Fátt er hvimleiðara en að vera farþegi í bíl og kippast stöðugt til í sætinu vegna þess að bílstjórinn er ýmist að botnstíga bensíngjöfina eða bremsuna.

Það kann heldur ekki góðri lukku að keyra þannig áfram heilt þjóðfélag. Einhvern veginn er það samt lagið eða ólagið sem við höfum á þjóðarbúskapnum.

Það segir sína sögu að stýrivextir Seðlabankans hafa á skömmum tíma farið úr því að vera lægri en áður voru dæmi um hér á landi – í að fara nánast upp í tveggja stafa tölu. Eflaust eru margar ólíkar ástæður fyrir því, eftirköst heimsfaraldursins, launaskrið, stríðið í Úkraínu, náttúruhamfarir og svo mætti lengi telja. Af því þurfum við að læra

Hvað sem því líður þá getur það ekki þjónað hagsmunum þjóðarinnar að hún sitji uppi með yfir 9% stýrivexti til lengri tíma. Enda kallar það á að vextir á húsnæðislánum séu nær 11% og fyrirtækin í landinu þurfi að reka sig á 13% vöxtum. Auðvitað er áskorun að halda sér á réttum kili við slíkar aðstæður, bæði fyrir fjölskyldur og fyrirtæki.

Víst varð að grípa til óyndisúrræða til að ná verðbólgunni niður. En það má ekki draga það úr hömlu að stýrivextir fylgi á eftir. Til þess er jú leikurinn gerður.

Kjarasamningar til langs tíma hljóta að stuðla að því, þó að þeir hafi kostað sitt, og merki eru um að uppgangur ferðaþjónustunnar sé langt frá því sem búist var við, sem hlýtur að vera vísbending um að hagkerfið sé að kólna.

„Þrjú hjól undir bílnum. En áfram skröltir hann þó,“ söng Ómar Ragnarsson. Sú ökuferð endaði á hliðinni úti i hyldjúpri á, nokkuð sem flestir Íslendingar hafa orðið vitni að á sínum ferðalögum. Engin hætta er á því núna enda stendur íslenskur efnahagur sterkt. Ef rétt er á spilum haldið eru því allar forsendur fyrir mjúkri lendingu.

Höfundur er sjálfstætt starfandi.