Sáttamiðlun á Íslandi er ung fræðigrein sem enn er í mótun. Ekki er til nein heildstæð löggjöf um sáttamiðlun og úrræðið lítið notað hérlendis miðað við nágrannaþjóðir og þau lönd sem við gjarnan berum okkur saman við.
Það er til mikils að vinna fyrir okkur að auka hlut sáttamiðlunar við úrlausn ágreinings og deilumála. Mál í sáttamiðlun eru oft viðkvæm og reynir oft á vandasöm málefni. Það getur verið mjög tímafrekt og kostnaðarsamt að eiga við langvarandi ágreiningsmál þar sem þarf jafnvel að kalla til dómstóla.
Ágreiningsmál bera einnig með sér mikinn dulinn kostnað í formi vinnutaps og hugarangurs. Þess vegna getur sáttamiðlun sparað fyrirtækjum umtalsverða fjármuni með því að grípa fyrr inn í ágreiningsmál og þannig koma í veg fyrir mögulega stigmögnun ágreinings.
Sáttamiðlun fer fram í trúnaði og getur því verið ákjósanleg leið þegar ágreiningsefnið er viðkvæmt eða er þess eðlis að niðurstaða dómsmáls myndi ekki fullnægja hagsmunum aðila. Sáttamiðlun leggur áherslu á að aðilar málsins séu sérfræðingar í sinni deilu og býður upp á sveigjanlegt ferli þar sem unnt er að varðveita samband á milli aðila þannig að báðir geti staðið uppi sem sigurvegarar.
Því er gríðarlega mikilvægt að fólkið sem kemur aðilum til aðstoðar sé vel þjálfað og hafi traustan grunn. Vel þjálfaðir sáttamiðlarar búa yfir hæfni til að stjórna viðkvæmum samskiptum á hlutlausan og faglegan hátt, sem eykur traust á ferlinu og gefur öllum aðilum rými til að tjá sig á öruggan hátt. Reynsla sáttamiðlara eykur því líkurnar á að niðurstöður sáttamiðlunar verði varanlegar þar sem þeir geta með þekkingu sinni dregið úr hættu á að samskiptaörðugleikar endurtaki sig og að ágreiningur blossi upp að nýju.
Það er því mikið gleðiefni að nú sé loks boðið upp á vottað nám í sáttamiðlun hjá Opna háskólanum í HR og mun það styrkja stoðir fagsins hér á landi. Vottað nám í sáttamiðlun skiptir máli því það mun auka trúverðugleika og fagmennsku sáttamiðlara.
Hér höfum við fengið sérfræðinga frá Írlandi til þess að setja á fót vottað nám sem er viðurkennt af Mediation Institute of Ireland (MII). Vottun í sáttamiðlun gefur nemendum tækifæri á aukinni þjálfun í verklegum æfingum og að fá ómetanlega endurgjöf frá reyndum sáttamiðlurum.
Með þessari nýju menntun í sáttamiðlun eflum við ekki aðeins fagmennsku og trúverðugleika sáttamiðlara á Íslandi, heldur leggjum við einnig grunn að friðsælli og skilvirkari lausnum á ágreiningsmálum í samfélaginu. Þetta er mikilvægt skref í átt að samfélagi þar sem sáttamiðlun getur verið fyrsti valkostur við úrlausn deilum