Hvað er hægt að gera til þess að tryggja starfsfólki Síldarvinnslunnar í Neskaupstað atvinnu árið um kring var spurning sem borin var upp á aðalfundi félagsins um miðjan mars. Því svari var velt upp hvort aðstoða þyrfti starfsfólkið við að hefja strandveiðar! Þetta lýsir ágætlega því ástandi sem er við það að myndast í íslenskum sjávarútvegi, gangi áform stjórnvalda eftir um stórfellda aukningu strandveiða. Það loforð var gefið strandveiðimönnum við myndun nýrrar ríkisstjórnar, að þeim yrðu tryggðir 48 dagar til veiða. Spurningin er: Hvaðan á að útvega þann viðbótarafla? Það er þó fjarri því að vera eina spurningin.

Með auknum strandveiðum verður minna til skiptanna fyrir þau sem sinna landvinnslu og sjómennsku árið um kring.
Með auknum strandveiðum verður minna til skiptanna fyrir þau sem sinna landvinnslu og sjómennsku árið um kring.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Upphaflegt markmið

Strandveiðar á Íslandi eru komnar til að vera en þær eru fjarri því að vera það sem þeim var ætlað í upphafi. Því blasir við að stjórnvöld ætla sér að efna loforð sem vandséð er að byggist á skynsemi og þaðan af síður efnahagslegum rökum. Það virðist eiga að knýja fram aukinn afla til strandveiða án tillits til þess hvaða áhrif það getur haft. Hér ber að benda sérstaklega á þá staðreynd að fjöldi aðila um allt land treystir á heilsársstörf sem tengjast sjávarútvegi með einum eða öðrum hætti.

Nefna má sjómenn, landverkafólk, iðnaðarmenn og starfsfólk þjónustufyrirtækja. Þess utan eru skatttekjur af slíkri atvinnustarfsemi burðarás í rekstri margra sveitafélaga. Aukinn afli til strandveiða gæti haft neikvæð áhrif á byggðafestu og afkomu landsbyggðarfólks.

Umsagnir sveitarfélaga hringinn í kringum landið um þetta mál bera þess glöggt merki. Það þarf því ekki að koma á óvart að spurt sé; þarf landverkafólk á landsbyggðinni að taka upp strandveiðar til að tryggja sér atvinnu? Það hljóta allir að sjá að slíkt gengur ekki upp og einmitt þarna þurfa stjórnvöld að staldra við og spyrja sig; hvaða áhrif hafa auknar strandveiðar á fólk og fyrirtæki sem hafa heilsársatvinnu af sjávarútvegi? Því verður ekki trúað að stjórnvöld vilji veikja byggðafestu með því að úthluta áhugamönnum um strandveiðar stærri sneið af kökunni á kostnað þeirra sem á atvinnugreinina stóla allt árið.

Sumir halda sínu – aðrir ekki

Þegar litið er til þess hversu mikið hefur farið til strandveiða frá því að þær voru teknar upp árið 2009, fer því fjarri að það halli á strandveiðisjómenn. Við upphaf strandveiða fengu þeir um 2% af heildarþorskafla, samtals um 3400 tonn. Hlutfallið var í fyrra komið upp í 5,4% og tonnin orðin tæplega 12 þúsund.

Umtalsverður samdráttur hefur verið í ráðlögðum þorskafla á undanförnum árum. Fiskveiðiárið 2019/20 var ráðlagður þorskafli 272 þúsund tonn en árið 2023/24 var hann 211 þúsund tonn – sem jafngildir rúmlega 22% samdrætti. Fyrirtæki innan aflamarkskerfisins hafa þurft að mæta þessum niðurskurði að fullu. Þar á bæ verður að hagræða til samræmis við það sem náttúran skammtar og það hefur bein áhrif á laun sjómanna og fiskverkafólks. Á sama tímabili hafa strandveiðisjómenn ekki þurft að sæta slíkum takmörkunum, öðru nær. Nú á enn að bæta í þetta óréttlæti.

Virðisauki tapast

Afli, sem landað er á strandveiðum, fer oft beint í gám til útflutnings. Virðisaukinn af vinnslu afurðarinnar hér á landi hverfur þar með af landi brott. Íslenskar fiskvinnslur og fiskverkafólk missa ekki aðeins spón úr aski sínum við þetta, heldur verða tekjur hins opinbera og sveitarfélaga minni fyrir vikið. Nú er ráðgert að klípa enn meira af þessari verðmætasköpun, þvert á markmið ríkisstjórnarinnar um að auka hana.

Það er látið að því liggja að helstu og mestu áhrif af strandveiðum sé „líf í höfnum“. Ef það er sjálfstætt markmið eitt og sér að auka líf í höfnum á landsbyggðinni mætti alveg eins hugsa sér að fjölga komum skemmtiferðaskipa. Þeim fylgir mikið líf og miklar tekjur.

Hafi stjórnvöld áhyggjur af því að hafnir á landsbyggðinni séu líflausar, hvað þá með aðra innviði, eins og grunn- og leikskóla? Ekki hafa heyrst áhyggjur ráðamanna af þeim innviðum og skyldi maður þó ætla að það væri sveitarfélögum mun meira virði að hlúa að þeim þáttum, fremur en einstaka áhugamanni um strandveiðar sem staldrar stutt við yfir hásumarið og skilur eftir sig litlar tekjur í bænum.

Í umsögn bæjarráðs Ísafjarðarbæjar er áréttað að bæjarráð sé ekki fylgjandi auknu vægi strandveiða.
Í umsögn bæjarráðs Ísafjarðarbæjar er áréttað að bæjarráð sé ekki fylgjandi auknu vægi strandveiða.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Umsagnir sveitarfélaga

Lesa má í umsögn bæjarráðs Ísafjarðarbæjar um drög að reglugerð til breytinga á reglugerð um strandveiðar að þau kerfi sem nú sé stuðst við í sjávarútvegi hafi haft: „… veruleg jákvæð áhrif á útgerðir og vinnslur á Vestfjörðum. Sem slík hafa kerfin stuðlað að stöðugri atvinnu árið um kring og þar með fjölbreyttu lífi í sjávarbyggðum, ekki bara á höfnum og fiskvinnslum, heldur í skólum og félagsheimilum.

Strandveiðikerfið, sem einungis er virkt yfir sumartímann, nær þessu ekki fram.“ Einnig segir síðar í umsögninni: „Bæjarráð áréttar að það er hins vegar ekki fylgjandi auknu vægi strandveiða, hvorki á gildistíma reglugerðarinnar né með nýjum lögum sem boðuð hafa verið.“

Sambærilegur tónn er sleginn í umsögn byggðarráðs Skagafjarðar sem segist: „… fylgjandi breytingum á reglum um strandveiðar í þá átt að meira af afleiddum áhrifum verði eftir í sjávarbyggðunum en er hins vegar ekki fylgjandi auknu vægi strandveiða á kostnað fyrirtækja sem stunda veiðar og vinnslu og skapa störf og tekjur í heimabyggð, árið um kring.“

Vestmannaeyjahöfn.
Vestmannaeyjahöfn.
© Trausti Hafliðason (VB)

Í umsögn Vestmannaeyjabæjar segir: „Vestmannaeyjabær er fylgjandi breytingum á reglum um strandveiðar í þá átt að meira af afleiddum áhrifum verði eftir í sjávarbyggðunum en er hins vegar ekki fylgjandi auknu vægi strandveiða á kostnað þjóðarbúsins sem og fyrirtækja og sjómanna sem stunda veiðar og vinnslu árið um kring.“

Það er einmitt þarna sem hundurinn liggur grafinn. Með auknum strandveiðum verður minna til skiptanna fyrir þau sem sinna landvinnslu og sjómennsku árið um kring. Það er einfaldlega ekki sanngjarnt að ganga þannig fram. Gangi áform stjórnvalda eftir er í raun verið að ganga erinda fárra á kostnað margra.

Höfundar eru hagfræðingar hjá SFS.