyrir vinnustaði og vinnuafl. Ráðningar og starfsþróun munu byggja á hæfniþáttum, ekki prófgráðum eða starfsheitum. Viðeigandi hæfni og góð reynsla hafi líka meiri vægi en fæðingarár, enda víða upplifun á skorti á hæfu fólki. Aldursfordómar á vinnumarkaði minnkandi. Blandað vinnuafl nýtt til að sinna verkefnum út frá hæfni, þvert á einingar vinnustaðarins, sem verður eins og innri vinnumarkaður.
Stefnumiðuð samþætting
Mannauðsstjórnun verður skýrari hluti allrar stjórnunar, sérstaklega í starfsemi þar sem helstu auðlindirnar og tækifærin liggja í mannauðnum. Mannauðsstjórnun ekki eingöngu sinnt í mannauðsdeildum. Almennir stjórnendur taki meiri tíma í að sinna stjórnun, styðja og hvetja starfsfólk sem sinnir sérfræði- og almennum verkefnum
Vinnustaðamenning skiptir miklu máli fyrir árangur. Hana þarf að hanna og móta á stefnumiðaðan hátt. Skapa ætti góða upplifun vinnuaflsins, af vinnuumhverfinu öllu. Af góðri stjórnun, skýrum tilgangi, trausti, sveigjanleika, starfsþróunartækifærum, hvetjandi og uppbyggilegri endurgjöf og samskiptum. Styðja við velsæld, ekki eingöngu að kynna úrræði sem eru í boði, heldur hvetja fólk til að nýta þau. Einnig við fjölmenningu, inngildingu og tilfinningu um að tilheyra.
Meiri mælingar
Mannauðsmælingar notist sem stefnumiðaður áttaviti, til að fara úr viðbragði í stefnumiðaða nálgun og styðja þannig betur við árangur, með bættum ákvarðanatökum og forgangsröðun. Frammistöðumælingar horfi ekki til viðveru eða snúist eingöngu um afköst eða framleiðni. Frekar um framlag sem hefur áhrif, nýsköpun, velsæld og langtímaárangur fyrir alla hagaðila.
Herdís Pála Pálsdóttir er mannauðsstjóri og fyrrum formaður félags mannauðsfólks á Íslandi.