Allar breytingar eiga eitt sam­eigin­legt. Það er fólk.

Fólk er nefnilega þungamiðjan í öllum breytingum og það vill furðulega oft gleymast. Í staðinn er tímanum varið í skipulagið, tæknina, hugmyndina og fleira en á meðan verður starfsfólk að þolendum breytinga.

Aðkoma starfsfólks er nefnilega óumflýjanleg, það þarf alltaf að aðlagast að nýjunginni sem er handan við hornið. Spurningin er bara, á að gera það að þátttakendum í breytingunum, eða fást við kostnaðinn sem fylgir því að gera það að þolendum.

Ágúst Kristján Steinarsson.

Allt fólk er mannlegt. Það er með taugakerfi sem hjálpar því að lifa af daginn. Það er með framheila sem hjálpar því að skilja tilveruna og tilfinningaheila til að bregðast við ógn. Fólk getur auðveldlega orðið ringlað ef hlutir eru ekki nógu skýrir og auðveldlega orðið hrætt ef breytingin virðist yfirþyrmandi. Auk þess getur starfsfólk verið fast í viðjum vanans, hafa jafnvel tekið upp ósiði eða tileinkað sér neikvætt viðhorf til vinnustaðarins og breytinga.

Um þetta snúast farsælar breytingar. Að vera vakandi fyrir mannlega þættinum og leiða breytingar sem gera starfsfólk að þátttakendum. Þátttakan felst í að það skilji þörfina á breytingum, það vilji sjá breytingarnar gerast, að það öðlist þekkingu og færni til að taka þátt og standi að lokum vörð um breytinguna, þannig að hún festist í sessi. Með því leyfum við öllum hlutaðeigandi að fara í gegnum sitt eigið aðlögunarferli.

Þannig verður breytingin eign allra og árangur er vís.