Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra skrifaði pistil í nýjasta tölublað Bændablaðsins þar sem hún boðaði eflingu innlendrar kornræktar vegna hækkandi verðs á erlendum mörkuðum.

Þá varaði hún við “hagfræðikenningum sem komust í tísku upp úr 1980 og snúa meðal annars að sérhæfingu og hagkvæmni,“ sem hafi í för með sér að minna sé til af kornbirgðum hér á landi, sem sé nauðsynleg vara í kjöt- og mjólkurframleiðslu.

Hér snýr Svandís ýmsu á haus. Hin svokallaða tískubylgja aukins viðskiptafrelsis hefur átt hvað stærstan þátt í því að matvælaframleiðsla á heimsvísu hefur stóraukist og lyft milljörðum manna úr örbirgð. Sem dæmi hefur kornframleiðsla meira en tvöfaldast á síðustu fjörutíu árum.

Stríðið í Úkraínu og heimsfaraldurinn munu eflaust leiða af sér bakslag í alþjóðavæðingu síðustu áratuga. Þar þurfa leiðtogar heimsins að hafa í huga reynslu síðasta stóra bakslags alþjóðavæðingarinnar, millistríðsárin. Hvert ríki ætlaði að verða sér að mestu nægt um eigin framleiðslu og lokaði að miklu leyti á utanríkisviðskipti. Reyndin varð sú að hið heimóttarlega viðhorf átti stóran þátt í því að fjármálakreppan í Bandaríkjunum, við upphaf fjórða áratugarins, varð að heimskreppu.

Matvælaráðherra hefur falið Landbúnaðarháskólanum að vinna drög að aðgerðaáætlun til að efla kornrækt. Aðgerðaáætlunin var boðuð í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og er henni ætlað að kanna fýsileika innlends kornsamlags og skilgreina lágmarksbirgðir á kornvöru í landinu. Hugmyndin um kornsamlag er ekki ný af nálinni og hefur verið til umræðu frá því fyrir aldamót.

Meirihluti vinnuhópsins sem vinnur drög að áætluninni er skipaður höfundum greinar sem birtist á Vísi þann 8. apríl á þessu ári. Þar er því meðal annars haldið fram að þar sem ekkert kornsamlag sé starfrækt á Íslandi sé um markaðsbrest að ræða. Eftirspurn sé eftir vörunni en framboðið lítið sem ekkert. Það að takmarkað framboð sé á kornvöru sem framleidd er á Íslandi felur ekki í sér markaðsbrest enda er markaður með kornvöru á Íslandi vel virkur þar sem innflutt korn annar eftirspurninni. Það er því fullt tilefni til að efast um forsendur vinnuhópsins.

Sé eitthvað í regluverkinu því til fyrirstöðu að bændur stofni hér kornsamlag má fagna áformum ríkisstjórnarinnar um að bæta úr þeirri stöðu. Hins vegar getur það ekki fallið í hlut ríkisins að koma að fjárfestingu í þeim innviðum sem aukin kornframleiðsla hér á landi krefst. Til þess höfum við banka og aðra lánveitendur sem bændur geta sótt fjármagn til séu markaðsforsendur fyrir verkefninu.

Fæðuöryggi er oft og tíðum notað sem rökstuðningur fyrir beinum eða óbeinum stuðningi ríkisins við óhagkvæman rekstur í landbúnaði. Öllu alvarlegra er þegar umræðunni er snúið þannig að mikilli neyð eða yfirvofandi hættu er ætlað að skapa þau hughrif að afturhvarf frá viðskiptafrelsi sé rétta leiðin. Í umræðu um eflingu kornræktar í dag er máluð upp mynd af grafalvarlegu ástandi þar sem einungis 1-2 mánaða birgðir af korni eru til - ef í harðbakkann slær muni skepnurnar því svelta. Ekki skal gera lítið úr alvarleika stöðunnar en hún getur hins vegar ekki verið forsenda þess að ríkið taki þátt í áhættufjárfestingu líkt og stofnun kornsamlags hér á landi yrði, enda ekkert því til fyrirstöðu að flutt sé inn erlent korn og það geymt hér með það að markmiði að tryggja fæðuöryggi.

Ísland, sem örríki, getur aldrei framleitt allar vörur sem það neytir með hagkvæmum hætti og mun alltaf þurfa að treysta á frjáls alþjóðaviðskipti. Tískukenningarnar sem Svandís vísar til hafa margsinnis sannað að þjóðir sem nýta sér sína hlutfallslegu yfirburði við framleiðslu, í krafti alþjóðaviðskipta, búa við betri lífskjör en þær sem loka sig af fyrir umheiminum. Niðurstaða íslenskra ráðamanna af hinum hörmulega hildarleik í Úkraínu ætti fremur að vera að tryggja að alþjóðalög séu virt, viðskipti haldist sem frjálsust og að réttur smærri ríkja gagnvart hinum sterkari verði virtur.