Borgartúnssvæðið hefur stundum verið kallað hið íslenska Wall Street af gárungum, enda fjöldi fjármálafyrirtækja sem hafast þar við. Týr er ósammála gárungunum og telur augljóst að Ármúlinn sé svar Íslendinga við Wall Street.
Hið minnsta verður Ármúlinn að teljast hjarta íslensk atvinnulífs. Má segja að í Ármúla finni fólk flest allt sem hugurinn girnist. Á næstu dögum bætist svo enn við flóru Ármúlans er leikskólinn Brákarborg hefur starfsemi í húsnæði að Ármúla 30, sem um árabil hýsti fjármálafyrirtæki.
***
Borgartúnssvæðið hefur stundum verið kallað hið íslenska Wall Street af gárungum, enda fjöldi fjármálafyrirtækja sem hafast þar við. Týr er ósammála gárungunum og telur augljóst að Ármúlinn sé svar Íslendinga við Wall Street.
Hið minnsta verður Ármúlinn að teljast hjarta íslensk atvinnulífs. Má segja að í Ármúla finni fólk flest allt sem hugurinn girnist. Á næstu dögum bætist svo enn við flóru Ármúlans er leikskólinn Brákarborg hefur starfsemi í húsnæði að Ármúla 30, sem um árabil hýsti fjármálafyrirtæki.
***
Eftir að Teya, áður SaltPay, áður Borgun, yfirgaf húsið fyrir um þremur árum síðan beið Týr spenntur eftir hvaða starfsemi myndi fylla í skarðið. Það kom honum að óvörum er húsnæðið var fyllt af unglingum úr Vesturbæ, sem neyddust til að flýja Hagaskóla vegna myglu. Hagskælingar máttu gera sér það að góðu að vera selfluttir úr Vesturbænum í Ármúla með rútum í nærri tvö ár.
Síðasta sumar stóð Ármúli 30 á ný tómur. Nú verður skrifstofuhúsnæðið á ný fyllt af börnum. Í þetta skiptið af ungviði af yngsta stigi skólakerfisins.
Nemendur og starfsfólk Brákarborgar neyðast til að dvelja tímabundið í skrifstofuhúsnæðinu þar sem að ráðast þarf í endurbætur á verðlaunahúsnæði leikskólans, sem eins og frægt er orðið hlaut hina eftirsóttu Grænu skóflu, fyrst allra mannvirkja á Íslandi. Í ljós kom að álag frá ásteypulagi og torfi á þaki leikskólans var meira en tilgreint var á teikningum. Fyrir vikið voru sprungur byrjaðar að myndast í veggjum og dyrakarmar teknir að skekkjast. Sem sagt, húsið var nær að hruni komið.
***
Það er alvarlegt mál að börn og leikskólastarfsfólk hafist við í ótraustu húsnæði. Enn pínlegra er fyrir meirihlutann í borginni að það skuli gerast í húsnæði sem hann ákvað að kaupa og gera upp fyrir vel á annan milljarð króna. Leikskólinn, sem var tekinn í notkun fyrir innan við tveimur árum, bætist því á langan lista klúðra sem hafa átt sér stað á vakt meirihlutans í borginni. Týr veltir fyrir sér hve oft borgarbúar ætla að kjósa þennan meirihluta í borginni yfir sig en ljóst er að þeim fækkar með hverju skiptinu sem borgarbúar verða fyrir barðinu á óstjórn hans.
Allra spenntastur bíður Týr þó eftir því hvaða starfsemi flyst í Ármúla 30 eftir að hluti af þróunarláni meirihlutans hefur verið nýtt til að gera verðlaunahúsnæði leikskólans nothæft á ný. Miðað við þróun síðustu ára spáir hann því að húsnæðið muni næst hýsa fæðingarheimili. Ef vendingar verða enn á ný óvæntar má þó leiða líkur að því að það verði hjúkrunarheimili.
Týr er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.