Sjálfbærni í rekstri snýst um að koma á jafnvægi á milli hagnaðarsjónarmiðsins og þess að samfélagið og náttúran njóti góðs af. Sumir telja að sjálfbærnistarf sé kostnaðarsamt lúxusverkefni fyrirtækja. Undanfarna áratugi hefur þó orðið ljóst sjálfbærni er fjárhagslega arðbær hugmyndafræði. Fyrirtæki sem aðhyllast sjálfbæra starfshætti hafa uppgötvað verulegan efnahagslegan ávinning sem sýnir að það sem er gott fyrir jörðina og fólk getur líka skilað fjárhagslegum arði.
Augljósasta merkið um að sjálfbærni ýtir undir arðsemi er kostnaðarsparnaður. Með betri nýtingu auðlinda geta fyrirtæki dregið úr útgjöldum tengdum orku, vatni og hráefnum. Til dæmis hefur Ecomagination ,verkefni General Electric, sem leggur áherslu á sjálfbærar tæknilausnir, sparað fyrirtækinu milljarða í rekstrarkostnaði. Orkuhagkvæmir ferlar og aðferðir til að draga úr úrgangi leiða til lægri orkureikninga og minni útgjalda fyrir hráefni, sem skilar hærri framlegð.
Auknar tekjur geta skapast með því að höfða til nýrra markhópa og markaða. Umhverfissinnaðir viðskiptavinir eru oft tilbúnir að greiða meira fyrir vörur sem styðja sjálfbærni. Fyrirtæki eins og Patagonia útivistarfyrirtækið hefur öðlast fjölda tryggra viðskiptavina vegna umhverfisstefnu fyrirtækisins. Vörur sem auka sjálfbærni geta veitt fyrirtækjum sérstöðu og aðgreiningu frá samkeppnisaðilum. Þessi sérstaða getur laðað að viðskiptavini og aukið markaðshlutdeild.
Þar að auki knýr sjálfbærni oft nýsköpun. Þróun á nýjum vörum og þjónustu mætir vaxandi eftirspurn eftir umhverfisvænum og/eða mannvænum valkostum. Árangur fyrirtækja í Íslenska Sjávarklasanum er dæmi um þetta. Með því að nýta stærri hluta sjávarafurða og þróa verðmætari vörur hefur tekjuaukning aukist til muna fyrir íslensks sjávarfang. Neytendur eru í auknum mæli tilbúnir til að greiða hærra verð fyrir vörur sem slá í takt við þeirra eigin gildi og það skapar aukna framlegð fyrir fyrirtæki sem leggja áherslu á sjálfbærni.
Sjálfbærni eykur einnig orðspor vörumerkja og hollustu. Fyrirtæki sem þekkt eru fyrir umhverfisvernd laða að samfélagslega meðvitaða neytendur og fjárfesta. Þetta traust getur leitt til aukinnar sölu og fjárfestingar. Unilever, til dæmis, komst að því að vörumerki um sjálfbæra lífsstíl uxu 69% hraðar en önnur vörumerki og skiluðu 75% af vexti fyrirtækisins árið 2018. Þetta sýnir hvernig sjálfbærni getur verið lykil drifkraftur markaðsaðgreiningar og samkeppnisforskots.
Ennfremur er reglufylgni og áhættustýring mikilvægur fjárhagslegur ávinningur sjálfbærni. Þar sem stjórnvöld um allan heim innleiða strangari umhverfisreglur, geta fyrirtæki sem tileinka sér snemma sjálfbæra starfshætti sloppið við sektir, lögfræðikostnað og kostnað sem fylgir því að vera eftir á og hlaupa á eftir reglum. Áhættustýring lágmarkar einnig líkur á kostnaðarsömum umhverfisslysum og slysum á fólki. Þessi framsýna nálgun dregur ekki aðeins úr áhættu heldur staðsetur fyrirtæki einnig sem leiðtoga á sínu sviði.
Auðveldara aðgengi að fjármagni næst með því að sinna kröfum fjárfesta um umhverfisstarf, félagslega sjálfbærni og siðferðilega starfshætti. Lægri fjármagnskostnaður næst einnig þegar sjálfbærnistarf gerir reksturinn áhættuminni í augum fjármagnsmarkaðarins.
Að lokum eru fyrirtæki sem leggja áherslu á sjálfbærni aðlaðandi vinnustaðir og eiga auðveldara með að ráða og halda í hæft starfsfólk. Ungt og hæfileikaríkt starfsfólk velur í auknum mæli fyrirtæki sem þau telja að hafi jákvæð áhrif á umhverfið og samfélagið. Sjálfbærni skilar sér þannig í aukinni starfsánægju, minni starfsmannaveltu og aukinni framleiðni starfsfólks.
En, sjálfbærni er ekki töfraorð og ef fyrirtæki lesa ekki rétt í aðstæður getur ómarkvisst sjálfbærnistarf skaðað reksturinn, til að mynda með grænþvotti eða ofuráherslu á afmarkað málefni á kostnað heildarinnar. Sjálfbærni snýst um jafnvægi milli umhverfis, fólks og efnahags.
Það er því ljóst að sjálfbærni ekki bara siðferðilegt val heldur stefnumótandi viðskiptaákvörðun sem getur leitt til verulegs fjárhagslegs ávinnings. Með því að draga úr kostnaði, knýja fram nýsköpun, efla vörumerkjatryggð og stjórna áhættu geta fyrirtæki náð langtímaarðsemi á sama tíma og þau stuðla að sjálfbærri framtíð. Samþætting sjálfbærni í fyrirtækjarekstri hefur reynst hagkvæm þróun fyrir fyrirtæki, jörðina og fólkið sem hana byggir.
Að innleiða sjálfbærni í fyrirtæki krefst nýs hugarfars, þekkingar og færni. Í haust mun Opni Háskólinn í Reykjavík og Festa - miðstöð um sjálfbærni setja á laggirnar Sjálfbærniskólann, röð námskeiða fyrir stjórnendur og sérfræðinga sem vilja auka færni sína til að innleiða sjálfbærni í fyrirtæki sín.
Höfundur er mannauðsstjóri Marel í Norður Evrópu og einn af gestgjöfum Sjálfbærniskólans í Opna háskólanum.