Nýverið varð uppi fótur og fit meðal svokallaðra Swifties, aðdáendahóps poppstjörnunnar Taylors Swifts, eftir misheppnaða miðasölu á komandi tónleikaferð söngkonunnar. Til upplýsinga er Ticketmaster með umsýslu yfir miðasöluna en þegar forsala hófst á tónleikaferð Taylors Swifts um Bandaríkin var eftirspurn eftir miðum svo mikil að miðasölukerfið stóðst ekki álagið og hrundi. Varð það til þess að færri komust að en vildu og biðu margir klukkutímunum saman í rafrænni röð eftir að komast inn á sölusíðuna. Þegar loks var komið að greiðslu rofnaði síðan sambandið við miðasölukerfið og enga miða var að fá.

Ófarir Swifties urðu til þess að pólitíkusar vestanhafs gagnrýndu framkvæmd sölunnar og þá ekki síst stöðu Ticketmaster á markaði. Einhverjir hafa haldið því fram að félagið sé í einokunarstöðu sem veldur því að fyrirtækið getur útilokað keppinauta frá markaðnum, verðlagt miðana of hátt á sama tíma og þeir veita lélega þjónustu, allt neytandanum til ófarnaðar. Í þessu samhengi er áhugavert að skoða meinta einokunarstöðu Ticketmaster og hegðun félagsins í ljósi íslensks regluverks, þ.e. samkeppnislaga nr. 44/2005.

Árið 2010 sameinaðist viðburðarfélagið Live Nation, rekstraraðili stórra tónleikahalla og umboðsskrifstofa, miðasölufélaginu Ticketmaster, undir merkjum Live Nation Entertainment. Samrunanum voru sett skilyrði þar sem hið sameinaða félag var talið vera í markaðsráðandi stöðu, þ.e. fyrirtækið var talið hafa þann efnahagslega styrkleika að geta hindrað virka samkeppni á þeim mörkuðum sem félagið starfar á og geta þ.a.l. starfað að verulegu leyti án þess að taka tillit til keppinauta, viðsemjenda eða neytenda. Í kjölfari fréttafársins í kringum miðasölu Ticketmasters hefur því verið haldið fram að viðeigandi eftirlitsaðili sé að skoða hvort Live Nation Entertainment hafi gerst brotlegt við skilyrðin eða misnotað stöðu sína með einhverjum hætti.

Ýmis háttsemi getur talist til misnotkunar á markaðsráðandi stöðu samkvæmt samkeppnislögum. Misnotkun getur m.a. falist í beinni eða óbeinni kröfu ósanngjarna kaup- eða söluverðs eða annarra ósanngjarnra viðskiptaskilmála; takmarkana á framleiðslu, markaði eða tækniþróun neytendum til tjóns; viðskiptaaðilum mismunað með ólíkum skilmálum í sams konar viðskiptum; og/eða sett sé skilyrði fyrir samningagerð þess efnis að hinir viðsömdu taki á sig viðbótarskuldbindingar sem tengjast ekki efni samninganna, hvorki í eðli sínu né samkvæmt viðskiptavenju.

Live Nation Entertainment hefur verið sakað um ýmiss konar misnotkun á markaðsráðandi stöðu í kjölfari miðasölunnar, þeir eiga m.a. að hafa gert einkakaupasamninga við tónleikasali, selt miða á ósanngjörnu verði og takmarkað tækniþróun. Jafnframt hefur félagið verið sakað um að halda eftir miðum sem síðar eru seldir á uppsprengdu verði á eftirsölumarkaði, en sú ásökun er utan umfjöllunarnefnis greinar þessarar vegna margra óljósra þátta.

Benda verður á að einkakaupasamningur er ekki bara einkakaupasamningur. Ræðst það af efni hvers og eins samnings hvort hann sé í raun einkakaupasamningur og hvort hann teljist misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Það eitt og sér að gerðir séu samningar við tónleikasali þess efnis að þeir beini miðasölu sinni til Ticketmaster telst ekki sjálfkrafa misnotkun. Þótt félög séu í markaðsráðandi stöðu er því ekki bannað að semja við tónleikasali eða tónleikahaldara. Þeim er ekki bannað að starfa á markaðnum og sækja til sín viðskipti. Það eitt að Live Nation Entertainment hafi gert samninga við fjöldann allan af tónleikasölum og tónleikahöldurum leiðir því ekki til markaðsmisnotkunar, meira þarf að koma til.

Ósanngjarnt verð, þ.e. of hátt verð, getur bent til misnotkunar á markaði rétt eins og of lágt verð. Það verður hins vegar ekki sagt að verð í samræmi við eftirspurn sé ósanngjarnt enda myndast sanngjarnt verð út frá samspili framboðs og eftirspurnar. Ósanngjarnt verð leiðir af því þegar félag byggir verð sitt á öðru en framboði og eftirspurn, leggi of mikið álag á miðana eða borgi með þeim. Mikil eftirspurn hækkar eðlilega verðið þegar takmarkað magn er í boði. Það að seljandi ákveði verð sitt í samræmi við eftirspurn getur ekki talist til ósanngjarns verðs nema eitthvað mjög sérstakt komi til. Því er fullkomlega eðlilegt að vara sé verðlögð hærra en ella þegar mikil eftirspurn er eftir henni.

Þá kann að vera að félög í markaðsráðandi stöðu hægi á tækniþróun hjá sér þar sem þau finna ekki fyrir samkeppni sem annars myndi halda þeim á tánum og taka af þeim viðskipti um leið og félög sofna á verðinum, og þróar ekki undirliggjandi tækni. Tækni Ticketmaster er ætlað að koma í veg fyrir að hrægammar (e. scalpers) herji á miðasöluna, þ.e. kaupi upp miðana og selji á sérstökum endursölusíðum á margfalt hærra verði. Tæknin sannreynir notandann og tryggir að hann sé ekki hrægammur sem ætlar sér að kaupa upp miðana og selja á hærra verði. Þessi tækni hefur áður verið notuð með góðum árangri m.a. við miðasölu á tónleika hjá Ed Sheeran. Það eitt að tæknin hafi mögulega ekki virkað sem skyldi verður ekki talið takmörkun á tækniþróun sem teljist til misnotkunar á markaðsráðandi stöðu nema eitthvað sérstakt komi til.

Ávallt verður að líta heildstætt á aðstæður, það eitt að félag sé með umtalsverða markaðsstöðu á markaði leiðir ekki til þess að það teljist hafa misnotað stöðu sína. Aukinheldur ef eitthvað fer úrskeiðis þá gefur það ekki tilefni til þess að það sé vegna misnotkunar. Þótt hendur félaga í markaðsráðandi stöðu séu að einhverju leyti bundnar þá er þeim enn heimilt að starfa og ber því að ganga hægt um gleðinnar dyr þegar ásökunum um markaðsmisnotkun er varpað fram.

Höfundur er laganemi við Háskólann í Reykjavík.