Þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi sendu frá sér fréttatilkynningu í síðustu viku. Í henni er spurt um aðkomu Ásthildar Lóu Þórsdóttur menntamálaráðherra að kjaradeilu kennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Í fyrirspurninni er hemt að“hæstvirtur mennta- og barnamálaráðherra, eða starfsmaður á hans vegum, hafi boðið tveggja prósenta launahækkun til viðbótar við það sem þá var á borðinu. Þetta var kostnaður sem ríkissjóður átti að taka á sig til einhvers tíma í þeim tilgangi að liðka fyrir deilunni“.
Þetta er ekki síst áhugavert í ljósi ummæla sem höfð voru eftir Þorsteini Sæberg, formanni Skólastjórafélagsins og fulltrúa í samninganefnd kennara, þar síðustu helgi. Þá hafði Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari lagt fram miðlunartillögu og útlit var fyrir að lausn í deilunni væri í sjónmáli. Þegar það rann út í sandinn hafði Vísir eftir Þorsteini:
„Ég ætla að leyfa mér að fullyrða það að það var eitthvað annað en peningar sem réðu þarna úrslitum. Ég held að pólitík sé að spila þarna alltof mikinn þátt í þessari deilu. Það séu einhverjir út í samfélaginu sem berjst gegn því að það verði farið af stað í þetta verkefni sem við höfum verið að vinna að með viðsemjendum okkar“.
Þá var haft eftir Magnúsi Þór Jónssyni formanni Kennarasambandsins að ekki hafi náðst að semja vegna “pólitísks hráskinnaleiks”.
Af þessum orðum má ráða að stjórnmálamenn hafi haft einhverja aðkomu að deilunni. Eigi að síður vísaði menntamálaráðuneytið þessu á bug með fréttatilkynningu sem var birt á vef stjórnarráðsins í síðustu viku. Þar segir:
“Að gefnu tilefni vekur mennta- og barnamálaráðuneytið athygli á því að ráðherra og ráðuneytið eru ekki aðilar að kjarasamningum kennara. Hvorki Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra, né starfsmaður á hennar vegum hefur boðið eða gefið vilyrði um launahækkun til kennara.”
***
Þrátt fyrir þessa yfirlýsingu er mörgum spurningum ósvarað. Eins og fram kom í viðtali við Ásthildi Lóu í Morgunblaðinu þá óskaði ríkissáttasemjari eftir aðkomu Hafþórs Einarssonar, skrifstofustjóra í menntamálaráðuneytinu, að deilunni. Aðspurð hvers vegna að óskað hefði verið eftir aðkomu Hafþórs sagði ráðherra að það væri sennilega vegna þess að hann sé “mjög lausnamiðaður og flottur”. Svo bætir ráðherrann við að hún hafi ekki hugmynd um aðkomu skrifstofustjórans að deilunni. Morgunblaðið hefur eftir Ásthildi:
„Ég hef ekki hugmynd um það. Hann upplýsti sennilega sáttasemjara um það sem hann taldi að væri okkar sýn á málin. Hann hitti ekki kennara.“
Þetta er ekki sérlega trúverðugt. Það er í meira lagi undarlegt að einhver skrifstofustjóri í menntamálaráðuneytinu – flottur og lausnamiður skrifstofustjóri svo að því sé haldið til haga – fari á fund með ríkissáttasemjara án nokkurs umboðs frá ráðherranum sem hefur svo ekki hugmynd um hvað var rætt. Er það virkilega ásættanlegt svona út frá stjórnsýslusjónarmiðum að skrifstofustjóri í ráðuneytinu fundi með ríkissáttasemjara um það sem “hann telur vera okkar sýn á málin”, svo vitnað sé til orða ráðherrans?
Af þessu má ráða að fjölmiðlar eigi eftir að finna svör við fjölmörgum spurningum sem vakna upp við þetta mál. Ekki síst í ljósi ummæla Heiðu Bjargar Hilmisdóttir, formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga. Í frásögn Morgunblaðsins segir:
“Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, sagði í samtali við mbl.is fyrr í vikunni að kennarar hefðu mætt í Karphúsið um síðustu helgi með þær fréttir að þeir hefðu vissu um að hægt væri að bjóða þeim meiri hækkanir en voru á borðinu. Hún sagðist hins vegar ekki vita hvaðan þeir hefðu fengið þær upplýsingar.”
Að vísu geta fjölmiðlamenn sleppt því að leita svara við þessum spurningum og tekið Heimi Karlsson, þáttastjórnanda morgunútvarps Bylgjunnar, sér til fyrirmyndar. Hann fékk Ásthildi Lóu í viðtal eftir að fyrirspurn stjórnarandstöðuflokkanna um afskipti ríkisstjórnarinnar af kjaradeilu kennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þar spurði hann ráðherrann: “Þetta upphlaup formanna minnihlutans orkaði á mann eins og þetta væri ægileg synd en maður giskar á að ef þú hefðir stigið inn í þá hefði þjóðin verið mjög ánægð?”
**
Ríkisútvarpið bauð upp á sína eigin fjölmiðlarýni í morgunútvarpi Rásar 2 síðastliðinn fimmtudag. Þá var Ólafur Þ. Harðarson prófessor emeritus kallaður til viðtals við dagskrárgerðarfólkið og var tilefnið að Alþingi er nú að hefja störf.
Meðal þess sem barst í tal var orðræða stjórnmálamanna í garð fjölmiðla að undanförnu. Þá sérstaklega orð Ingu Sælands, formanns Flokk fólksins, um að Morgunblaðið væri falsfréttamiðill og endurómun Sigurjóns Þórðarssonar samflokksmann hennar á sömu skoðun og sá frjói jarðvegur sem þær yfirlýsingar féllu í á samfélagsmiðlum miðað við ummæli og lyndiseinkunnir þingmanna Samfylkingar og Viðreisnar.
Tilefnið var annars vegar fréttaflutningur Morgunblaðsins og annarra miðla í kjölfarið af styrkveitingum til Flokks fólksins úr ríkissjóði án þess að flokkurinn uppfyllti til þess að lögbundin skilyrði og hins vegar að Sigurjón hafi ekki getið þess að hann stundaði strandveiðar í hagsmunaskrá sinni þegar hann tók sæti sem varaþingmaður í fyrra. Hagsmunaskrá Sigurjóns var síðast breytt 5. júní 2024 en hann hóf strandveiðar sínar 7. maí það árið. Sigurjón landaði 17 tonnum síðasta sumar og má ætla að aflaverðmætið hafi numið um tíu milljónum króna. Sem kunnugt er Sigurjón ötull talsmaður fjölgunar veiðidaga strandveiðibáta og mun koma að þeim málum öllum í störfum sínum sem formaður atvinnuveganefndar.
Ólafi þykir ekki mikið til þessa fréttaflutnings koma og viðraði þá skoðun sína í áðurnefndu viðtali. Hann sagði Morgunblaðið vera “áróðursnepil” og ekki áreiðanlegan fréttamiðil líkt og hann var í ritstjóratíð þeirra Matthíasar Johannessen og Styrmis Gunnarssonar.
Ólafur færði ekki önnur rök fyrir þessari skoðun sinni en að Morgunblaðið hafi birt full mikið af fréttum um málefni Flokks fólksins fyrir sinn smekk. Gott og vel og sjálfsagt að stjórnmálaskýrandi hafi þá skoðun en það er álitamál hvort að jafn veigalítil og lítt rökstudd skoðun sem er í raun atvinnurógur gegn þeim fjölda manns sem starfar á þessu eina dagblaði landsins eigi eitthvað sérstakt erindi við hlustendur ríkismiðilsins.
Rétt er að halda því til haga að Ólafur var þarna í ríkismiðlinum að enduróma skoðun yfirlýstra stuðningsmanna Samfylkingarinnar á borð við Hallgrím Helgason sem tók saman einhverja tölfræði um hversu margar fréttir hefðu birst í Morgunblaðinu þar sem að formaður Flokks fólksins. Að ekki sé minnst á Össur Skarphéðinsson, byggingaverktaka og fyrrverandi formann flokksins, sem kom með þá frumlegu kenningu um helgina að Stefán Einar Stefánsson, sem er ásamt Elko og Ora eitt þekktasta vörumerki landsins, hafi komið í veg fyrir myndun nýs meirihluta í borginni með einelti sínu gagnvart Flokki fólksins á vettvangi sínum á Morgunblaðinu.
Það ætti annars ekki að koma neinum á óvart að samhljómur sé milli skoðana Ólafs og Össurar en hermt er að þeir séu ásamt Ólafi Ragnari Grímssyni fyrrverandi forseta í nánasta ráðgjafarliði Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra og ganga dags daglega undir nafninu öldungaráðið meðal landgönguliða Samfylkingarinnar.
Fjölmiðarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill fyrst í blaðinu sem kom út 12. febrúar 2025.