Rétt fyrir jól var undirritað samkomulag um sameiningu Samkaupa og Heimkaupa sem felur í sér að netverslun Heimkaupa mun renna inn í Samkaupasamstæðuna ásamt verslunum Prís, Extra, 10-11 og þægindaverslunum við þrjár Orkustöðvar. Samkomulagið er afrakstur mikillar vinnu yfir langt tímabil og styður vel við markmið Samkaupa um vöxt og betri nýtingu innviða.
Stór hluti síðasta árs fór í að aðlaga rekstur Samkaupa að nýrri verðstefnu og samkvæmt nýjustu tölum Verðlagseftirlits ASÍ var Nettó eina matvöruverslunin sem lækkaði vöruverð á árinu 2024, sem hlýtur að teljast fréttnæmt í ljósi þess að almennt verðlag hækkaði um 4,5% á sama tíma.
Við lækkuðum einnig verulega verð á nauðsynjavörum í Kjörbúðum og Krambúðum og þótt þetta hafi bitið í afkomu fyrirtækisins til skemmri tíma erum við farin að sjá árangur í aukinni vörusölu og allt er þetta til marks um það hversu einvala lið starfsfólks vinnur hjá Samkaupum.
Fleiri verslanir og aukin velta
Við höfum skorið niður á kostnaðarhliðinni eins og kostur er, en raunveruleikinn er sá að stærð skiptir máli í samskiptum verslana við birgja og framleiðendur. Stærstu verslanakeðjurnar njóta betri kjara.
Að einhverju leyti höfum við náð að fara framhjá þeirri staðreynd með því einfaldlega að flytja meira inn sjálf frá útlöndum, en það skilar manni ekki alla leið. Það var því ljóst þegar við fórum af stað í þessa vegferð að við myndum þurfa að auka vörusölu hjá okkur til að geta styrkt stöðu okkar gagnvart birgjum.
Með því að bæta við okkur verslunum Heimkaupa á Höfuðborgarsvæðinu, í Reykjanesbæ og á Akureyri aukum við veltu fyrirtækisins. Við höfum einnig verið að leita leiða til að nýta dreifikerfi okkar á landsvísu.
Samkaup reka ríflega sextíu verslanir um allt land og er það stærsta net verslana á landinu. Víða erum við að reka einu matvöruverslunina í viðkomandi byggðarlagi og þótt því fylgi vissulega áskoranir að standa í verslanarekstri í fámennari byggðum landsins, felast í því líka mikil tækifæri.
Jaðarkostnaður við að bæta vörum við sendingu sem er á leið út á land er hverfandi og við getum því auðveldlega keppt við hvern sem er í sendingarkostnaði – þar á meðal Íslandspóst. Þess vegna er samruninn við Heimkaup svo spennandi. Heimkaup er ein stærsta íslenska netverslunin og við sjáum mikil og augljós samlegðaráhrif með dreifikerfi Samkaupa og netverslun Heimkaupa.
Styrkjum stöðu okkar á Suðurlandi
Að sama skapi teljum við gríðarlega möguleika fólgna í því að tvinna saman netverslun Heimkaupa og vildarkerfi Samkaupa, sem er það stærsta á íslenskum dagvörumarkaði með um 90.000 vildarvini. Vildarvinir fá inneign af öllum sínum viðskiptum og aðgang að sértilboðum í hverri viku. Með þessu bjóða Nettó verslanir lægsta verð á landinu á helstu heimilisvörum og á landsbyggðinni fá vildarvinir lágvöruverð á helstu nauðsynjavörum.
Stefnan er að breikka vildarkerfi okkar enn frekar til hagsbóta fyrir neytendur um allt land. Það eru gríðarleg tækifæri fólgin í þessu kerfi okkar og í tækninni sem það byggir á. Nýjasta viðbótin eru leikir sem notendur geta unnið til verðlauna og þeir hafa slegið í gegn svo um munar.
Við höfum einnig haldið áfram að stækka verslananet okkar og í desember opnaði ný Nettó verslun á Selfossi við afar góðar viðtökur. Verslunin, sem er sú þriðja sem við rekum á Selfossi, hefur blómstrað frá fyrsta degi og hefur hún styrkt verulega stöðu Samkaupa á Suðurlandi.
Samruninn við Heimkaup og stækkun verslananetsins gera okkur kleyft að færa neytendum betra verð og viðhalda þeim gæðum sem þeir búast við í verslunum Samkaupa. Svo eru í farvatninu breytingar og nýjungar sem verður spennandi að hrinda í framkvæmd á nýju ári. Ég hlakka til að halda áfram á þessari braut með því frábæra fólki sem starfar hjá Samkaupum.