Í lok hlaupasumars leiða margir hugann að markmiðum næsta árs. Hlauparar horfa tilbaka og setja sér metnaðarfyllri markmið fyrir næsta ár í nafni bættrar heilsu, sterkara hjarta og æðakerfis og ef til vill minna mittismáls. Hlauparar sem leggja fyrir sig maraþonhlaup hugsa til langs tíma og spanna æfingaáætlanir fleiri mánuði, jafnvel ár, ef vel á að vera. Hlauparar sem hafa náð því persónulega markmiði að hlaupa sífellt lengra vita að æfingaáætlun fyrir 42 km inniheldur fjölbreyttari og aðrar tegundir hlaupaæfinga heldur en 5 km æfingaáætlun. Að setja sér háleit markmið krefst nýsköpunar í hugsun og framkvæmd. Það þarf að aðlaga daglegar venjur, kaupa nýjan búnað, breyta næringu, finna jafnvel nýja hlaupafélaga og sérhæfða þjálfara. Hver og einn þarf svo að aðlaga æfingaáætlanir að sínum persónulegu þörfum og aðstæðum, heilsu og getu.
Alþjóðlegt kapphlaup
Markmið íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum byggja á þremur megin markmiðum; að uppfylla Parísarsamninginn árið 2030, ná kolefnishlutleysi árið 2040 og að lokum jarðefnaeldsneytislaust Ísland sama ár. Hér er svo sannarlega horft til langs tíma til að gæta hagsmuna núverandi og komandi kynslóða með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Jafnframt er ekki slegið af hraðanum í framkvæmdinni, en með þessum markmiðum uppfylltum verður Ísland meðal fárra og fyrstu þjóða í mark. Þessu ferðalagi er ekki að ástæðulausu líkt við kapphlaup í alþjóðlegu samhengi. Ætli Ísland hins vegar að standa undir nafni sem land hreinnar orku dugir ekkert minna. Við erum skráð til leiks og nú þarf að leggja upp æfingaáætlun, ráðstafa tíma, fé og orku, hefjast handa og mæla árangur. En hvernig förum við að, þegar stefnt er að markmiði sem aldrei áður hefur verið náð?
Eldsneyti framtíðarinnar
Svarið liggur í nýsköpun. Eldsneytið sem við nauðsynlega þurfum til að hlaupa í átt að settu marki er nýsköpun. Án hennar hlaupum við á vegg, örmögnumst og náum ekki marklínunni, göngum einfaldlega á auðlindir okkar sem að endingu klárast. Sú tækniþróun sem þarf að eiga sér stað snýr að tækni til orkuskipta annars vegar og bættri orkunýtni og orkusparnaði hins vegar. Það má líkja tækni til orkuskipta við það hestafl sem kemur okkur á leiðarenda, á meðan tækni til bættrar orkunýtni og orkusparnaðar er snerpan og viðbragðið sem við þurfum til að komast hratt áfram og með hagkvæmum hætti. Þannig stuðlar bætt orkunýting og orkusparnaður með beinum hætti að samkeppnishæfni Íslands í orkumálum. Sú tækni er bráðnauðsynleg ætli Ísland að vera með fyrstu þjóðum að settum markmiðum.
Orkunýtni vegur allt að 40% í aðgerðum til að ná kolefnishlutleysi
Sívaxandi orkunýtni og orkusparnaður varðar miklu um framtíð mannkyns. Fjölmargar stofnanir hafa lagt mat á þátt þess í hlutfalli við aðrar aðgerðir vegna kolefnishlutleysis og hafa niðurstöður sýnt frá 10% og allt að 40% hlutfalli en efri mörkin miða við innleiðingu fjölþættrar hátækni eins og vísað er til í Grænbók um stöðu og áskoranir Íslands í orkumálum sem kom út í mars síðastliðnum.
Stuðningur stjórnvalda mikilvægur
Í sumar tilkynnti umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um veitingu 900 milljón króna í styrki til orkuskipta á þessu ári úr Orkusjóði. Það er hæsta úthlutun til verkefna í orkuskiptum á íslandi til þessa og eftirspurnin var fjórföld miðað við það fjármagn sem var til úthlutunar. Flest verkefnanna eru þess eðlis að þau teljast öll vera raunhæf, verða fljótlega komin í framkvæmd og skila þannig strax árangri í samdrætti í losun. Af 137 verkefnum runnu 9 styrkir til verkefna sem flokkast til bættrar orkunýtingar eða 14% af heildarfjármagni Orkusjóðs. Vonandi munu enn fleiri verkefni í þessum flokki verða styrkt á komandi árum því Alþjóðlega orkumálastofnunin (International Energy Agency) hefur réttilega kallað bætta orkunýtni eldsneyti framtíðarinnar. Bætt orkunýtni og orkusparnaður er snerpan sem kemur okkur í mark á mettíma og með lágmarks fyrirhöfn.
Þáttur orkunýtni- og orkusparnaðarverkefna
Snerpa Power er eitt þeirra verkefna sem hlaut styrk úr Orkusjóði í flokknum bætt orkunýting. Jafnframt hlaut lausn Snerpa Power um svipað leyti stuðningsyfirlýsingu tveggja ráðuneyta fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands. Annars vegar frá Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu og hins vegar frá Háskóla, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu. Verkefnastyrkurinn og stuðningsyfirlýsing stjórnvalda eru mikilvægir áfangar á þessu stigi þróunar og það er afar ánægjulegt að íslensk stjórnvöld horfi til nýsköpunar á sviði orkunýtni sem óaðskiljanlegan hluta af aðgerðum Íslands í að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis, auka nýtingu á innlendum, endurnýjanlegum orkugjöfum og stuðla að samkeppnishæfni á sviði orkumála.
Við munum vonandi sjá enn stærra hlutfall Orkusjóðs renna til fjölbreyttra verkefna á sviði bættrar orkunýtingar á næstu árum. Leysum orku framtíðarinnar úr læðingi með því að styðja við nýsköpun á sviði stafrænnar tækni, snjalllausna og hringrásarhagkerfis. Í bættri orkunýtingu felst krafturinn og snerpan sem kemur okkur á leiðarenda í því maraþoni sem við erum nú þegar skráð í; að ná markmiðum Íslands í loftslagsmálum fyrir 2040.
Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 8. september 2022.