Það hefur verið alveg frábært að fylgjast með því hvað okkur Íslendingum hefur tekist vel að setja alls kyns mikilvæga þjónustu í miðstýrð einokunarkerfi. Við verðum að halda áfram á þessari braut, því það hefur gefið alveg mjög góða raun að treysta ekki fólki til þess að betrumbæta þjónustuna í samkeppni um viðskiptavini og um leið halda kostnaði í lágmarki.

Við sjáum til að mynda heilbrigðiskerfið. Það er mannbætandi lífsreynsla að heimsækja bráðamóttökuna með þverbrotinn fót og sjá hvað fólkið á vakt ræður vel við álagið. Makinn fær meira að segja að tæma þvagpokann og í kaupbæti fær maður að liggja frammi á gangi þangað til maður er sendur heim í fólksbíl með verkjalyf.

Annað dæmi um frábæra frammistöðu hins opinbera er í peningamálum, þar sem allir eru neyddir til að nota sama gjaldmiðilinn, sem er svo gerður að salernispappír til að láta enda ríkisins ná saman (það er ekki með nógu góða tekjustofna, eins og við köllum vinnandi fólk í ráðuneytinu). Seðlabankanum gengur líka svo ágætlega að stýra verðinu á peningunum, svona eins og verðstýring hefur alltaf lukkast vel á markaði. Þetta hefur reynst okkur mjög vel, það finnum við þegar við borgum af láninu okkar og kaupum rúgbrauð úti í búð.

Þriðja dæmið er seiðmagnaður árangur í menntakerfinu. Þar hefur miðstýring og skortur á samkeppni heldur betur sannað sig. Unga fólkið okkar útskrifast úr háskóla án þess að kunna grundvallaratriði í íslensku, PISA-mælingar staðfesta frammistöðuna og kennarar hafa úr mörgum kostum að velja á vinnumarkaðinum. Þess vegna snúa þeir sér aldrei að neinu öðru.

Sem betur fer virðast fáir frambjóðendur til alþingis vera á þeim buxunum að hverfa frá þessu vel heppnaða fyrirkomulagi, enda eiga stjórnmál ekki að snúast um grundvallaratriði heldur áhersluatriði í áætlunarbúskap.