Kvikmyndahúsagestir vita að stundum borgar sig að bíða eftir upptalningunni á hverjir komu að gerð myndarinnar við lok sýningar. Þá koma stundum óvænt myndskeið sem eru stundum skemmtileg eða áhugaverð.

Sjaldgæfara er þó að óvænta atriðið í blálokin sé fyndnara en sjálf myndin. Það átti sér þó stað á gamlárskvöld. Eftir fremur tíðindalítið Áramótaskaup Ríkisútvarpsins birtist svo öllum að óvörum stórgóður brandari sem bar alla skemmtidagskrá kvöldsins uppi.

Hér er auðvitað átt við ávarp Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra að loknu Skaupinu. Reyndar stóð fjölmiðlarýnir í þeirri meiningu að hefðbundið áramótaávarp útvarpsstjóra hefði lagst af. Þeir sem yngri eru muna ekki eftir þessu árlega skemmtiefni ríkismiðilsins sem náði hæstu hæðum á tíunda áratug síðustu aldar í útvarpstíð séra Heimis Steinssonar en ræður hans á tólfta tímanum á gamlárskvöldi náðu oftar en ekki klukkustund í flutningi og á meðan heyrðist ekki í neinum einasta flugeldi springa um gervallt landið.

***

Útvarpsstjórinn hélt landsmönnum límdum við skjáinn á tólfta tímanum á sunnudag og útskýrði hvernig Ríkisútvarpið er í raun og veru grundvöllur íslensks samfélags. Þá sagði hann eitthvað um mikilvægi verndar íslenskrar tungu og tilkynnti við það tilefni nýtt lag sem Ríkisútvarpið lét gera. Athygli vakti að lagið er danskt.

Hinn hofmóðugi útvarpsstjóri sagði jafnframt:

Öflugt ríkisútvarp auðgar íslenska fjölmiðlaflóru og samfélagið í heild sinni enda starfar það dag hvern í þágu öflugs íslensks samfélags og hefur skýru hlutverki að gegna samkvæmt lögum sem Alþingi setur. Þeir fjármunir sem eru varðir til rekstrar RÚV fara beint í framleiðslu og miðlun á efni af öllu tagi í sjónvarpi og útvarpi og á vef – í rekstur öflugrar íslenskrar fréttastofu og upplýsingaþjónustu í formi dagskrárgerðar í útvarpi og sjónvarpi sem stendur vaktina allan sólarhringinn, allan ársins hring.“

Þetta eru eftirtektarverð ummæli og benda til þess að útvarpsstjóri sé með öllu ókunnugur þeim efnahagslega veruleika sem aðrir fjölmiðlar eru reknir í. Íslenskir skattgreiðendur greiða fimm milljarða á ári vegna skylduáskriftar á ríkismiðlinum og á sama tíma sogar RÚV til sín allan auglýsingamarkaðinn á meðan aðrir miðlar verða að gera sér brauðmolana sem detta af borðum að góðu í þeim efnum.

Þetta fé rennur svo til framleiðslu eins og Stefán segir á efni fyrir ljósvakamiðla. Með öðrum orðum rennur það til framleiðslu á efni sem einkareknir miðlar framleiða og miðla oftar en ekki í meiri gæðum en þekkist í Efstaleitinu. Eini munurinn í þessum efnum er kannski sú staðreynd að fé skattgreiðenda rennur einnig til þess að standa straum af árlegu Útvarpsþingi á ári hverju þar sem RÚV mærir sjálft sitt og meint mikilvægi og ógrynni af þáttargerð starfsmanna stofnunarinnar þar sem fjallað er um stofnunina og starfsmenn hennar.

Svo er það þetta með þessa fullyrðingu um að RÚV starfi eftir lögum. Eins og fjallað hefur verið um á þessum vettvangi hefur ríkismiðillinn verið að færa sig upp á skaftið í alls kyns nýmiðlun á undanförnum árum. Þannig hefur RÚV verið iðið að leyfa starfsmönnum að spreyta sig á hlaðvarpsgerð í beinni samkeppni við einyrkja og aðra þá sem hafa stuðlað að þeirri miklu nýsköpun sem hefur einkennt þá tegund fjölmiðlunar.

Í ljósi ummæla Stefáns í áramótaávarpi útvarpsstjóra væri fróðlegt að vita hvort Ríkisútvarpið hafi stofnað dótturfélag um þennan rekstur og hvernig reikningsskilum innan stofnunarinnar vegna hlaðvarpa sé háttað og hvaða upphæðir er þar um að ræða. Starfsmenn RÚV starfa samkvæmt lögum um Ríkisútvarpið og sinna hinu sértæka hlutverki þess en hlaðvarpið er augljóslega á samkeppnismarkaði.

Í 4. gr. útvarpslaga um „aðra starfsemi“ segir: „Ríkisútvarpið skal stofna og reka dótturfélög, sem að fullu leyti eru í eigu þess, fyrir aðra starfsemi en þá sem kveðið er á um í 3. gr.“

Í 5. gr. segir svo: „Halda skal fjárreiðum alls reksturs vegna fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu skv. 3. gr. aðskildum frá fjárreiðum annars reksturs á vegum Ríkisútvarpsins eða dótturfélaga þess. Er Ríkisútvarpinu óheimilt að nota fjármuni frá rekstri skv. 3. gr. til þess að greiða niður kostnað vegna annarrar starfsemi.“

***

Stefán útvarpsstjóri svaraði ekki þessum spurningum enda hefur raunverulegt erindi áramótakveðjunnar sjálfsagt verið eitthvað fleira en að óska landsmönnum gleðilegs árs. Reyndar er það óneitanlega sérstakt þegar opinberir starfsmenn sem leiða ríkisstofnun telja við hæfi að þeir birtist á skjám landsmanna rétt áður en klukkan slær miðnætti við áramót og þylja upp rogginn hversu mikilvægt starf þeir eru að inna úr hendi.

Ef menn vilja halda þessu til streitu er sjálfgefið að útvarpsstjóri sinni þessu hlutverki. Væri ekki alveg eins sjálfsagt að Vegamálastjóri kæmi fram í Ríkissjónvarpinu rétt fyrir miðnætti næsta gamlárskvöld og liti yfir farin veg og minnti áhorfendur á mikilvægi stofnunarinnar? Það hefði engum leiðst ef forstjóri Samkeppniseftirlitsins hefði verið fenginn til að flytja áramótakveðju og fara yfir majónesrannsóknir liðins árs í stað útvarpsstjóra.

Væri ekki einnig vel við hæfi að framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar færi yfir hvernig eftirliti nefndarinnar með hlaðvörpum var háttað á liðnu ári og óskaði svo landsmönnum árs og friðar og kynnti að lokum eitthvað skemmtilegt lag. Vandséð er hvernig verður hægt að ganga frá forstjóra Geislavarna og Þjóðskrár í þessu samhengi.

***

Fleiri forstöðumenn ríkisstofnana virðast hafa sérstakar hugmyndir um starf sitt og erindi. Eins og flestir vita er Facebook mikilvægur farvegur til þess að fanga athygli almennings á fréttum og öðru fjölmiðlaefni. Það vakti því töluverða athygli þegar áramótapistli Höllu Hrundar Logadóttir orkumálastjóra var deilt fimm sinnum á Facebook-síðu stofnunarinnar á nokkrum klukkustundum á þriðjudaginn. Með hverri deilingu fylgdu svo tilvitnanir í þessa grein. Nokkrir starfsmenn stofnunarinnar létu í ljós velþóknun á þessari deilingu með grjóthörðum þumlum á meðan restin af þjóðinni lét sér fátt um finnast.

Það sem er kannski eftirtektarvert við þetta er að Orkustofnun hefur býsna skýrt lagalegt hlutverk, svo sem að standa fyrir rannsóknum á orkubúskap þjóðarinnar, veita virkjunarleyfi og hafa eftirlit með slíkri starfsemi. Grein Höllu fjallaði ekki um það heldur hennar eigin skoðun um að orkan eigi að renna til sumra en ekki annarra. Það er ekki í fyrsta sinn sem hún gerir það á opinberum vettvangi og hafa meðal annars Samtök iðnaðarins fært rök fyrir vanhæfi til að sinna starfi sínu meðal annars vegna þessara pólitísku skoðana.

Látum það liggja milli hluta en það sem skiptir máli í þessu samhengi er spurningin um hvort það sé rétt að ríkisforstöðumenn séu að nota vefsvæði viðkomandi stofnunar til að koma pólitískum hugðarefnum sínum á framfæri? Þætti eðlilegt ef milli tilkynninga um færð á vegum frá Vegagerðinni á Twitter kæmi endrum eins fram reiðilestur vegamálastjóra um VAR-dómgæsluna í enska boltanum eða eitthvað álíka?

***

En það eru ekki bara forstöðumenn ríkisstofnana sem virðast nota sér stöðu sína til að koma áhugamálum sínum á framfæri í fjölmiðlum. Á nýársdag birtist hefðbundin frétt á vef RÚV og Vísis um hversu margir þurftu að leita á slysadeild vegna meiðsla sem hlutust vegna meðhöndlunar flugelda um áramótin.

Blessunarlega þurftu bara tólf að leita sér aðhlynningar. Það getur ekki talist mikil aðsókn svona í ljósi þess að stór hluti þjóðarinnar leggur eld að hundruðum tonna flugelda.

Athyglisvert er að bera saman fréttaflutning RÚV og Vísis. Í báðum fréttum er haft eftir Hjalta Má Björnssyni yfirlækni á bráðamóttöku Landspítalans að slysin sýni hversu brýnt það er að bera hlífðargleraugu þegar höndlað er með flugelda.

Í lok fréttar RÚV segir svo:

„Þrátt fyrir að loftmengun hafi mælst langt yfir viðmiðunarmörkum taldi enginn þeirra sem leitaði á bráðamóttökuna að loftmengun vegna flugelda væri bein ástæða komunnar.“

En í lok fréttar Vísis segir:

Þrátt fyrir að loftmengun virðist samkvæmt mælingum hafa verið langt yfir viðmiðunarmörkum taldi enginn þeirra sem leitaði á bráðamóttöku að loftmengun vegna flugelda væri bein ástæða komunnar,“ segir í tilkynningunni.

Af frétt Vísis að dæma hefur Hjalti Már sjálfur sent tilkynningu á fjölmiðla þar sem hið síðastnefnda er dregið fram þó svo að það sé með öllu ófréttnæmt. Sem kunnugt er Hjalti fyrirferðarmikill í þjóðfélagsumræðunni og leiðir meðal annars félagsstarf lækna með loftlagskvíða. Af þessu að dæma virðast samtökin ekkert skilja af hverju bráðamóttakan fylltist ekki vegna lélegra loftgæða.

Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 5. janúar.