Mikil arðsemisskömm virðist ríkja innan Húss atvinnulífsins um þessar mundir. Skildi engan undra enda má vart skapast umræða um meintan ofurhagnað í ákveðnum atvinnugreinum án þess að vinstri menn leggi til aukna skattlagningu á hendur atvinnugreininni.

Nýjasta dæmi þessa eru furðulegar yfirlýsingar Lilju Alfreðsdóttur um að vel komi til greina að fara ítölsku leiðina og leggja hvalrekaskatt á hagnað bankanna. SFF benti í kjölfarið á að íslenskir bankar borguðu sem áður hærri skatta en kollegar sínir á Ítalíu eftir þessa aðgerð ítalskra yfirvalda, auk þess sem arðsemi bankanna hér á landi væri ekki ýkja merkileg í evrópskum samanburði.

Þá neyddist Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, fyrr í sumar til að árétta að ályktanir um arðsemi í byggingariðnaði sem dregnar séu út frá þróun byggingarvísitölunnar gefi ekki rétta mynd og hagnaður greinarinnar hafi helmingast milli ára. Loks hefur Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, staðið í ströngu við að benda á galla misgáfulegra hugmynda um aukna skattheimtu og uppstokkun á einni helstu útflutningsgrein þjóðarinnar.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.