Athafnir hins opinbera mega ekki verða til þess að framtakssamt fólk leggur drauma sína á hilluna. Hið opinbera á þvert á móti að gera allt sem í sínu valdi stendur til að skapa umhverfi sem ýtir undir að fyrirtæki vaxi og ný bætist jafnt og þétt í hópinn. Ný ríkisstjórn virðist hins vegar stefna í þveröfuga átt. Boðuð hefur verið sérstök og aukin skattheimta á sjávarútveg og ferðaþjónustu, tvær af meginstoðum íslensks efnahagslífs.
Íslenskt samfélag á allt sitt undir öflugu og fjölbreyttu atvinnulífi. Þar verða verðmætin til. Verðmætin sem standa undir allri þeirri velferð sem íslenska þjóðin býr við og aðrar þjóðir líta öfundaraugum til. Atvinnulífið er lykillinn að þessari velferð, á því leikur enginn vafi. Ef ætlunin er að gera enn betur, hvort sem er í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu eða almannatryggingum, er nauðsynlegt að gera íslenskum fyrirtækjum kleift að vaxa og dafna, í friði frá löngum armi hins opinbera. Ganga má svo langt að segja að undirstaða öflugs velferðarkerfis sé að einfalt og ákjósanlegt sé að stofna og reka fyrirtæki á Íslandi.
Íslensk fyrirtæki þurfa að vera samkeppnishæf ef ætlunin er að ýta áfram undir aukna verðmætasköpun, velferð og lífsgæði hér á landi. Auknar álögur eru ekki ákjósanleg leið til þessa. Slíkt hið sama má í raun segja um hvers kyns óþarfa inngrip hins opinbera á frjálsum markaði.
Fátt er reynslunni fróðara
Síðustu dagar og vikur verða seint felldar undir hugtakið gúrkutíð. Af nægu hefur verið að taka fyrir fjölmiðla þessa lands. Yfirlýsingar einstakra þingmanna - og ráðherra, ef út í það er farið - um fjölmiðla og ríkisstyrki til þeirra hafa vakið verðskuldaða athygli og vakið marga til umhugsunar. Sjaldan hafa óæskilegar afleiðingar ríkisinngripa verið jafn áberandi, jafnvel þótt góður ásetningur hafi alla tíð legið að baki íhlutunarinnar.
Styrkir til einkarekinna fjölmiðla hafa verið greiddir úr ríkissjóði allt frá árinu 2020. Markmið styrkjanna er m.a. að efla lýðræðishlutverk fjölmiðla en óumdeilt er að hlutverk fjölmiðla er að upplýsa almenning og að hafa vakandi auga með valdhöfum sem fjórða valdið. Ljóst er að göfug markmið lágu, og liggja enn, að baki styrkveitingum. Margur fjölmiðillinn á hins vegar rekstur sinn undir téðum ríkisstyrkjum og má vart við því að breytingar verði gerðar á greiðslunum. Augljóst er að slíkt veikir fjölmiðla í lýðræðislegu hlutverki sínu, enda eiga þeir nú fjárhagslega hagsmuni undir allri umfjöllun um stjórnmál og stjórnmálafólk. Valdhöfum er enda í lófa lagt að breyta úthlutunarreglum ef og þegar umfjöllun fjölmiðla er þeim óhagstæð.
Segja má að ein óæskileg afskipti hins opinbera af frjálsum markaði, þ.e. rekstur Ríkisútvarpsins, hafi leitt af sér önnur enn óæskilegri inngrip - styrki til einkarekinna fjölmiðla. Ríkið reynir með styrkjum að laga markaðsbrest sem það sjálft hefur skapað með ægivaldi RÚV á auglýsingamarkaði. Öllum má vera ljóst að þessi ítök og inngrip ríkisins hafa mikinn kostnað í för með sér. Þrátt fyrir það hefur reynst torvelt að ná fram breytingum í átt að auknu frelsi, einföldunar og hagstæðara rekstrarumhverfis.
Það er brýnt að læra af reynslunni, þá sérstaklega þegar lexían er jafn skýr og raun ber vitni. Ríkið á, og þarf, að leyfa einstaklingum og fyrirtækjum að vaxa og dafna og skipta sér sem allra minnst af, sé þess nokkur kostur.
Undantekningin sem sannar regluna
Engin er þó reglan nema til sé undantekningin. Það er nefnilega ekki svo að öll afskipti hins opinbera séu af hinu illa. Undraverður árangur Íslands á sviði nýsköpunar á undanförnum árum á um margt rætur sínar að rekja til nokkurra lykilaðgerða af hálfu hins opinbera. Aðgerða sem stuðlað hafa að því að Ísland er nú ein mesta nýsköpunarþjóð í heimi á marga mælikvarða. Jafnvel hafa sumir gengið svo langt að fullyrða að hvergi sé betra að vera nýsköpunarfyrirtæki en á Íslandi. Grunnstoðum íslenska hagkerfisins hefur verið fjölgað um eina.
Mýmörg ný fyrirtæki hafa sprottið upp í kringum þá umgjörð sem sköpuð hefur verið í kringum hugverkaiðnaðinn hér á landi. Önnur eldri og rótgrónari fyrirtæki hafa einnig notið góðs af. Ekki nóg með það, þá hefur ríkið sjálft notið góðs af í formi milljarða króna skattgreiðslna af rekstri og sölu vaxandi fyrirtækja. Nú síðast 40 milljarða vegna sölu hugverkaréttinda Kerecis til móðurfélagsins Coloplast. Munar sannarlega um minna.
Þegar hið opinbera einbeitir sér að því að draga úr umsvifum sínum, einfalda rekstrarumhverfi fyrirtækja og hvetja einstaklinga áfram til góðra verka með ívilnunum græða allir.
Forskot í boði ríkisins?
Titill Viðskiptaþings í ár er ekki úr lausu lofti gripinn. Ísland hefur á undanförnum árum tekið stórstígum framförum á fjölmörgum sviðum viðskipta- og efnahagslífs. Þessar framfarir og hugmyndaauðgi íslenskra viðskiptamanna hefur verið drifkraftur aukinna lífsgæða og styrkra stoða íslenska hagkerfisins um árabil. Hér má þó ekki staldra við og láta deigan síga. Nýta þarf þann árangur sem náðst hefur sem stökkpall til að skapa Íslandi áfram sterka stöðu á alþjóðavettvangi og huga að nýjum vaxtarsprotum sem geta leitt okkur inn í framtíðina.
Stöðugt þarf að leita leiða til að gera betur, forskoti þarf stöðugt að viðhalda. Þar spilar hið opinbera lykilhlutverk. Það er nefnilega erfitt að ná forskoti á nokkurn mann hlaupandi um með íþyngjandi ökklalóð í boði ríkisins. Veitum atvinnulífinu andrými til vaxtar, öllum til heilla.
Höfundur er formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins.
Greinin birtist í sérblaðinu Viðskiptaþing 2025.