Sameiningarviðræður Arnars Þórs Jónssonar og Miðflokksins runnu út í sandinn á dögunum.

Sameiningarviðræður Arnars Þórs Jónssonar og Miðflokksins runnu út í sandinn á dögunum.

Eftir forsetakosningarnar í sumar var haft eftir Arnari að þörf væri á stjórnmálaafli sem beitti sér gegn siðferðilegu gjaldþroti heimsbyggðarinnar og gegn því að þriðja heimsstyrjöldin brytist út. Hrafnarnir gefa sér að Arnar annars vegar og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins hafi ekki verið sammála um hvernig eigi að afstýra heimslitum.

Í kjölfarið boðaði Arnar stofnun nýs stjórnmálaflokks: Lýðræðisflokksins. Hrafnarnir telja að það að enn einn smáflokkurinn sé að líta dagsins ljós sé áminning um að endurskoða beri hið galna ríkisstyrkjakerfi til stjórnmálaflokka. Það að stofna flokk er hreinlega hörku bissness á Íslandi. Sósíalistaflokkur Gunnars Smára Egilssonar fær 130 milljónir á kjörtímabilinu fyrir það eitt að hafa boðið fram í síðustu alþingiskosningum. Það er góð arðsemi á þeim fimm milljónum sem kosningabarátta þeirra kostaði. Vafalaust hugsar Arnar sér því gott til glóðarinnar.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskpiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 2. október 2024.