Vægast sagt skrýtin – að ekki sé sagt annarleg – frétt birtist á Vísi síðastliðinn laugardag. Hún fjallaði um að það hefði komist upp um gyðing sem spilaði með Sinfóníuhljómsveit Íslands í síðustu viku.
Það var Rafn Ágúst Rafnsson blaðamaður sem fletti ofan af þessu reginhneyksli í hinni arísku hljómsveit við ysta haf. Í fréttinni gerir hann því skóna stjórnendur Sinfóníunnar hafi reynt að halda því leyndu fyrir tónleikagestum að fiðluleikarinn væri ísraelskur ríkisborgari þar sem þess var ekki getið sérstaklega á kynningarefni. Það hafi verið gert eftir að einhverjir kvörtuðu við Sinfóníuhljómsveitina að gyðingur væri að troða upp með henni.
Nú er erfitt að gera upp við sig hvort sé aumkunarverðara: Að fréttamenn hjá stóru skráðu fyrirtæki telji það ekki bara frétt, heldur hneykslunarfrétt að gyðingur leiki á fiðlu með Sinfóníuhljómsveitinni eða einhverjir smáborgarar ef ekki verr innréttað fólk kvarti yfir því við stjórn hljómsveitarinnar.
Fiðluleikarinn heitir Vadim Gluzman. Hann er ísraelskur ríkisborgari en á rætur að rekja til Úkraínu. Hann er heimsþekktur fyrir fiðluleik sinn og kemur fram með helstu sinfóníuhljómsveitum heims – og það án þess að það sé tilefni sérstakra mótmæla eða hneykslisfrétta um uppruna hans.
Í fyrstu frétt Vísis er því haldið fram að Gluzman sé umdeildur. Það er ekki útskýrt frekar í fréttinni og ekki er hægt að finna þeirri fullyrðingu neina stoð nema mögulega í hugarheimi blaðamannsins. Um þetta segir Magnús Lyngdal Magnússon, sem meðal annars sér um tónlistargagnrýni á síðum Morgunblaðsins, á þræði sem spannst við frétt Vísis á samfélagsmiðlum:
„Fréttin hefst svona: „Umdeildur ísraelskur fiðluleikari lék með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum í Eldborg í Hörpu í fyrradag …“ Nú fylgist ég nokkuð vel með heimi klassískrar tónlistar og þekki vel til og langar því að spyrja: Hvar er Vadim Gluzman umdeildur og fyrir hvað? Fyrir það að vera Ísraeli? Fyrir það að hafa gegnt herskyldu í Ísrael? Fyrir það hvernig hann leikur á fiðluna? Þetta er með öllu óskiljanlegt. Hann er ekki umdeildur, heldur nýtur virðingar og kemur m.a. fram með bestu hljómsveitum veraldar sem einleikari. Er búið að banna Ísraelum að ferðast til Íslands? Gluzman er fæddur í gömlu Sovétríkjunum, Úkraínu nánar tiltekið, og aukalagið sem hann lék á tónleikunum í Hörpu er eftir úkraínskt tónskáld.“
Þetta var skammarleg „frétt“ hjá Vísi, einhver ógeðfelldur endurómur af slagorðinu „Kauft nicht bei Juden“. En hvernig fer það saman við yfirlýsta samfélagsábyrgð Sýnar, ESG-leiðbeiningar Nasdaq sem félagið segist fara eftir, nú eða bara almenn hegningarlög, er önnur saga sem hlýtur að kalla á frekari skýringar.
Fleiri furðufréttir hafa birst á Vísi undanfarið. Eins og flestir lesendur þessa blaðs vita þá ákvað peningastefnunefnd Seðlabankans að halda stýrivöxtum sínum óbreyttum síðastliðin miðvikudag.
Þessi skilaboð virðast ekki hafa skilað sér upp á Suðurlandsbraut þar sem fréttastofur Stöðvar 2 og Vísis eru til húsa. Þannig mátti á Vísi lesa frétt um að Seðlabankinn hefði ákveðið að hækka raunvexti.
Seðlabankinn gerði ekkert slíkt. Raunvextir eru sem kunnugt er nafnvextir að frádregnum verðbólgu og voru þeir jafnháir þegar fulltrúar peningastefnunefndarinnar gengu til náða þriðjudagskvöldið 6. febrúar og þegar þeir vöknuðu daginn eftir.
Morgunblaðið hefur að undanförnu fjallað um fyrirhugaða byggingu brúar yfir Fossvog. Svo virðist sem Vegagerðin og aðrir sem koma að brúarsmíðinni eigi í mestu erfiðleikum með að gera sér grein fyrir hvað framkvæmdirnar munu kosta þegar allt er yfir staðið.
Eins og fram kom í Morgunblaðinu 7. febrúar gerði upphaflega kostnaðaráætlunin ráð fyrir að brúin myndi kosta um tvo milljarða en síðan þá hefur kostnaðarmatið fjórfaldast. Blaðið leitaði svara hjá Bergþóru Þorkelsdóttur, forstjóra Vegagerðarinnar, hvers vegna kostnaðarmatið við byggingu brúarinnar hefði margfaldast á nokkrum árum.
Í frétt blaðsins segir:
„Upphaflegar forsendur fyrir keppnina voru að kostnaður yrði 2,2 milljarðar og miðað við það hefur kostnaður við brúna í hið minnsta fjórfaldast, en nú er framkvæmdin metin á 8,8 milljarða. Spurð að því hvernig kostnaður hafi aukist svona mikið á þremur árum segir Bergþóra:
„Upphafleg kostnaðaráætlun fyrir Fossvogsbrú eftir samkeppni í lok árs árið 2021 var rúmir 4 milljarðar og var verkefnið þá á frumdragastigi, sem er fyrsta hönnunarstig, með allt að +100% óvissu á kostnaði. Geta má þess að á verðlagi janúar 2024 samsvarar það rúmum 5 milljörðum króna.“
Hún nefnir að haustið 2023 hafi verið birt uppfærð kostnaðaráætlun, byggð á forhönnun brúarinnar, upp á 6,1 milljarð fyrir Fossvogsbrú og 1,4 milljarða fyrir fyllingar, og nemur því samtals 7,5 milljörðum króna. Frá því í lok árs 2021 hafa orðið miklar verðhækkanir og nefnir Bergþóra að heimsmarkaðsverð á stáli hafi hækkað um 50%. Þar sem brúin er stálmannvirki hefur sú hækkun töluverð áhrif á kostnað brúarinnar.
„Eldri kostnaðartölur endurspegla ekki það mannvirki sem er í undirbúningi í dag. Sé farið lengra aftur var upphaflega verið að undirbúa göngubrú yfir Fossvog sem síðar þróaðist yfir í göngu- og hjólabrú og að lokum var ákveðið að fara í hönnunarsamkeppni á brú fyrir umferð hjólandi og gangandi og almenningssamgöngur, þar með talið borgarlínu.“
Við þetta er ýmislegt að athuga.
Í fyrsta lagi er það áhugavert, svo ekki sé sterkar að orði kveðið, að upphaflega kostnaðarmatið endurspegli byggingu einhvers allt annars mannvirkis en nú stendur til að reisa til að tengja saman Kópavog og Skerjafjörð.
Í öðru lagi er fullyrðing forstjóra Vegagerðarinnar um hækkanir á heimsmarkaðsverði á stáli vafasöm – reyndar meira en vafasöm, hún er beinlínis röng. Heimsmarkaðsverð á stáli hefur ekki hækkað um 50% frá árslokum 2021.
Heimsmarkaðsverð á stáli var tæplega fimm þúsund bandaríkjadalir fyrir tonnið um áramótin 2021-2022 og fór svo yfir fimm þúsund þegar líður tók á árið. Allar götur síðan hefur heimsmarkaðsverð á stáli farið lækkandi. Það stendur nú í 3.900 dölum á tonnið og hefur því lækkað um fjórðung frá því í maí 2022.
Það er eftirtektarvert að forstjóri Vegagerðarinnar tali af svo miklu þekkingarleysi og reyni að halda fram einhverju sem allir geta séð að er tóm vitleysa. Vissulega má láta sér detta í hug að menn hafi keypt allt stálið í brúna vorið 2022 þegar verðið var sem hæst enda væri það mjög í takt við það sem hefur viðgengst í tengslum við opinberar framkvæmdir hér á landi. En það er önnur saga.
Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist í blaðinu sem kom út 14. febrúar.