Hrafnarnir fagna því að loksins sé komin skýring á sleifarlagi snjómoksturs í Reykjavíkurborg. Eins og Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata, hefur bent á skiptir vinna stýrihóps borgarinnar um endurskoðun á þjónustuhandbók vetrarþjónustu sköpum í þessu samhengi. Væntanlega er það stýrihópsins að taka ákvörðun um hvort ryðja eigi snjó af götum og göngustígum en starf hópsins hefur verið í uppnámi.
Í samtali við Morgunblaðið í vikunni segir Alexandra að stýrihópurinn hafi átt að hefja störf í september en tafðist inn í október „vegna þess að illa gekk að finna fulltrúa minnihlutans í hópinn“. Fulltrúi minnihlutans er Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, og ber hún því samkvæmt Alexöndru alfarið ábyrgð á hvernig hefur verið staðið – réttara sagt ekki staðið – að snjómokstri í borginni í vetur.
Huginn & Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist 15. desember 2022.