Benedikt Gíslason og hans fólk í Arion-banka komu markaðnum ánægjulega á óvart í vikunni.

Tilkynnt var um að samkvæmt drögum að uppgjöri fjórða fjórðungs er afkoma bankans um 8,3 milljarðar og er arðsemi eiginfjár 13,2%. Þetta er mun betri niðurstaða en greinendur á hlutabréfamarkaði höfðu vænst.

Ástæðurnar fyrir betri afkomu má rekja til afkomu að verðbréfum samsteypunnar og jákvæðari virðisbreytingar eins og segir í tilkynningu bankans. Margir töldu að það síðastnefnda mætti rekja til virðisbreytingar vegna Blikastaðalandsins en nú er verið að kynna uppbyggingu 1. áfanga þess fasteignaverkefnis. En það er ekki alls kostar rétt og þar af leiðandi má leiða að því líkum að Blikastaðalandið sé enn verulega vanmetið í bókum bankans eins og Jón Sigurðsson forstjóri Stoða hefur bent á.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 22. janúar 2025.