Verðhækkanir hafa verið talsvert til umræðu undanfarið, enda ekki við öðru að búast í tæplega 10% verðbólgu. Spjótin standa á versluninni og er einfalda útgáfan þessi: Verslunin skilar hagnaði og hlýtur því að hafa svigrúm til að taka á sig hækkanir og leggja sitt af mörkum til að vinna gegn verðbólgunni.

Miðað við orð Finns Oddssonar, forstjóra Haga, í Kastljósi í vikunni hefur þetta verið stefna verslunarinnar, þar sem hann sagði prósentuhækkanir aðfanga til þeirra vera yfir 10% á síðustu 12 mánuðum og að sumar algengar vörur hafi hækkað á bilinu 20-50%. Þessi fyrirtæki eru í samkeppni, samband þeirra við viðskiptavini er mikils virði og enginn vill verðleggja sig eða mikilvæg vörumerki út af markaðnum.

Fyrirtækin þurfa ekki einungis að standa undir hærri innkaupakostnaði, heldur líka launum sem hafa hækkað að hluta sem viðbragð við verðhækkunum og þar bítur þetta ástand í skottið á sér. Að auki bera þessi fyrirtæki skyldur gagnvart hluthöfum sínum. Stóru verslunarkeðjurnar eru að stærstum hluta í eigu íslenskra lífeyrissjóða. Ef rekstur félaganna stendur ekki undir væntingum og virði þeirra minnkar skaðar það hagsmuni almennings sem á sjóðina.

En hvað með hagnaðinn? Svo áfram sé vitnað í þetta Kastljósviðtal, kom fram að Hagar skiluðu 4 milljarða hagnaði af rúmlega 136 milljarða veltu á síðasta rekstrarári. Það hljómar eins og svigrúmið sé fundið. En ef að er gáð er hlutfallið innan við 3%. Yfirfært á fjölskyldufyrirtæki sem veltir 40 milljónum á ári væri hagnaðurinn rúmlega milljón. Það má ekki mikið út af að bregða í slíkum rekstri.

Niðurstaðan er sú að það felst ekkert sóknarfæri fyrir neinn í þessu ástandi. Og til að það fari ekkert á milli mála er ég ekki að hvetja til verðhækkana.

Pistillinn birtist í Viðskiptablaðinu, sem kom út fimmtudaginn 12. janúar 2023.