Fulltrúar nýrrar ríkisstjórnar hafa kynnt hugmyndir um að stórauka aflaheimildir til strandveiðimanna. Ef af þessum áformum verður mun þessi hópur mjög líklega taka til sín meira en 15% af heildarkvóta af þorski við Ísland á næstu árum.

Ef ný ríkisstjórn getur látið um 760 strandveiðisjóðmenn hafa 48 daga til strandveiða og hver og einn með heimild til að veiða allt að 750 kg. af fiski á dag, mun þurfa til þess rúm 27 þúsund tonn af þorskvóta (760 aðilar*750 kg.*48 dagar). Ef af þessu verður er líklegt að það fjölgi í hópi strandveiðimanna. Ef þeim fjölgar um 10% þarf að bæta um 2.700 tonnum við þennan kvóta.
Á árinu 2024 var meðalverð til strandveiðisjómanna um kr. 200 lægra en almennt meðalverð ársins. Árið 2024 voru 12 þúsund tonn í strandveiðikerfinu. Ef 15 þúsund tonn verða færð yfir í strandveiðikerfið, má áætla að aflaverðmæti lækki um kr. 3 milljarða á ársgrundvelli með tilheyrandi tekjulækkun annarra sjómanna og útgerðarforma.
Strandveiðimaður sem veiðir 750 kg. á dag fær fyrir aflann um kr. 205 þúsund ef miðað er við meðalverð á veiðitímabili strandveiða 2024. Ef þessir aðilar ná að veiða 750 kg. alla 48 dagana veiða þeir um 36 tonn. Ekki er óvarlegt að áætla að tekjur þeirra verði að lágmarki um kr. 10 milljónir.
Hvert er skattaspor þessara aðila pr. tonn samanborið við önnur útgerðarform? Strandveiðimenn eru örugglega tilbúnir að opna hjá sér bókhaldið þannig að allir geti séð hver launakostnaðurinn er og hvað starfsemi þeirra greiðir í tekjuskatt.
Í umræðunni hefur verið að sveitarfélög hafi kallað eftir auknum aflaheimildum fyrir strandveiðimenn. Ég skora á stjórnvöld að upplýsa hvaða sveitarfélög það eru sem telja best fyrir þau að allur fiskur sem þar kemur á land sé veiddur yfir sumarið. Eru stjórnvöld búin að hugsa þetta til enda? Einhvers staðar þarf að taka þessa aukningu í heimildum og fyrsta skrefið hlýtur að vera að skerða almenna byggðakvótann. Byggðakvótakerfið er vissulega gallað kerfi en væri ekki skynsamlegra að laga það kerfi? Byggðakvótakerfið tryggir aðkomu sveitarfélaganna sem strandveiðikerfið gerir ekki.
Hvað svo?
Hver verða áhrifin á samfélagið? Hvað með allt fiskvinnslufólkið, sem mun missa vinnuna vegna þess að stærri hluti af þeim þorski sem er til skipta er veiddur af mörgum aðilum sem stunda tilviljunarkenndar veiðar og eingöngu yfir sumarmánuðina. Vilja menn kannski hætta að vinna í fiskvinnslu og fara frekar á strandveiðar með mun hærri laun en fiskvinnslan getur boðið? Hver verður þróunin með minni útgerðir? Verða þær allar keyptar upp af stórútgerðinni, og menn senda síðan bátana á strandveiðar? Hvað með þá sem missa vinnuna þegar stórútgerðin er að hagræða eins og hún er byrjuð að tala um?
Eða allir hinir, sem vilja líka hafa góð laun yfir sumarið og geta svo tekið þvi rólegra yfir veturinn. Minni á að stjórnarskráin er nokkuð skýr með jafnræðisregluna, ekki verður séð að hægt sé að úthluta þessum heimildum eingöngu til núverandi strandveiðimanna, heldur hlýtur þetta að eiga að vera opið fyrir alla. Eða endar þetta kannski þannig að strandveiðimenn geti selt frá sér réttindin eftir nokkur ár, sumir hverjir í annað eða þriðja sinn?
Hvernig bregst stórútgerðin við?
Ef það verða tekin af henni kannski 4-8 þúsund tonn er líklegt að þessi félög haldi áfram að kaupa þá fáu aðila sem eiga smá kvóta og eru að reyna að gera út allt árið. Flest stærri útgerðarfélög eru í þeirri stöðu að geta keypt aflaheimildir á markaðsverð þó það sé mjög hátt miðað við framlegðina í greininni. Alla vega er verðið það hátt að enginn nýr getur keypt aflaheimildir. Þessir aðilar eiga almennt greiða leiða leið að fjármagni sem m.a. kemur frá lífaeyrissjóðakerfinu.
Þá fer samfélagið að tapa…
Ef lítil og milli stór fyrirtæki hverfa út úr greininni, sem er líklegt því það lifir engin fiskvinnsla á því að kaupa fisk yfir sumarið og þá jafnvel bara þegar hentar að róa á smábát, er hætta á að aflinn verði seldur óunninn úr landi. Í raun verður þetta eins og í Noregi. Þeir eru með lægra fiskverð vegna þess að þeir veiða frekar mikið á stuttum tíma. Er kannski bara best að gera eins og þeir og hætta að vinna fisk á Ísland og gera það frekar í Póllandi eða Kína?
Hvað væri hægt að gera?
Samtök fiskvinnslu án útgerðar og Samtök smábátaeienda, hafa gefið það út að þau séu til í að borga fyrir fenginn kvóta. Ég legg því til að allur sá kvóti, sem ríkið hefur á sinni könnu, verði boðinn upp og honum skipt upp í nokkra jafna potta. Þann 1. apríl ár hvert verði fyrsti pottur boðinn upp og svo næstu á eins til tveggja mánaða fresti. Þau tilboð, sem studd eru af samningi um vinnslu á Íslandi gengju fyrir. Hægt væri að hafa hámark á hvað hver bátur má bjóða í.
Óheimilt væri að bjóða í næsta pott nema vera búinn að veiða það sem fékkst úr fyrri potti og svo koll af kolli. Allir bátar sem ættu minna en eitthvað ákveðið magn af þorskígildum gætu boðið. Ef tveir eru með eins boð þá vinnur minni báturinn. Ekki yrði heimilt að framselja þennan kvóta. Vel má hugsa sér að hægt væri að láta fiskmarkaðina halda utan um slík uppboð. Ef verð fyrir kílóið væri um kr. 150 má gera ráð fyrir að tekjur ríkisins af hverjum 10 þúsund tonnum væru kr. 1,5 milljarður.
Með þessu gefum við nýjum og minni útgerðaraðilum tækifæri og fiskvinnslufyrirtækin hafa tækifæri til að vinna með þeim.
Ríkissjóður gæti þá nýtt tekjurnar, sem koma inn vegna þessa, til að aðstoða lítil þorp um allt land við að byggja upp atvinnustarfsemi sem hentar til lengri tíma. Það er alls ekki víst að íbúar þeirra allra vilji endilega vera í því að veiða eða vinna fisk.
Næstu skref
Verðlagsstofuverð sem er í dag notaði í beinum viðskiptum í almenna kerfinu þarf að breytast. Hægt væri að hugsa sér að stuðst sé við markaðsverði í fyrstu viku fiskveiðiársins verði verðlagsstofuverð í næstu viku og síðan koll af kolli.
Allur fiskur verði vigtaður á hafnarvogum og það verði vigtin sem gildir. Síðan er það seljanda og kaupanda að fara yfir málin ef ósamkomulag verður.
Hver væri niðurstaðan
Þegar allir sem starfa í greininni eru farnir að vinna út frá sömu vigt og sömu verðlagningu ætti skattlagning sjómanna og útgerða að vera samræmd óháð kerfi.
Ef ríkissjóður býður upp aflaheimildir sem hann hefur yfir að ráða skapast tekjur í ríkissjóð.
Ef til verður uppboðsmarkaður með aflaheimildir á Íslandi er kominn vísir að því hver auðlindagjöld greinarinnar gætu verið.
Höfundur er útgerðarmaður.