Sá sem þetta ritar er gamall frjálshyggjujálkur. Allt frá því hann man eftir sér hefur hann trúað á skilyrðislausan rétt okkar allra til að haga lífi okkar eins og við viljum, svo lengi sem við göngum ekki á sömu réttindi hjá öðru fólki.

Sá sem þetta ritar er gamall frjálshyggjujálkur. Allt frá því hann man eftir sér hefur hann trúað á skilyrðislausan rétt okkar allra til að haga lífi okkar eins og við viljum, svo lengi sem við göngum ekki á sömu réttindi hjá öðru fólki.

Þess vegna hefur verið ánægjulegt að sjá hin ýmsu fyrirtæki í atvinnulífinu taka inngildingu upp á sína arma. Inngilding er þýðing á enska orðinu „inclusion“ og felur í sér að fólki sé tekið vel, óháð ýmsum ytri einkennum eins og t.d. kyni, kynhneigð, kynþætti og fötlun. Gamla frjálshyggjuhjartað slær hraðar þegar talað er um að við eigum að sýna öðru fólki kærleika og virðingu, hvernig sem það er á litinn á húð eða hári.

Þegar allt kemur til alls er einstaklingurinn mesti minnihlutahópurinn. Engin tvö okkar eru nákvæmlega eins. Mannkynið skiptist í óteljandi hópa og hvert og eitt okkar er í mörgum þeirra, sumum stórum og öðrum minni. Þess vegna er stærsta verkefni samfélagsins að vernda einstaklinginn og rétt hans til þess að fá að vera hann sjálfur. Við berum öll skyldu til að láta annað fólk vera og neyða það ekki til skaðlausrar háttsemi sem það annars hefði ekki viðhaft.

Þessi sjálfsagða inngilding má ekki vera á þeim forsendum að fyrirtæki séu þvinguð til eins né neins, eins og til að mynda að fylla upp í kynja- eða kynþáttakvóta, því þá er hætta á því að baráttan fyrir jafnrétti og inngildingu snúist upp í andhverfu sína. Þegar fyrirtæki eru neydd til þess að láta ytri einkenni ráða ráðningum sínum er búið að snúa hlutunum á haus, því þá eru þessir ytri þættir einmitt farnir að skipta höfuðmáli um framgang fólks í lífinu, fremur en verðleikar og innri gerð. Það er ekki jafnrétti.

Höfundur er skrifstofumaður.