Þak yfir höfuðið er ein af grunnþörfum fólks. Til að mæta þeirri þörf hefur Sjálfstæðisflokkurinn lagt áherslu á séreignastefnu í húsnæðismálum; að fólk eigi þess kost að eignast eigið húsnæði.
Þak yfir höfuðið er ein af grunnþörfum fólks. Til að mæta þeirri þörf hefur Sjálfstæðisflokkurinn lagt áherslu á séreignastefnu í húsnæðismálum; að fólk eigi þess kost að eignast eigið húsnæði.
Það þýðir þó ekki að það megi ekki stuðla samhliða að fjölbreyttum og hagkvæmum úrræðum á leigumarkaði. Staðreyndin er hins vegar sú að meirihluti landsmanna vill búa í eigin húsnæði. Það skýtur því skökku við að áherslur stjórnvalda hafi undanfarið verið á uppbyggingu íbúða með aðkomu hins opinbera. Þannig stefnir í að leiguíbúðum með opinberum stuðningi muni á næstu árum fjölga hlutfallslega meira en eigin íbúðum, þvert á eftirspurnarhlutfallið.
Samtök iðnaðarins hafa verið mjög gagnrýnin á þessi áform og frá þeim kom nýlega greining sem bar yfirskriftina Íbúðauppbygging stefnir í öfuga átt. Þar gagnrýna SI að stjórnvöld leggi ekki nægjanlega áherslu á uppbyggingu húsnæðis til eignar þrátt fyrir mikinn skort á íbúðum og mikla uppbyggingarþörf.
Til þess að mæta eftirspurn landsmanna eftir séreignahúsnæði, er mikilvægt að aðgerðir hins opinbera stuðli að nægu húsnæðisframboði. Þar skiptir framboð byggingalóða höfuðmáli. Ábyrgð Reykjavíkurborgar er þar mikil. Meirihlutinn hefur rekið pólitíska skortstefnu í lóðamálum og einblínt á þéttingu byggðar við uppbyggingu húsnæðis sem skilar dýrum íbúðum á húsnæðismarkaðinn. Pólitísk stefna meirihlutans í Reykjavík hefur því komið í veg fyrir hagkvæma húsnæðisuppbyggingu og stuðlað að verðþrýstingi á fasteignamarkaði með tilheyrandi áhrifum. Það er sérstaklega ámælisvert þar sem Reykjavík er langstærsta sveitarfélag landsins og hefur yfir nægu landsvæði að ráða til uppbyggingar. Sama staða er ekki uppi hjá nágrannasveitarfélögunum.
Reykjavíkurborg vill að fólk búi í blokkum
Reykjavíkurborg hefur reyndar ekki aðeins rekið pólitíska stefnu varðandi fjölda lóða. Tilfinnanlegur skortur hefur verið um árabil á sérbýlishúsalóðum í höfuðborginni. Verktakar hafa bent á að engar einbýlishúsalóðir hafi verið í boði í Reykjavík. Sé útgáfa byggingarleyfa hjá borginni skoðuð, gefur það sömu mynd. Þannig kemur fram í ársskýrslu byggingarfulltrúans í Reykjavík fyrir árið 2022 að af nýjum íbúðum hafi 11 verið í einbýlishúsum, 16 í tvíbýlishúsum, 9 í raðhúsum og 877 í fjölbýlishúsum eða um 96% íbúða.
Þá skiptir máli að stjórnvöld beiti sér fyrir því að lækka byggingarkostnað og einfalda regluverk og sveitarfélög ættu sömuleiðis að leggja áherslu á að afgreiðslu mála vegna uppbyggingar sé hraðað. Enda getur sá sem ákveður að byggja hús gert ráð fyrir því að þriðjungur framleiðslukostnaðarins, jafnvel meira, fari í lóðakostnað og ýmis gjöld.
Aðgerðir stjórnvalda á eftirspurnarhliðinni geta einnig auðveldað fólki að eignast eigið íbúðarhúsnæði. Þar má nefna heimild til að ráðstafa séreignarsparnaði inn á íbúðarlán. Slík ráðstöfun getur auðveldað ungu fólki að eignast húsnæði.
En hvar vill fólk búa?
Eins og SI benda á vill stór hluti leigjenda frekar eiga sitt eigið húsnæði. Það kemur fram í endurteknum skoðanakönnunum meðal leigjenda. Stjórnvöld eru sem sé í vegferð sem stangast á við eindreginn vilja landsmanna. Reykjavíkurborg hefur síðan ákveðið að fólk sem fremur kýs að búa í sérbýli þurfi að leita á náðir nágrannasveitarfélaganna, jafnvel lengra. Hver svo sem ástæðan fyrir því kann að vera. Hugmyndin um fjölmenna, háreista byggð er vel þekkt úr sögu 20. aldar. Og var þá einnig kynnt sem sameiginleg framtíðarsýn fyrir fólkið. Forsjárhyggja sósíalismans er aftur að ná sér á strik, því miður. Að mati undirritaðrar ættu stjórnvöld hins vegar að tryggja borgarbúum og landsmönnum öllum frelsi til að ákveða sjálfir ráðstöfun fjármuna sinna, þ.m.t. vegna búsetu.
Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.