Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir í viðtali sem birtist í blaðinu í dag að selja eigi restina af eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka í almennu útboði. Þetta er fagnaðarefni og erfitt er að sjá að pólitískur meirihluti muni standa í vegi fyrir þeim áformum að selja það sem eftir stendur af eignarhlut ríkisins á Alþingi.Ákvörðun íslenska ríkisins á sínum tíma um að selja eignarhlut sinn í Íslandsbanka skapaði gullið tækifæri til þess að styrkja stoðir hlutabréfamarkaðarins með aukinni þátttöku almennings. Frumútboðið í Íslandsbanka í fyrra var í flesta staði vel heppnað og eftir útboðið voru hluthafar í bankanum tæplega 25 þúsund. Með öðrum orðum höfðu tugþúsundir heimila beina hagsmuni af vexti og viðgangi hlutabréfamarkaðarins eftir frumútboð Íslandsbanka.

Stjórnvöld tóku ákvörðun um að leyfa almenningi ekki að taka þátt í öðru skrefi einkavæðingarferils bankans sem stigið var í mars. Það voru mistök og um tíma leit út fyrir að frekari sala á eignarhlutnum í Íslandsbanka væri í uppnámi til frambúðar. Ljóst má vera á kynningu fjárlagafrumvarps næsta árs í vikunni og yfirlýsingu fjármálaráðherra um að það verði gert í almennu útboði að fátt getur í staðið í vegi fyrir að þessu þjóðþrifaverki verði hrint í framkvæmd.

Að mörgu leyti er tímasetningin til sölu hentug um þessar mundir.

Vissulega eru blikur á lofti á erlendum eignamörkuðum sökum óvissu á vettvangi alþjóðamála og þrálátrar verðbólgu. Á móti kemur að mikill kraftur er í íslensku hagkerfi og búast má við aukinni þátttöku erlendra fjárfesta á íslenskum hlutabréfamarkaði á komandi misserum.

Búast má við auknu innflæði sem mun svo stigmagnast 19. september þegar fyrsti áfangi af þremur í vísitölu nýmarkaðsríkja FTSE Russell klárast. Í framhaldinu munu næstu tveir áfangar klárast á sex mánaða tímabili. Innflæðið mun að óbreyttu hafa jákvæð áhrif á markaðinn. Ef vel heppnast gæti það aukið líkurnar á að Ísland yrði tekið upp um flokk hjá MSCI sem er umtalsvert stærri viðburður.

Það eru því að mörgu leyti kjöraðstæður til að virkja þátttöku almennings á hlutabréfamarkaði enn frekar. Í ljósi þess er full ástæða að velta fyrir sér hvert erindi stjórnmálaöfl sem kenna sig við borgaraleg gildi er við þann ört stækkandi hóp. Hagsmunir þeirra sem leggja sparnað sinn í hlutabréfa- og skuldabréfamarkað hvíla á stöðugleika í efnahagslífi og ábyrgri stjórn ríkisfjármála. Auk þess reiða þeir sig á að traust ríki á að lögmálum markaðarins sé leyft óhindrað að umbreyta sparnaði í fjárfestingu og dreifa áhættu milli þeirra sem hana vilja taka og þeirra sem hana forðast eftir skýrum leikreglum og eftirliti þar til bærra stofnana. Yfirlýsing fjármálaráðherra um sölu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka svarar spurningunni fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins að hluta. Svör hinna flokkanna munu vonandi bráðlega liggja fyrir.

Að þessu sögðu er full ástæða til þess að beina sjónunum að umhverfi almennra fjárfesta á verðbréfamarkaði á Íslandi. Á vef Viðskiptablaðsins í síðustu viku mátti finna áhugaverða frétt um gagnrýni Þórðar Pálssonar, forstöðumanns fjárfestinga hjá Sjóvá, á háan kostnað íslenska hlutabréfamarkaðarins. Hann kallar eftir því að umgjörð markaðarins verði endurskoðuð þannig að ódýrara verði fyrir almenning að taka þátt.

„Mér finnst alveg skelfilegur kostnaður við þetta. Það er of mikið bil á kaup- og sölutilboðum, sem er algengt á milli 1%-2%. Síðan bætir þú við 0,75 prósentu [umsýslugjaldi] til að eiga viðskipti. Þannig að ef þú kaupir öðrum megin og selur hinum megin þá ertu með allt upp í 3,5% [af andvirðinu] bara í kostnað. Þá þarftu að vera fjandi góður til þess að það borgi sig að kaupa og selja [í stökum félögum] frekar en að vera í sjóði.“ Full ástæða er til þess að taka undir þessa gagnrýni Þórðar og kalla eftir umræðu hjá fjármálafyrirtækjum og Kauphöllinni um hvernig megi draga úr þessum mikla kostnaði fyrir almenna fjárfesta. Stjórnvöld eiga án vafa að hafa eitthvað til málanna að leggja í því samtali. Það færi vel á því að slíkt samtal hæfist í aðdraganda almenns útboðs á restinni á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir í viðtali sem birtist í blaðinu í dag að selja eigi restina af eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka í almennu útboði. Þetta er fagnaðarefni og erfitt er að sjá að pólitískur meirihluti muni standa í vegi fyrir þeim áformum að selja það sem eftir stendur af eignarhlut ríkisins á Alþingi.Ákvörðun íslenska ríkisins á sínum tíma um að selja eignarhlut sinn í Íslandsbanka skapaði gullið tækifæri til þess að styrkja stoðir hlutabréfamarkaðarins með aukinni þátttöku almennings. Frumútboðið í Íslandsbanka í fyrra var í flesta staði vel heppnað og eftir útboðið voru hluthafar í bankanum tæplega 25 þúsund. Með öðrum orðum höfðu tugþúsundir heimila beina hagsmuni af vexti og viðgangi hlutabréfamarkaðarins eftir frumútboð Íslandsbanka.

Stjórnvöld tóku ákvörðun um að leyfa almenningi ekki að taka þátt í öðru skrefi einkavæðingarferils bankans sem stigið var í mars. Það voru mistök og um tíma leit út fyrir að frekari sala á eignarhlutnum í Íslandsbanka væri í uppnámi til frambúðar. Ljóst má vera á kynningu fjárlagafrumvarps næsta árs í vikunni og yfirlýsingu fjármálaráðherra um að það verði gert í almennu útboði að fátt getur í staðið í vegi fyrir að þessu þjóðþrifaverki verði hrint í framkvæmd.

Að mörgu leyti er tímasetningin til sölu hentug um þessar mundir.

Vissulega eru blikur á lofti á erlendum eignamörkuðum sökum óvissu á vettvangi alþjóðamála og þrálátrar verðbólgu. Á móti kemur að mikill kraftur er í íslensku hagkerfi og búast má við aukinni þátttöku erlendra fjárfesta á íslenskum hlutabréfamarkaði á komandi misserum.

Búast má við auknu innflæði sem mun svo stigmagnast 19. september þegar fyrsti áfangi af þremur í vísitölu nýmarkaðsríkja FTSE Russell klárast. Í framhaldinu munu næstu tveir áfangar klárast á sex mánaða tímabili. Innflæðið mun að óbreyttu hafa jákvæð áhrif á markaðinn. Ef vel heppnast gæti það aukið líkurnar á að Ísland yrði tekið upp um flokk hjá MSCI sem er umtalsvert stærri viðburður.

Það eru því að mörgu leyti kjöraðstæður til að virkja þátttöku almennings á hlutabréfamarkaði enn frekar. Í ljósi þess er full ástæða að velta fyrir sér hvert erindi stjórnmálaöfl sem kenna sig við borgaraleg gildi er við þann ört stækkandi hóp. Hagsmunir þeirra sem leggja sparnað sinn í hlutabréfa- og skuldabréfamarkað hvíla á stöðugleika í efnahagslífi og ábyrgri stjórn ríkisfjármála. Auk þess reiða þeir sig á að traust ríki á að lögmálum markaðarins sé leyft óhindrað að umbreyta sparnaði í fjárfestingu og dreifa áhættu milli þeirra sem hana vilja taka og þeirra sem hana forðast eftir skýrum leikreglum og eftirliti þar til bærra stofnana. Yfirlýsing fjármálaráðherra um sölu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka svarar spurningunni fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins að hluta. Svör hinna flokkanna munu vonandi bráðlega liggja fyrir.

Að þessu sögðu er full ástæða til þess að beina sjónunum að umhverfi almennra fjárfesta á verðbréfamarkaði á Íslandi. Á vef Viðskiptablaðsins í síðustu viku mátti finna áhugaverða frétt um gagnrýni Þórðar Pálssonar, forstöðumanns fjárfestinga hjá Sjóvá, á háan kostnað íslenska hlutabréfamarkaðarins. Hann kallar eftir því að umgjörð markaðarins verði endurskoðuð þannig að ódýrara verði fyrir almenning að taka þátt.

„Mér finnst alveg skelfilegur kostnaður við þetta. Það er of mikið bil á kaup- og sölutilboðum, sem er algengt á milli 1%-2%. Síðan bætir þú við 0,75 prósentu [umsýslugjaldi] til að eiga viðskipti. Þannig að ef þú kaupir öðrum megin og selur hinum megin þá ertu með allt upp í 3,5% [af andvirðinu] bara í kostnað. Þá þarftu að vera fjandi góður til þess að það borgi sig að kaupa og selja [í stökum félögum] frekar en að vera í sjóði.“ Full ástæða er til þess að taka undir þessa gagnrýni Þórðar og kalla eftir umræðu hjá fjármálafyrirtækjum og Kauphöllinni um hvernig megi draga úr þessum mikla kostnaði fyrir almenna fjárfesta. Stjórnvöld eiga án vafa að hafa eitthvað til málanna að leggja í því samtali. Það færi vel á því að slíkt samtal hæfist í aðdraganda almenns útboðs á restinni á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka.