Hagstofa Íslands hefur birt nýjar tölur um áfengisneyslu á Íslandi fyrir 2023. Þrátt fyrir „aukið aðgengi“ – sem líkt hefur verið við flóðbylgju með fleiri útsölustöðum ÁTVR og nýjum netverslunum – þá hefur áfengisneysla dregist saman um 4%.
Leiðrétt fyrir fjölgun ferðamanna er samdrátturinn 20%! Það er vissulega merkileg frétt, þó að stjórnlyndir sérfræðingar virðist ekki alveg ná utan um hvað sé í raun að gerast.
Stjórnvöld verða fljót að hlaupa í sviðsljósið og taka heiðurinn og keppast við að segja að minni neysla sé þeim að þakka, sem er auðvitað jafn gáfulegt og að þakka niðurfallinu fyrir að það rigni ekki.
Staðreyndin er sú að áfengisneysla er margþætt samfélagsmál og hún hefur meira með menninguna, samfélagsbreytingar, kaupmátt og aukna meðvitund að gera en það hvort það séu ríkisstarfsmenn eða einkaaðilar sem afhenda áfengið.
Kannski er kominn tími til að viðurkenna að einstaklingurinn hafi í raun eitthvað að segja um eigin lífsstíl? Samdráttur í áfengisneyslu tengist samfélagsbreytingum - ekki því hvort vínbúðin er rekin af hinu opinbera eða ekki.
Ef áhugi er til staðar fyrir dýpri umfjöllun má benda á þá staðreynd að áfengissala á Íslandi er eitt en áfengisneysla Íslendinga er annað. Af þeim orsökum er hér leiðrétt fyrir fjölda erlendra ferðamanna.