Það vinna ekki fáir í Fjármálaeftirlitinu.
Þar vinna reyndar mjög margir. En ekki svo margir að þeir komast yfir að svara erindi frá manninum á götunni – kaupmanninum í þessu tilfelli. Í lok október sendi Arnar Sigurðsson vínkaupmaður í Sante erindi til FME vegna yfirlýsingar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins þar sem sjóðurinn lýsir yfir áhyggjum af áfengissölu Hagkaups, dótturfélags Haga, í netverslun.
Arnar skorar á Fjármálaeftirlitið að kanna hvort aðgerðir LSR brjóti gegn lögum og reglum um góða stjórnarhætti, jafnræði hluthafa og armslengdarreglu. Hrafnarnir taka undir með Arnari um að það sé alvarlegt mál að stórir hluthafar reyna að beygja almenningshlutafélög að eigin geðþótta eftir bábiljuhugmyndum lýðheilsufræðinga út í bæ, gegn hagsmunum annara hluthafa. FME er ekki á sama máli og virðist ekki telja erindi Arnars svaravert.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 11. desember 2024.