Það styttist í alþingiskosningar. Það má næstum slá því föstu að Viðreisn muni taka þátt í ríkisstjórnarsamstarfi að loknum kosningum.
Helsta slagorð flokksins er almannahagsmunir framar sérhagsmunum. Sem allir sanngjarnir menn hljóta að taka undir.
En Óðinn telur verulegan vafa leika á um að formaður Viðreisnar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, hafi haft þessa reglu í heiðri í aðdraganda falls viðskiptabankanna haustið 2008.
Hagsmunirnir voru miklir. Þorgerður og eiginmaður fengu 236 milljónir að núvirði til ráðstöfunar og losnuðu undan ábyrðum og áhættu sem nam, að mati skilanefndar Kaupþing árið 2014 um 534 milljónum króna.
Þar sem Óðinn telur það almannahagsmuni að allir geti lesið skrifin, en ekki sérhagsmunir áskrifenda Viðskiptablaðsins, þá er pistillinn hér í fullri lengd.
Almannahagsmunir og sérhagsmunir Þorgerðar Katrínar
Viðreisn segist hafa einkunnarorðin almannahagsmunir framar sérhagsmunum. Eitt mál skyggir á þessi einkunnarorð og hefur það aldrei verið útskýrt af Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, nú formanni Viðreisnar. Hljóta kjósendur að eiga réttmæta kröfu á því að Þorgerður standi fyrir máli sínu, ekki síst ef Viðreisn tekur þátt í ríkisstjórn að loknum alþingiskosningum.
Þann 4. nóvember 2008 var Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins, menntamálaráðherra og þingmaður. Þennan dag ræddi Þorgerður við blaðamann á Vísi. Í fréttinni segir orðrétt:
Þorgerður segir að Kristján hafi haft mikla trú á Kaupþingi í febrúar „Og virði fyrirtækisins óx eftir það þannig að við ákváðum að setja okkar sparnað í þetta félag. Við trúðum því að íslenskt efnahagslíf myndi standa sig, við trúðum því að bankakerfið væri sterkt,“ segir Þorgerður um þær ákvarðanir sem þau hjónin tóku. „En við hjónin erum búin að tapa miklum peningum eins og margir aðrir Íslendingar,“ bætir Þorgerður við.
***
Upplýsandi dómur
Eiginmaður Þorgerðar var starfsmaður Kaupþings á þessum tíma, þegar þau hjónin fjárfestu öllu sínu sparifé í bankanum. Kristján var eini starfsmaður Kaupþings sem fékk heimild rétt fyrir fall bankans, til að færa hlutabréfaeign sína og skuldir yfir í einkahlutafélag þeirra hjóna sem stofnað var til með lágmarks eigið fé – 500 þúsund krónum.
Með því losnuðu þau undan allri áhættu af hlutabréfaviðskiptunum. Eina áhætta Kristjáns og Þorgerðar var því 500 þús. kr. í stað lánafjárhæðarinnar allrar, sem nam 1,7 milljarði þegar gengi krónunnar var hvað óhagstætt í nóvember 2008.
Hæstiréttur fjallaði um lögmæti þessarar yfirfærslu í einkahlutafélagið í dómi í máli nr. 593/2013, sem féll þann ágæta dag 10. apríl 2014 .
Í málinu krafðist skilanefnd Kaupþings Kristján um greiðslu á 534 milljónum króna úr hendi Kristján persónulega og því haldið fram að Hreiðar Már Sigurðsson, bankastjóri Kaupþings, hefði ekki haft heimild til að leysa Kristján undan ábyrgðinni.
Þar kemur einnig fram að fyrir utan flutninginn hafi Kaupþing aflétt veði af hlutabréfum að verðmæti 72,4 milljónir króna sem þau hjónin fengu til ráðstöfunar persónulega.
Færslan yfir í einkahlutafélagið átti sér stað 12. mars 2008, hálfu ári áður en íslenskt bankakerfi hrundi. Daginn áður, 11. mars, fengu hjónin persónulega 33,5 milljónir króna í arð. Varla var það tilviljun að yfirfærslan fór fram degi seinna.
Að auki seldu þau þann 30. september 2008 hlutabréfin í persónulegri eigu fyrir 70 milljónir króna, aðeins níu dögum áður en bankinn féll.
Þau fengu því 103,5 milljónir króna til ráðstöfunar sem á verðlagi dagsins í dag svarar til 236 milljóna króna: þrátt fyrir að skulda bankanum hundruð milljóna, langt umfram heimildir samkvæmt eigin reglum bankans.
Fyrirspurnin Kristins
Aðeins nokkrum dögum eftir viðtalið við Þorgerði við Vísi var spurt um málið á Alþingi. Kristinn H. Gunnarssonar spurði Þorgerði úr ræðustól á Alþingi þann 12. nóvember 2008 um hæfi hennar til að taka ákvarðanir varðandi Kaupþing.
Orðrétt svar Þorgerðar var.
Til svars þessarar fyrirspurnar vil ég strax í upphafi árétta að menntamálaráðherra fer ekki með málefni banka eða hefur komið að ákvörðunum um stofnun eða rekstur hinna nýju banka. Af ákvæðum stjórnarskrár og reglugerðum stjórnarskrár Íslands leiðir að viðskiptaráðherra fer með yfirstjórn þessara mála.
Einnig sagði Þorgerður:
Í þessu ljósi vil ég sérstaklega árétta það sem hv. þingmaður kom inn á varðandi það lán sem Kaupþing fékk 6. október síðastliðinn upp á 500 millj. evra til nokkurra daga en það var veitt af Seðlabankanum sem er mjög sjálfstæð stofnun. Þar hef ég engin áhrif.
***
Var Seðlabankinn sjálfstæður?
Samtal Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra og Geirs Haarde forsætisráðherra um lánið til Kaupþings var birt árið 2017, gegn vilja Geirs Haarde.
Þar kom fram, andstætt því sem Þorgerður hélt fram, að Seðlabankinn var ekki sjálfstæður við lánveitinguna. Rifjum upp hluta samtalsins:
Ritari: Gjörðu svo vel.
Davíð: Halló.
Geir: Sæll vertu.
Davíð: Sæll. Það sem ég ætlaði að segja þér, sko, sko… við út af fyrir sig getum í dag skrapað saman 500 milljónir evra, en náttúrlega, en erum þá komnir inn að beini og þá gætum við hjálpað Kaupþingi í einhverja 4-5 daga en þá getum við ekki hjálpað Landsbankanum líka, sko.
Geir: Nei.
Davíð: Þú ert að tala um það að við eigum frekar að reyna að hjálpa Kaupþingi.
Geir: Það slær mig þannig sko og mér fannst þeir vera líka á þeirri línu í gærkvöldi, allavega þessir Morgan [Stanley] menn.
Davíð: Ég býst við því að við fáum ekki þessa peninga til baka. Þeir segja að þeir muni borga okkur eftir 4-5 daga en ég held að það séu ósannindi… eða við skulum segja óskhyggja.
***
Ítrekað rætt á ríkisstjórnarfundi
Óðinn hefur fengið það staðfest frá fleiri en einum ráðherra, og fleiri en tveimur, að Þorgerður ræddi málefni Kaupþings ítrekað á ríkisstjórnarfundum í aðdraganda bankahrunsins.
Þá er ekki sagan öll. Þann 6. október 2008 var haldinn ríkisstjórnarfundur. Að honum loknum sáu aðrir ráðherrar Þorgerði Katrínu ganga inn á skrifstofu Geirs. Stuttu síðar hringdi Geir í Davíð og skipaði honum að lána Kaupþingi.
Geir Haarde hefur ekki viljað tjá sig um hvað fór þeirra í milli, Þorgerðar og hans. Óðinn hefur ekki lesið nýútkomna ævisögu Geirs en þar er, að sögn, ekkert markvert um samtalið.
***
Gríðarlegir hagsmunir
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir átti gríðarlega hagsmuni af því að Kaupþing færi ekki á hausinn. Lánið nam 75 milljörðum króna á núverandi gengi.
Þær spurningar sem vakna og Þorgerði ber að svara eru þessar:
- Beitti Þorgerður Geir Haarde þrýstingi þann 6. október 2008 þegar hann skipaði Davíð Oddsyni að lána Kaupþingi 75 milljarða?
- Vissi Þorgerður meira en aðrir um stöðu bankanna 13. mars og 30. september 2008 og féll slík vitneskja, undir reglur um innherjaupplýsingar?
- Finnst Þorgerði heiðarlegt að taka við 33,5 milljóna króna arði og færa áhættuna degi síðar í einkahlutafélag? Og selja hlutabréf í bankanum níu dögum áður en bankinn féll og nota fjármunina til persónulegra nota?
***
Óðinn telur að stærsta synd stjórnmálamanna sé að misnota aðstöðu sína sér til hagsbóta. Sérhagsmunir á kostnað almannahagsmuna.
Er þetta ekki einmitt rétti tíminn til þess að formaður Viðreisnar svari?